06.12.1966
Efri deild: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 326 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til athugunar það frv., sem hér er til umr. og fjallar um breyt. á l. um útvarpsrekstur ríkisins.

Með tilkomu íslenzks sjónvarps þykir rétt að kveða skýrt á um það í lögum, að sjónvarp sé þáttur útvarps og að ríkisútvarpið skuli annast bæði hljóðvarps- og sjónvarpsrekstur og innheimta skuli afnotagjald bæði af hljóðvarps- og sjónvarpsviðtækjum. Auk þess er með frv. lagt til, að gerðar verði nokkrar aðrar minni háttar breytingar á l., en við 1. umr. málsins hér í hv. þd. kom það fram hjá hæstv. menntmrh., að gagnger endurskoðun útvarpslaganna væri fyrirhuguð, er reynsla væri fengin meiri af íslenzku sjónvarpi.

Menntmn. flytur á þskj. 106 eina brtt. við frv. 1 3. gr. frv. segir í 2. málsl., að ákveða megi í reglugerð, að afnotagjald skuli greiða af hverju viðtæki, þótt fleiri séu en eitt á heimili eða í stofnun. Eins og kunnugt er, er nú aðeins greitt eitt gjald, þótt fleiri en eitt hljóðvarpsviðtæki sé á heimili eða í stofnun, og það mun aldrei hafa verið ætlunin að breyta með þessu frv. þeirri tilhögun á gjaldheimtu af hljóðvarpsviðtækjum.

N. þykir því rétt að kveða skýrt á um, að þetta heimildarákvæði frv. taki aðeins til sjónvarpsviðtækja.

Menntmn. leggur til, að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem n. flytur till. um og ég hef nú gert grein fyrir. En eins og fram kemur í nál. á þskj. 105, áskilja nm. sér þó rétt til þess að flytja brtt. við frv. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.

Ég sé svo ekki ástæðu til, herra forseti, að fjölyrða frekar um málið að sinni.