07.04.1967
Sameinað þing: 31. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í D-deild Alþingistíðinda. (2194)

176. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er aðeins í sambandi við þá hugmynd, sem hv. þm. varpaði hér fram, hvort ekki væri rétt að kjósa mþn. í þetta mál, að ég vildi láta í ljós þá skoðun mína, að ég hef ekki nokkurn hlut á móti þeim vinnubrögðum. Það er ekki fastmótuð hugmynd hjá mér eða ríkisstj. um það, hvernig að málinu verði unnið. Ég tel það höfuðatriði, eins og ég hef lýst í minni frumræðu, að unnið verði á sem breiðustum grundvelli að því, þannig að það má vel vera, að það sé rétt að kjósa í það mþn. Ástæðan til, að það var ekki beinlínis lagt til í till., er fyrst og fremst sú, að það er vitanlegt, að n. sem slík kemur ekki til með að vinna ákaflega mikið í málinu á næstunni, vegna þess að það verður að vinna þarna margvísleg sérfræðileg verkefni, sem er alveg ljóst að verður að ráða ákveðna menn til þess að vinna að, þetta er svo flókið og umfangsmikið mál. En það má vel vera, að það sé rétt, að þingkjörin n. úr öllum flokkum skipuleggi þau vinnubrögð. Það mun taka æðilangan tíma að koma þessum breytingum á, ef það verður niðurstaðan að lögfesta þetta kerfi, og erfitt að segja um, hverjir fara með stjórn landsins, þannig að ég get vel tekið undir það með hv. þm., að það gæti verið æskilegt að reyna að tryggja það, að allir flokkar væru með í þeirri athugun.