17.04.1967
Sameinað þing: 31. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í D-deild Alþingistíðinda. (2202)

177. mál, ellefu hundruð ára afmæli byggðar á Íslandi

Gils Guðmundson:

Herra forseti. Þar sem ég átti sæti í þeirri undirbúningsnefnd, sem hefur nú skilað till. eða réttara sagt hugmyndum um það, hvernig æskilegast væri að minnast ellefu hundruð ára afmælis byggðar á Íslandi, vildi ég segja nokkur orð hér nú.

Ég vil byrja á því, að þakka hæstv. forsrh. og hv. S. þm. Norðurl. v., þeim sem hér hafa talað, fyrir góðar undirtektir undir þetta nál.

Þegar n. fór að starfa, komu brátt fram ýmsar hugmyndir, ég vil segja margar hugmyndir, og það varð fljótlega ofan á í n., að rétt væri, þegar þær hefðu verið ræddar allýtarlega innan n., að koma þeim öllum á framfæri, þ.e.a.s. öllum þeim hugmyndum, sem nm. almennt töldu að væru álits- eða umhugsunarverðar, — koma þeim á framfæri, enda þótt einstakir nm. legðu að sjálfsögðu misjafna áherzlu á þær hugmyndir, sem eru nefndar í áliti n. En nm. varð brátt ljóst, að það kostaði töluverða vinnu og fyrirhöfn, þegar ætti að fara að velja á milli hinna stærri verkefna, sem á er bent í nál., og væri þess vegna eðlilegt, að Alþingi, áður en að því kæmi, segði til um, hverjar af megintill. það teldi þess eðlis, að rétt væri að kanna þær nánar, enda þótt sú könnun hefði nokkurn kostnað í för með sér. Þess vegna má segja, að hér komi fram ef til vill fleiri ábendingar og till. en líklegt má teljast, a.m.k. í fljótu bragði, að hægt verði að gera að veruleika. En í sambandi við störf og hugmyndir n. vil ég þó aðeins benda á það, að hún hefur engan veginn hugsað sér, að allar framkvæmdir í sambandi við það að minnast þessa stórafmælis yrðu á vegum ríkisins, hin hefur alls ekki hugsað sér það, heldur leggur hún ríka áherzlu á það, að kannaðir verði möguleikar á að skipuleggja ýmsa aðila til þess að velja sér ákveðið verkefni og vinna skipulega að því að koma einhverju slíku verkefni í framkvæmd fyrir eða á þessari hátíð.

Sem eitt dæmi um slíkt sameiginlegt verkefni ákveðinna aðila er tekin og dálítið útfærð hugmyndin um að gefa út, t.d. á þremur árum, hefur manni dottið í hug, mjög stórt og myndarlegt úrval íslenzkra bókmennta í ellefu aldir, og hugmynd n. er þá ekki sú, að þetta verði fyrst og fremst og eingöngu kostað af ríkinu, heldur verði reynt að fá bókaútgefendur til samstarfs um þetta verkefni og hver a.m.k. hinna stærri bókaútgefenda tæki að sér að gefa út ákveðinn flokk, kannske 4–8–10 bindi, í þessu verki, en heildarskipulag þess yrði þó að vera á vegum einhverra ákveðinna aðila, Sem okkur datt þá í hug að yrði kannske greitt af því opinbera, en þetta væri að öðru leyti kostað af þeim útgefendum, sem fyrir eru í landinu eða hefðu hug á að taka þátt í slíkri myndarlegri útgáfu í tilefni af þessu afmæli. Þannig mætti að okkar dómi skipuleggja eða gera tilraun til þess að skipuleggja ýmis önnur samtök, bæði félagssamtök og hagsmunahópa, til þess að velja sér eða taka upp samkv. ábendingum eitthvert myndarlegt verkefni, sem hægt yrði að hrinda í framkvæmd í sambandi við þetta ár.

Varðandi það, hvað gera ætti á Þingvöllum, komu fram ýmsar hugmyndir innan n., og ég held, að ég megi segja, að allir nm. hafi verið á einu máli um, að það sé ekki æskilegt út af fyrir sig að gera Þingvelli að allt of fjölmennum ferðamannastað, þ.e.a.s. það er engan veginn stefna n. að koma þar upp stórum hótelum og öðru slíku, til þess að þar verði sífelldur straumur ferðamanna. En hitt var hugmyndin, að kanna nánar, hvort það væri ekki orðið tímabært að koma upp því, sem hér er kallað „þjóðarhús“, þ.e.a.s. allmyndarlegu húsi, ekki stórhýsi, á Þingvöllum, sem geti orðið til margvíslegra hátíðanota og við meiri háttar tækifæri og það væri tengt svæði, þar sem mannfjöldi gæti horft á og hlýtt á það, sem fram færi, eins og allvíða tíðkast erlendis, þó að það sé vitanlega að sumu leyti örðugra hér við okkar veðurskilyrði en víða erlendis að halda útihátíðir. Þetta var hugmyndin, að þarna þyrfti að koma samkomuhús, sem væri tengt útileikvangi eða hvað sem það yrði nú kallað, og hægt að hafa þar meiri háttar hátíðir og samkomur.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. lagði allmikla áherzlu á nauðsyn Alþingis á því að koma sínum húsnæðismálum í gott horf og varpaði því frsm, hvort ekki væri myndarlegt verkefni að setja sér það mark að koma upp nýju þinghúsi árið 1974. Vissulega tek ég undir það, að þarna er brýn þörf og hefur lengi verið fyrir hendi. N. taldi hins vegar, eins og fram kemur í álitinu, að hún gæti ekki tekið þetta verkefni út úr öðruvísi en að benda á, að það hafi verið lengi í höndum Alþingis og hlyti að verða í þess höndum að leysa það mál, og vissulega held ég, að n. mundi fagna því, ef það tækist að finna farsæla lausn á því í sambandi við þetta afmæli.

Ég er samþykkur meginatriðunum í þeirri þáltill., sem hér liggur fyrir, að n. verði falið að vinna betur að þessum hugmyndum og að hún fáí nauðsynlega aðstöðu til þess að leggja í einhvern kostnað í sambandi við þá úrvinnslu.

Ég vil að lokum aðeins leggja á það áherzlu, að ef sú hugmynd n. kæmist í framkvæmd, að hægt yrði fyrir þessa hátíð að virkja, ef svo mætti segja, fjölda stofnana, samtaka, fyrir utan einingar eins og hreppa og sýslur, kaupstaði, um ákveðin, afmörkuð verkefni, sem æskileg væru og þessar stofnanir og þessi samtök hefðu áhuga á og aðstöðu til að vinna að, — ef þetta væri hægt í nokkuð stórum stíl, væri vissulega hægt að gera þessa þjóðhátíð að því leyti eftirminnilega, að þess gæti þá séð margvíslegan stað, að til hennar hefði verið stofnað og hún hefði farið fram. Ég vildi fyrir mitt leyti ekki leggja minnsta áherzlu á þetta atriði í framhaldsstörfum þessarar n., þó að ég játi að vísu, að það er í alla staði eðlilegt, að Alþingi og ríkisvald setji sér myndarlegt mark í sambandi við þessa hátíð, hvort sem það yrði nú nýtt alþingishús, þjóðarhús á Þingvöllum eða þetta hvort tveggja.