12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 84 í D-deild Alþingistíðinda. (2221)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að segja nokkur orð við þessa umr. í tilefni af þeirri till. til þál. um endurskoðun vegáætlunarinnar fyrir árin 1967 og 1968, sem hér liggur fyrir og hæstv. samgmrh. hefur lagt fyrir þingið.

Ég vil hefja mál mitt á því að taka undir það, sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði hér áðan, að það er mjög á annan veg en ætti að vera hjá hæstv. samgmrh. að leggja ekki þessa till. til þál. fyrir Alþ fyrr en nú undir þinglok. Og þetta er engan veginn meinlaust. Ég vil leyfa mér í sambandi við það atriði að lesa hér upp það, sem vegal. frá 1963 segja um þetta mál. Þar segir svo:

„Leggja skal fyrir sameinað Alþingi till. til þál. um vegáætlun samkv. 10. gr. samtímis frv. til fjárl.“

Nú væri kannske hægt að segja, að þetta sé ekki sú vegáætlun, sem þarna er rætt um, heldur endurskoðun vegáætlunar, en í þeirri sömu grein stendur enn fremur:

„Sama gildir um till. til þál. um endurskoðun vegáætlunar, sbr. 15. gr.

Sem sé, fyrirmæli laga um það, hvenær endurskoðun vegáætlunar skuli lögð fram, eru hin sömu og um það, hvenær vegáætlun til fjögurra ára skuli leggja fram. Það verður að segjast, því miður, að það er alveg ótvírætt, að þessi meðferð, sem málið hefur sætt af hálfu hæstv. ráðh., er ótvírætt lögbrot, og er leitt til þess að vita, að þannig skuli hafa verið með farið. Ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi einhverja afsökun fyrir þessu, en fyrir því að brjóta lög, sem sett hafa verið á hinu háa Alþ. og staðfest á löglegan hátt, er yfirleitt talið erfitt að finna afsakanir.

Nú má kannske segja sem svo, að þetta, hvenær vegáætlunin er lögð fram, skipti ekki ákaflega miklu máli, og e.t.v. mætti segja, að ef áætlunin væri lögð fram skömmu eftir að fjárl. hafa verið lögð fram, skipti það ekki miklu má9i og mundi ekki vera að því fundið. En hér er meira um að ræða. Við afgreiddum fjárl. fyrir 1967 fyrir jól. Þá áttum við náttúrlega að hafa þessa endurskoðun í höndum. En nú er komið fram í aprílmánuð, þegar áætlunin er lögð fram, og þingi fer að ljúka. Ég verð að láta í ljós, eins og ég hef gert, mjög mikla óánægju yfir þessu, svo að maður taki vægt til orða, og þetta kemur sér ekki vel. Ég vil segja t.d., að okkur þm. Norðurl. e. hafa nú í vetur verið að berast á ýmsum tímum ýmis erindi um vegamál á okkar svæði, og við höfum yfirleitt tekið þessi erindi fyrir og afgreitt þau á þann hátt, sem okkur hefur sýnzt rétt fyrir okkar leyti á þessu stigi, til vegamálastjóra. Svo vitum við ekki neitt fyrr en eftir dúk og disk, undir lok þingsins, að þetta plagg kemur fram, og ég sé það við lestur þessa plaggs, að ekkert einasta af þessum erindum hefur verið tekið til greina að neinu leyti.

Nú má auðvitað segja sem svo, og auðvitað getur hæstv. ráðh. sagt það og þeir aðrir, sem að þessu hafa unnið, að eins og fjármálum veganna sé háttað og því öllu, sem í kringum það er, sé nú erfitt um vik að veita úr vegasjóði, jafnvel þótt um litlar fjárhæfir sé að ræða En þó held ég, að það gæti nú skeð, að ef þessi till. hefði legið fyrir, sérstaklega ef hún hegði legið fyrir áður en fjárlög voru afgreidd í vetur og a.m.k. eitthvað fyrr, hefði e.t.v. verið hægt að finna einhver ráð til þess, kannske í samráði við hæstv. ráðh., að sjá honum fyrir einhverjum fjármunum í þessu tilfelli. Ég veit náttúrlega ekkert um það, hvort fleiri þm. úr fleiri kjördæmum hafa þessa sögu að segja, en mér þykir ekki ólíklegt, að svo kunni að vera. Það er á allan hátt ákaflega meinlegt að fá ekki þetta plagg í hendur fyrr, og þess vegna er það auðvitað, sem lögin mæla svo fyrir, að það skuli vera lagt fram á þeim tíma, sem þau mæla fyrir um. Það er í alla staði haganlegast.

Ég hefði nú haft nokkra löngun til þess að ræða almennt um sjálfa vegáætlunina og vegamálin í heild, en ætla ekki að taka tíma til þess nú, enda hefur það verið vel gert af öðrum og eftir er 2. umr. um þetta mál. Ég geri því ráð fyrir, að ráðrúm verði til þess að koma á framfæri við n. eða þá við 2. umr. till. um einhverjar lagfæringar, þar sem því verður við komið innan ramma þessa kerfis. Ég skal ekki hafa fleiri orð um það.

En ég get ekki stillt mig um það, úr því að ég er að ræða þessi mál og af því að ég hlýddi á ræðu, sem hæstv. samgmrh. flutti í gærkvöld um annað mál, að mér þóttu nokkuð hlálegir og dálítið til þess fallnir að ýfa það upp, hvað vegirnir eru nú víða vanhaldnir um þessar mundir, þeir prósentureikningar, sem hæstv. ráðh. var með í sambandi við það, hvort vegaframlög hefðu hækkað í seinni tíð. Hann fékk þar út töluvert háar prósentur á vissan hátt. En ég mundi vel treysta mér til þess að benda honum á vissar veilur, sem voru í þeim prósentureikningi, vissa hluti, sem hann bar saman og ekki voru sambærilegir, t.d. það, að nú erum við að fást við verk, mjög dýr verk, sem ekki kom til greina að fást við hér fyrrum, vegna þess að það skorti til þess tækni. En ef hæstv. ráðh. vildi fá út mjög háar prósentur, hefði hann náttúrlega getað fengið þær miklu hærri, ef honum hefði bara komið það í hug. Hann hefði t.d. getað borið þessa vegáætlun saman við árið 1900, þegar engin bifreið var til í landinu. Það hefði hann getað gert. Hann hefði fengið enn þá hærri útkomu og glæsilegri út úr því. En það, sem hann er að gera m.a., er að bera saman fjárveitingar núna, þegar bifreiðar í landinu eru um 40 þús., við það, sem var, þegar þær voru kannske 16 þús. eða þar um bil. En það er samt ekki þessi veila, sem ég var að tala um áðan aðallega í sambandi við samanburð hans. Svona prósentureikningar hafa ekki mikið gildi, ekki ákaflega mikið praktískt gildi. Það, sem hefur gildi, er að athuga þörfina, athuga viðfangsefnin og hvað hægt er að gera til þess að ráða þar bót á. Og þó að það sé kannske að leggja lykkju á leið sína, get ég alveg tekið undir það, sem hv. 4. þm. Sunnl. sagði hér áðan, að það er náttúrlega brýnni þörfin á því að leggja verulegar fjárhæðir í að bæta vegakerfi landsins heldur en að leggja þær í sjónvarp. Það er alveg rétt, sem hann sagði um það. Og þó að sjónvarp sé sjálfsagt ágætt fyrir þá, sem þess geta notið, er það því miður ekki nema takmarkaður hluti af þjóðinni, — ég segi því miður, þó að um það megi kannske deila. En það er einkennilegt, og það er eiginlega þess vegna, sem ég er nú að minna á þetta, sem hv. 4. þm. Sunnl. sagði áðan, að það er eins og mönnum finnist það hinn mesti búhnykkur og svo sem eins og alveg sjálfsagt, að til þess að koma upp sjónvarpsstöðvum í landinu, sjónvarpskerfi, skuli lagðir til innflutningstollarnir, sem greiddir eru af viðtækjum sjónvarps, — það sé hinn mesti búhnykkur og eiginlega alveg sjálfsagt. En þegar vegirnir eiga í hlut, er allt annað uppi á teningnum. Hér hafa verið uppi till. alveg hliðstæðar um það að taka — ekki innflutningsgjöldin öll, heldur bara einn þátt af þeim, þ.e.a.s. leyfisgjaldið, til þess að leggja í vegina, — alveg hliðstæð till. og að leggja innflutningsgjald af sjónvarpstækjum í sjónvarpsstöðvar. En þetta þykir ekki búhnykkur. Það er ekki nokkur leið, eins og sakir standa, til að fá hæstv. samgmrh. og hv. þingmeirihl. til að fallast á það.

Sem sé, nauðsyn fyrir vegi er eftir þessu að dæma minni í landinu en nauðsyn fyrir framkvæmdir eins og sjónvarp. Þetta kalla ég nú reyndar að raða verkefnum með nokkurri óverklagni. En þess vegna leyfi ég mér að minnast á það, sem hv. 4. þm. Sunnl. sagði áðan, að mér finnst það svo áberandi og átakanlegt, að menn skuli ekki koma auga á það eða viðurkenna það, að hér er um alveg hliðstæð mál að ræða að því er fjáröflun varðar. En hitt er ekki hliðstætt, að önnur framkvæmdin er náttúrlega enn nauðsynlegri en hin, og það er sú, sem er nauðsynlegri, sem nú verður út undan.

Um þetta skal ég svo ekki ræða meira, en kem þá að því, sem ég vildi hreint ekki láta hjá líða að minnast á einmitt við fyrri umr. málsins og biðja hæstv. ráðh. og þá hv. n., sem fær málið til meðferðar, að taka til athugunar.

Í XI. kafla vegal, 66. gr., segir svo:

„Nú þykir ástæða til að halda vegi akfærum með snjómokstri, og skal þá telja þann kostnað með öðru viðhaldi vegarins. Heimilt er vegamálastjóra að binda slíkt vetrarviðhald því skilyrði, að allur slíkur kostnaður eða nokkur hluti hans verði endurgreiddur með framlagi úr héraði, sé um þjóðveg að ræða. Sömu heimild hefur sýslunefnd að því er sýsluvegi snertir.“

Þetta ákvæði um snjómokstur er að verða stórmál og var raunar þegar orðið það, þegar lögin voru sett árið 1963, enda urðu, ef ég man rétt, allmiklar umr. hér .í þingi um það þá. En í grg. þeirrar till., sem hæstv. ráðh. hefur lagt fram, segir svo: „Meðaltal kostnaðar við vetrarviðhald undanfarin tvö ár hefur því verið um 12.2 millj. kr. á ári, miðað við verðlag 1. febr. í ár. Öll þessi ár hefur snjómokstur verið framkvæmdur samkv. reglum, sem settar voru árið 1958. Samkv. þeim reglum greiðir vegagerð ríkisins allan kostnað við snjómokstur á 1337 km eða 15.7% af vegakerfinu og einnig kostnað við opnun vega á vorin og oftast fyrsta mokstur á haustin. Á öðrum vegum er því aðeins mokaður snjór, að helmingur kostnaðar fáist greiddur úr héraði.“ Á árinu 1966 hefur þessi kostnaðarliður numið 17 millj. kr., að því er mér sýnist, þ.e.a.s. á tímabilinu desember—apríl. Það er þó sennilegt, að eitthvað sé um snjómokstur og klakahögg fyrr að vetrinum og síðar á vorin. Þetta er það, sem ríkissjóður hefur greitt, skilst mér, til snjómokstursins.

Nú er það svo, eins og þarna stendur, að vegagerð ríkisins greiðir allan kostnað við snjómokstur á 1337 km eða 15.7% af vegar kerfinu. Á öðrum vegum er því aðeins mokaður snjór, að helmingur kostnaðar fáist greiddur úr héraði, náttúrlega ekki á öllum vegum, enda ekki von til þess, eins og vegakerfið er orðið langt. Nú veit ég, að þetta eru reglur, sem settar hafa verið af vegamálastjórninni, þar sem tilgreindir eru þeir vegir, sem vegagerðin telur sér skylt að moka. Og annaðhvort í grg. eða í framsögu hæstv. ráðh. eða kannske hvort tveggja var eitthvað um það rætt, að þessar reglur ætti að endurskoða. Ég vildi mælast til þess við n., sem fær málið til meðferðar, að hún fengi í sínar hendur, sem hún hefur kannske þegar gert, — þetta er fjvn., — fengi í sínar hendur þessar reglur um þessa snjómokstursvegi, hverjir þeir séu, sem vegagerðin annast allan snjómokstur á, og að hún kynnti sér, hverju til stendur að breyta í þeim efnum. Ég vildi mega vænta. þess, að hæstv. samgmrh. legði þar lið sitt til, að n. fengi þetta í hendur og að það væri gert kunnugt. Ég sé ekki ástæðu til annars. Í þessum málum á að ríkja réttlæti, og ég er alveg viss um það, að eins og nú standa sakir, er hér ekki farið fullkomlega rétt að. Og það er kannske vorkunnarmál, því að þessar reglur hafa sennilega verið að þróast og umferðin er breytileg. En auðvitað verður að miða reglurnar um snjómokstur við vetrarumferðina, ekki við heildarumferðina á vegum allt árið, heldur við vetrarumferðina og þá nauðsyn, sem á henni er.

Ég vildi skjóta því fram til athugunar í þessu sambandi, að mér finnst, að það væri eðlilegt og sanngjarnt, að út frá öllum verzlunarstöðum eða svo til, þar sem byggðarlög hafa viðskipti sín, sæi vegagerðin um snjómokstur algerlega á einhverjum kafla, kannske mislöngum eftir því, hvernig til hagar, en alls staðar einhverju, sem miðað væri þá við þörfina á flutningum eftir vegunum, kannske ekki endilega alltaf þörfina í tonnum, heldur við hina tilfinnanlegu þörf fólksins, sem á heima á þessum svæðum. Ég hefði gjarnan viljað, að mér mætti auðnast það, áður en umr. um þetta mál lýkur, að sjá endurskoðaðar reglur um þessa hluti, snjómoksturinn, og tekið væri tillit til þessa sjónarmiða. Menn verða að viðurkenna, að þetta er sanngjarnt. Það er ekki síður nauðsyn, þar sem menn þurfa að flytja alls konar nauðsynjavörur til og frá verzlunarstað, að halda slíkum vegarköflum opnum heldur en jafnvel vegum milli héraða fyrir farþega og póst. Hitt er svo auðvitað mál, að það er ekki hægt að gera kröfur til þess að öllum vegum sé haldið opnum. Þetta verður að reyna að meta, en það má ekki gleyma svona fólkinu víðs vegar um landið, sem liggur lífið á, ef svo mætti segja, að eitthvert lágmark af vegum né opið, og það á sanngirniskröfu á því, að vegagerðin taki það hlutverk að sér á sama hátt og um þessa 1337 km, sem hún hefur nú alveg á sinni könnu. Ég er ekki að tala um alla vegi, heldur vegarkafla, sem notaðir eru sameiginlega af heilum byggðarlögum.