18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í D-deild Alþingistíðinda. (2229)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Eins og hv. þm. er kunnugt. var sú tíðin, að mjög skorti fé til vegagerða á Vestfjörðum. En eftir 5 ára baráttu okkar hv. 1. þm. Vestf. Hermanns Jónassonar, rofaði loksins nokkuð til. Við fluttum frv. á hverju þingi í 5 ár um lánsfé til vega á Vestfjörðum. Það hafði farið fram athugun á því allrækileg þá nokkru áður, hvernig ástand veganna væri yfirleitt í landinu, og samkv. þeim skýrslum kom það ótvírætt í ljós, að enginn landshluti bjó við slíkt ófremdarástand í vegamálum sem Vestfjarðakjálkinn. Þrátt fyrir það fékkst engu um þokað lengi vel. En loksins kom að því, að almenningsálitið var orðið það sterkt heima fyrir, að hæstv. ríkisstj. taldi sér hyggilegt að fallast á eitthvert lánsfé til þessa landshluta, eftir að sýnilegt var, að fólksflóttinn var álvarlegur þaðan að vestan. Það var ekki fyrr en hæstv. ríkisstj. sá fram á fólksflóttann í svo stórum stíl, að þeir vöknuðu við og þá á þann hátt að leita til flóttamannasjóðs til þess að reyna að stöðva fólksflóttann að vestan. Þetta var gert og þar fengið lánsloforð, og af því hefur nú verið mylgrað nokkru í vegi þar fyrir vestan.

En menn skyldu samt ekki halda, að það væru komnir glæsilegir vegir þar þrátt fyrir þetta. Stjórnarliðið hafði algert einræði í því að skipta því lánsfé, sem samþ. var loksins að veita til þessa landshluta, og því var skipt á þann hátt, að það var lagt í örfáa vegi, aðalvegi út frá tveimur stöðum, út frá Ísafirði til nágrannakauptúna og út frá Patreksfirði. Ekki einn einasti eyrir af þessu fé kom í alla Strandasýslu og ekkert í Austur-Barðastrandarsýslu að undanteknu því, að einn vegarkafli nær nokkur hundruð metra austur fyrir sýslumörk Vestur- og Austur-Barðastrandarsýslu. Hins vegar voru fjárveitingar úr vegasjóði mjög skornar við nögl, það þótti sannarlega nóg að láta Vestfjörðum í té lánsfé, svo að þær voru mjög litilfjörlegar móts við það, sem hefði þurft að vera. Af þessu leiðir það, að þó að nokkurt átak hafi verið gert í aðalvegum út frá þessum tveimur stöðum, sem ég nefndi, hafa engar vegabætur átt sér stað í ýmsum héruðum og það í heilum sýslufélögum, ekki hreyft við nýbyggingu vega í sumum sveitarfélögunum.

Það verður aldrei stöðvaður fólksflótti úr neinu byggðarlagi með því móti að leggja féð bara í einhverja ákveðna bletti og skilja hitt eftir svo að segja afskiptalaust. Það er líka að koma í ljós, að fólkinu fækkar allört í ýmsum byggðarlögum, sem engar eða sama og engar vegabætur hafa fengíð. Við hv. 5. þm. Vestf. höfum því flutt brtt. við vegáætlunina á þskj. 571. En við flytjum þær till. bæði við lánsfjárkaflann og fjárveitingakaflann, og við flytjum þær við lánsfjárkaflann, af því að þar er auðvitað rúm fyrir það. En hvað snertir fjárveitingakafla vegáætlunarinnar, er það að segja, að við teljum, að vegasjóður eigi inni hjá ríkissjóði allmikið fé, sem er ríkisframlag, sem samþ. var við samningu vegal. 1963. Þá var því heitið, að fjárveiting skyldi aldrei vera minni en 47 millj., svo að þá er ógreitt til vegasjóðsins frá ríkissjóði um 94 millj. núna, og við treystum því, að hæstv. ríkisstj. lumi nú á þessari upphæð og láti hana í té, þegar svona mikið liggur á. Á því byggjum við það að flytja till. um fjárveitingar úr vegasjóði við vegáætlunina nú. Það eru allt smáar fjárveitingar, sem við leggjum til. Þær eru nokkuð margar, af því að byggðarlögin eru mörg, sem litlar eða engar vegabætur hafa fengið, en eru nauðsynlegar samt fyrir þetta fólk, ef það á ekki að halda áfram að flýja burtu, eins og það hefur gert viða allt fram að þessu.

1. till., sem við flytjum, er fjárveiting, 600 þús. hvort árið, 1967—1968, til Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. Það stendur þannig á því, að það er orðið æðilangt, líklega 15—20 ár, síðan lagður var að nafninu til vegur um þessa sveit. Það er kafli af Vestfjarðavegi, en aldrei fullgerður og ekkert nálægt því. Megnið af þessum vegi er bara ruðningur. Og hann er svo sérkennilegur, þessi vegur, að það eru aldrei svo miklir þurrkar að sumri til, að það séu ekki pollar til á veginum af og til. Það er einkennileg náttúra. Þetta sveitarfélag hefur engar vegabætur fengið af nýbyggingarfé, síðan kjördæmabreytingin komst á, skipti nákvæmlega um þá. við leggjum því til, að þessi upphæð sé veitt í þann vegarkafla.

Þá er Barðastrandarvegur um Rauðsdal. Það er stuttur kafli, sem er algerlega ólagður, og hefur ekki fengizt nein fjárveiting í hann á undanförnum árum. Það eru 450 þús. aðeins á þessu ári, sem við ætlumst til að verði veittar í þennan kafla og ekki taki því að skipta því á 2 ár.

Þá er næsta till., Laxárdalsvegur, 300 þús. kr. á árinu 1968. Þetta er vegur, sem liggur úr Dalasýslu norður í Hrútafjörð og er farinn, þótt vondur sé, og farinn allmikið öll sumur. Hann er að sjálfsögðu lokaður á veturna. En það hefur engin fjárveiting verið í þennan veg ákaflega lengi. Hann nær í tvö kjördæmi, þ.e.a.s. hann nær á milli Vesturlandskjördæmis úr Dölunum og norður í Hrútafjörð. Það er sá hlutinn, sem er Hrútafjarðarmegin, sem við leggjum til að þessi litla upphæð sé veitt í, og er þá ekki nema byrjunin á því að gera hann færan.

Næsta till. er um 300 þús. kr. hvort árið fyrir sig í Reykhólasveitarveg. Eins og menn vita, á að vera læknir á Reykhólum, þó að hann sé enginn þar núna. En hann er þó þar öðru hverju. Þar er barnaskóli, þar er mjólkurstöð í uppbyggingu, og þar er útibú frá kaupfélagi. Þar er presturinn, og þar er tilraunastöðin. En vegurinn þangað lokast af snjóum oft og einatt, og auk þess nær hann ekki nema nokkuð af þeirri leið, sem hann á að ná. Til þessa leggjum við til, að einar 300 þús. kr. séu veittar hvort árið fyrir sig.

Þá leggjum við til, að í Fjarðarhlíðarveg í Múlahreppi verði veittar 150 þús. kr. næstu 2 árin, en það má heita, að það, sem eftir er af byggð í þessum hreppi, sé úti á þessu Múlanesi. Þar eru 5 bæir og skammt á milli þeirra. Allir aðrir bæir í þessum hreppi eru komnir í eyði nema einn. Er því ekki ástæðulaust að veita þessa smáupphæð, til þess að þessir bæir fari ekki sömu leiðina.

Þá er það Rauðasandsvegur. Við leggjum til, að 350 þús. kr. sé varið á þessu ári í Bjarngötudal. Það er svo komið fyrir Rauðasandinum, þessari litlu, en blómlegu og fallegu byggð, að þar eru eftir 6 bændur, en voru á mínum ungdómsárum 13, og það er ekki sýnilegt annað en þeir fari allir, þessar jarðir fari allar í eyði á næstu árum, ef ekkert verður að gert. En ein af höfuðástæðunum fyrir því, að svona er komið fyrir þessu byggðarlagi, er vegurinn í svokölluðum Bjarngötudal. Það er bratt niður dalinn og vegurinn liggur í sneiðingum niður hlíðina og er hættulegur, eins og hann er og hefur lengi verið, það hættulegur, að menn hafa hrapað þar nokkrum sinnum fram af þessum vegi. Mjólkurflutningar eiga að fara þarna fram annan hvern dag árið um kring, en falla niður oft og einatt, vegna þess að þessi vegur er klakabólstrar mikið af vetrinum, síðan snjóar yfir oft og einatt, og þá er lífsháski að aka þessa leið. Ég vil segja, að þessi fjárveiting eigi að gera tvenns konar gagn, annars vegar að afstýra slysahættu, hins vegar að afstýra því, að þetta byggðarlag hverfi alveg.

Þá kemur 3. till. í þessum landsbrautakafla Það er Örlygshafnarvegur, Vörðubrekka, 300 þús. krónur. Ríkið á stofnun í Breiðuvík, barnaheimili, myndarlegt að mörgu leyti, en vegurinn er þannig í þessari Vörðubrekku, að hann lokast við hvað lítinn snjó sem er svo að segja og er auk þess mjög viðsjárverður. Hvað sem kann að koma fyrir á þessu ríkisheimili þarna, t.d. þarf að ná á lækni, verður að fara þessa leið. Það sýnist því ekki til mikils mælzt, að greitt verði nú fyrir því, að þessi ríkisstofnun geti haft samband við Patreksfjörð, þar sem læknir er eða á að vera, þar sem viðskiptin eru við þetta heimili og fleira af sama tagi.

Þá er það Kollsvíkurvegur, 400 þús., sem við leggjum til að veitt verði, en þarna er hálfgerður vegur yfir svo kallaðan Hænuvíkurháls, og mundi þessi upphæð sennilega duga til þess að gera hann færan og jafnvel viðunandi fyrst um sinn. Í hann hafa fengizt smávegis fjárveitingar að undanförnu, en samt vantar a.m.k. þetta á til þess að ljúka við hann.

Í 4. till. er Ketildalavegur í Arnarfirði, sem er alllangur vegur, ég held einir 26 km eftir endilangri sveitinni, en gersamlega óviðunandi. Þetta er einn af þeim vegum, sem engin fjárveiting hefur fengizt til tvö kjörtímabil. Við leggjum til að 300 þús. kr. verði veittar í þennan veg hvort árið fyrir sig, og dugir það að sjálfsögðu ekki, en jafnframt 100 þús. kr. til þess að leggja veg heim að Selárdalskirkju, en enginn vegur liggur þar heim, en vegir heim að kirkjum og félagsheimilum eru þjóðvegir. Þarna er nú eitt dæmið enn, sem sýnir, hvað af því hefst að hirða ekki um fjárveitingar í þessa vegi um sveitirnar. Hreppurinn er svo að segja allur kominn í eyði og það fyrst og fremst vegna; vegasambandsins.

Þá er það Svalvogavegur í Dýrafirði, 400 þús. kr. Þessi vegur á geymda smávegis fjárveitingu. Mig minnir, að hún sé eitthvað um 135 þús. En úti á nesinu er viti, Svalvogaviti, og auk þess eru tveir bæir þar skammt frá, sem eru algerlega einangraðir, og að vetri til engin leið að komast frá þessum bæjum, hvað sem liggur við, nema á sjó, ef það er hægt. En þarna er engin höfn heldur, svo að þetta fólk býr í ákaflega viðsjárverðri einangrun og hættulegri. Bæirnir Lokinhamrar og Hrafnabjörg ásamt Svalvogavita eru í svo hættulegri einangrun, að úr þessu verður að bæta. Slysavarnafélag þar fyrir vestan leggur ákaflega mikla áherzlu á það, að þarna verði hafizt handa um að gera eitthvað í þessum vegi, og ef þessi fjárveiting fengist, mundi verða hægt að komast þann kaflann, sem erfiðastur er.

6. till. er um Ingjaldssandsveg eða Sandsheiði. Við leggjum til, að það verði varið 250 þús. kr. hvort ár fyrir sig í þennan veg. Þessi heiði er algerlega lokuð alla vetur svo að segja, ef eitthvað er um snjóa, og snjóar eru varla svo litlir, að þessi heiði sé ekki lokuð. En þau níu heimili, — ég held, að ég muni það rétt, að það séu níu bændur þarna núna, — þessi 9 heimili eru einangruð nema frá sjó, en þarna er engin höfn, heldur er byggðin fyrir opnu hafi. Þetta er til þess að ráða bót á þeirri viðsjárverðu einangrun.

Þá er 7. liður, sem er smávægilegur, 100 þús. kr. til þess að leggja þjóðveginn heim að Ögurkirkju. Ég ók þarna í sumar sem leið, og þar er búið að aka eða réttara sagt tæta í sundur túnið fyrir bóndanum gersamlega á breiðum kafla, vegna þess að enginn er vegurinn heim. Þetta er samt einn af þjóðvegum ríkisins. Það er ekki nein sérstök frekja, held ég, að láta ekki tæta meira af túninu niður fyrir bóndanum, af því að ríkið vanrækir skyldu sína.

Í 8. lið a. er það Vatnsfjarðarvegur, smáupphæð, 150 þús. Það er til þess að tengja Vatnsfjarðarveg við Djúpveg, og vantar ekki nema herzlumuninn að ljúka þessu verki. Sama er að segja um veginn heim að Vatnsfjarðarkirkju, sem enginn er. Við gerum till. um, að hann sé bættur, enda ekki við það unandi, að þessir kaflar, þó að þeir séu stuttir, séu skildir eftir. Til þess voru þessir þjóðvegakaflar teknir inn í þjóðvegatölu, að það á auðvitað að leggja þá.

Og síðari liðurinn í þessari till. er Laugardalsvegur, 150 þús., og þarf ég ekki að skýra það.

Þá kem ég að 9. till. Það er Snæfjallastrandarvegur. Það hefur verið svo á undanförnum árum, að við höfum, þm. Vestfjarða, lagt á það mikla áherzlu, að Snæfjallastrandarhreppur verði ekki lengur einangraður frá öðrum byggðarlögum vegna vegleysu. Og það verður að viðurkenna það, að loks fékkst mikilsvert átak í þessu. Það var byggð myndarleg brú yfir Mórillu, sem rennur í Kaldalón. Þá vantaði ekki nema herzlumuninn til að tengja hreppinn við vegakerfið. Það var vegur frá brúnni og út með lóninu, tiltölulega stuttur spotti, og svo eru veittar á vegáætlun í fyrra 300 þús. kr. til að ljúka við þennan spotta En þá skeður það, að fjárveitingin er tekin í viðhald, að ég kalla, og get ég rökstutt það, að það var ekkert annað en viðhald, sem fjárveitingunni var eytt í. Það var styrktur garður, sem liggur að brúnni, með grjóti, af því að hann var farinn að bila, og í það fór öll fjárveitingin. Þetta kalla ég viðhald, og ég tel því, að þarna sé inneign, sem eigi að skila, og þess vegna leggjum við til, að þessi fjárveiting sé veitt.

Strandasýsla hefur ekki verið ofalin á vegaframkvæmdum að undanförnu. Hún fékk ekkert af lánafénu, sem veitt var á sínum tíma, og því leggjum við til, að smávægilegar upphæðir verði veittar samkv. 10. lið, 200 þús. kr., til þess að tengja nyrzta bæinn, Seljanes, við Ingólfsfjörð.

D-liðurinn er 150 þús. kr. hvort ár fyrir sig til byrjunar á vegi milli Stranda og Gilsfjarðar. Það er stytzta leiðin, og þar er fjallgarðurinn lægstur, en þetta er auðvitað ekki nema byrjunin. Það er nánast til þess að viðurkenna það, að það eigi að koma þarna vegur.

Og loks eru það 100 þús. kr. hvort árið til þess að tengja, Steingrímsfjörð eða Staðardal, Hrófbergshreppinn, við þjóðveginn á Þorskafjarðarheiði.

Við erum með eina till. um brú, það er nú ekki meira. Það hefur ekki fengizt enn fé til þess að byggja brú á Steinadalsá, en

Steinadalsá rennur um Bitruna og er á veginum, þegar farið er milli Geiradalshrepps og Bitrufjarðar. Þessi á er mjög vond. Þó er þetta ekki stór brú, hún er stutt, en áin er vond og bókstaflega hættuleg. Auk þess er einn bær þarna í sveitinni, sem er einangraður öðrum megin við ána. Við gerum okkur vonir um, að þessi fjárhæð muni duga í þessa brú.

Ég kem þá að þeim kaflanum, sem snertir lánsfé. Er þá fyrsta till. Gemlufallsheiði. Þegar lánsfénu var skipt niður á vegi í vegáætluninni fyrir tveimur árum, þá var, eins og ég sagði áðan, öllu fénu skipt á fáa vegakafla út frá Ísafirði annars vegar og út frá Patreksfirði hina vegar. Skiptingin náði til vega, sem náðu til Bolungarvíkur, Súðavíkur, Suðureyrar í Súgandafirði, Flateyrar í Önundarfirði, og þó ekki nema að nafninu til, — það var lítilfjörleg upphæð, — en til Þingeyrar þurfti ekki að veita sérstaklega fjárveitingar af lánsfé, vegna þess að þjóðvegurinn liggur um Þingeyri. Lengra var ekki hugsað. Lengra skyldu ekki fjárveitingar ná af þessu lánafé. Það var gert myndarlegt átak í Breiðadalsheiði, sem er nú aðalfarartálminn, og einnig í Botnsheiði til Súgandafjarðar með fjárveitingum. En ein heiðin, Gemlufallsheiði, milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar, fékk svo litla fjárveitingu, að hún dugir ekki að hálfu. Þess vegna leggjum við til, að 1.8 millj. fáist á þessu ári í þessa heiði, svo að hún njóti nokkurn veginn jafnréttis við hinar.

Önnur till. í þessum kafla er Barðastrandarvegur, Kleifaheiði, 1.7 millj. hvort árið fyrir sig. Þegar lánsfé var skipt og skipt niður á vegi út frá Patreksfirði, náði það til vegarins norður til Tálknafjarðar og Bíldudals á annan veginn, á hinn veginn suður á flugvöllinn í Patreksfirðinum, í Sandodda, en byggðarlagið Barðastrandarhreppur, sem er fjölmennur hreppur að austanverðu við Kleifaheiði, það byggðarlag er allt einangrað. Það fékk ekkert af lánsfénu. Það getur ekki notað sér flugsamgöngurnar á Patreksfjörð, þó að það séu tiltölulega fáir km á milli, þ.e.a.s. langtímum saman, vegna snjóa á Kleifaheiði. Auk þess eiga þeir öll sín viðskipti að sækja yfir þessa heiði, læknisþjónustuna og afnot af sjúkrahúsi, ef á þarf að halda. Við viljum bæta úr þessu ástandi, sem er ekki viðunandi.

Í b-liðnum er till. um fjárveitingu til Tröllatunguheiðar, 2 1/2 millj. hvort ár. En Tröllatunguheiði er á milli Gilsfjarðar og Steingrímsfjarðar. Hv. þm. vita það nú sennilega, að þeir, sem búa í Reykhólasveit og Geiradalshreppi, eru meira og minna innilokaðir umfram aðra að vetri til, ekki aðeins vegna snjóa, heldur vegna ísa, því að Gilsfjörð leggur allan, ef nokkur veruleg frost eru. Langtímum saman er allur Gilsfjörður ein íshella og langt út á Breiðafjörð, og þá eru allar bjargir bannaðar þessu fálki, nema ef hægt er að nota loftið. Nú er enginn læknir þarna. Það verður að sækja lækni annaðhvort til Búðardals, ef hann er þá þar, eða til Steingrímsfjarðar, ef fært er yfir þessa heiði. En þarna er aðeins ruddur vegur, sem er fær jeppum að sumri til, en engu farartæki að vetri til, hvernig sem viðrar.

B-liðurinn er um Tálknafjarðarheiði, hálf önnur milljón hvort árið. Það er sökum þess, að ekkert fé var veitt í kaflann út í Tunguplássið, sem nú er orðið allfjölmennt, enda er mikill atvinnurekstur þar og fer sívaxandi, en vegurinn ófær langtímum saman. Þennan veg verður fólkið, sem þarna býr, að fara, ef það ætlar að leita læknis, hafa viðskipti við Patreksfjörð eða hafa afnot af sjúkrahúsinu þar.

Og loks er undir þessum lið Flateyrarvegur, og um hann má alveg sama segja og Tálknafjarðarveg, að þeir eru innilokaðir, því að þeir gata ekki haft samband eða komizt á aðalþjóðveginn, nema bættur sé verulega þessi stutti kafli. Þess vegna leggjum við til, að einar 500 þús. kr. verði veittar í hann, svo að Flateyri njóti sama réttar og Suðureyri, Bolungarvík og Súðavík, en það vantar mjög á, að svo sé.

Síðasta till. er í Djúpveg, þ.e. frá Eyri í Seyðisfirði að Skarði í Skötufirði, 2 1/2 millj. annað árið, 3 millj. hitt. Ísafjarðardjúp eða svo kallað Inndjúp er ekki í neinu vegasambandi við Ísafjörð, hvorki sumar né vetur. Það er enginn vegur, sem tengir byggðarlögin inni í djúpinu við Ísafjörð. Þó hafa íbúar þessara sveitarfélaga öll sín viðskipti við Ísafjörð, öll venjuleg viðskipti, hvort sem eru verzlunarviðskipti eða vegna annarra þarfa, læknis, sjúkrabúss eða hvers sem er. Það hefur dálítið áunnizt að lengja þennan veg, svo að það má heita, að hann sé kominn að Eyri í Seyðisfirði. En þá er eftir alllangur kafli inn í Skötufjörð til þess að ná saman endunum. Á þetta er ákaflega mikil áherzla lögð þar vestra, sem eðlilegt er, af fólkinu í þessum mörgu sveitum, en þar eru fjögur sveitarfélög, sem eru einangruð frá vegakerfinu, bæði sumar og vetur, þ.e.a.s. vegakerfinu við Ísafjörð, og auðvitað bæði við Ísafjörð og önnur byggðarlög á landinu að vetri til, því að Þorskafjarðarheiði er reyndar lokuð allan veturinn og meira en hálft árið. Þess vegna er ákaflega mikil áherzla lögð á að þoka þessum vegi áfram sem fyrst til þess að koma sambandi þarna á. Okkur er ljóst, að þessi vegarkafli, sem eftir er, kostar allmikið, en það er óhjákvæmilegt að hraða því verki nokkuð.