18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (2233)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Unnar Stefánsson:

Herra forseti. Fyrir réttum 7 árum eða hinn 27. apríl árið 1960 mælti ég hér í hv. Sþ. fyrir till. til þál. um undirbúning brúargerðar á Ölfusá hjá Óseyrarnesi, og var þá samþ. að vísa þeirri till. til ríkisstj. Um þessa till. og þetta mál hefur verið heldur hljótt hér á hinu háa Alþ. hin síðari ár, og þess vegna leyfist mér væntanlega að láta í ljós ánægju með þann lofsverða áhuga, sem nú er kominn fram í þessu máll með tillöguflutningi þriggja þm. Sunnl., Helga Bergs, Ágústs Þorvaldssonar og Óskars Jónssonar, um þetta mál, þar sem þeir leggja til núna á næstseinasta degi þessa Alþ. og næstaeinasta degi kjörtímabils þess, sem nú er senn á enda, að við tökum þetta mál upp.

Umræddur vegur er mjög athyglisverður og ánægjulegt, að það skuli vera vaknaður áhugi á honum með þessum hætti hér, þótt seint sé. Þessi leið, Hafnarskeiðsvegur með brú á Ölfusárósi, mundi tengja Þorlákshöfn við þorpin Eyrarbakka og Stokkseyri. Leiðin þar á milli nú er 50 km, en mundi styttast niður í 10 km.

Nokkur breyting hefur orðið á högum Þorlákahafnar, þar sem hún er orðin landahöfn og ríkið hefur tekið að sér að veita henni forsjá, hefur þegar varið stórfé til hafnarframkvæmda þar og hefur gefið fyrirheit um að gera það áfram. Gildi hafnarinnar í Þorlákshöfn nýtist ekki til fulls, fyrr en umrædd samgöngubót hefur orðið og tengt þessa landshöfn, sem miklar vonir eru bundnar við, við þorpin gömlu á Suðurlandsströndinni, Eyrarbakka og Stokkseyri.

Þess er skemmst að minnast, fyrir nokkrum vikum, að tveir bátar af fjórum í eigu Stokkseyringa eða helmingur af fiskiflotanum gereyðilagðist á einni nóttu vegna þess, hve hafnarskilyrði þar eru ófullkomin. Stokkseyringar hafa ráðið bót á þeim hnekki, sem atvinnulífið hefur orðið fyrir, með því að fá sér leigða tvo báta. Þeir eru svo stórir, að þá hefur orðið að gera út frá Þorlákahöfn, og síðan verður að flytja fiskinn á bifreiðum frá Þorlákshöfn til Stokkseyrar eða um leið, sem er fram og til baka 100 km, en gæti orðið 10 eða 20, ef þessi mikla samgöngubót kæmist á. Ég vek athygli á þessu atriði hér, vegna þess að í vissum skilningi mætti líta svo á, að hér væri um að ræða úrbætur í hafnarmálum þessara tveggja þorpa, sem hafa mikla afkastagetu og mannvirki og margt fólk, sem hefur búið bar um langa hríð.

Ég mundi í sambandi við þessa hugmynd og till. vilja bera fram fsp. til hæstv. samgmrh., þó að ég geri mér grein fyrir, að það sé e.t.v. ekki í anda þingskapa að gera það án þess að gera það formlegar. Í vegáætlun þeirri, sem hér liggur fyrir, er reiknað með framlögum til Þrengslavegar, 3.2 millj. árin 1967 og 1968. Til hraðbrautar, sem kallast Suðurlandsvegur, er hins vegar varið á sömu árum 1967 17.75 millj. og 1968 37.3 millj., og má ég leyfa mér að spyrja, hvort ákveðið hafi verið, hvar Suðurlandsvegur á að liggja. Á hann að liggja yfir Hellisheiði eða á hann að liggja um Þrengsli? Ég vil láta í ljós ánægju með þær framkvæmdir, en æskilegt væri að fá hugmynd um, hvar þetta fyrirhugaða vegarstæði á að koma

Erindið var það að láta í ljós ánægju yfir áhuga þeim, sem er vaknaður á þessum Hafnarskeiðsvegi, og því upphafi, sem nú virðist vera að átökum í lagningu vegar austur yfir fjall, gerð varanlegs vegar yfir Hellisheiði eða á öðrum stað, þar sem væntanlegt vegarstæði kemur til með að verða.