18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í D-deild Alþingistíðinda. (2234)

184. mál, vegáætlun fyrir árin 1967 og 1968

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Á þskj. 598 flytjum við þrír þm. Norðurl. v. ásamt hv. 5. landsk. þm. brtt., fáar að vísu:

1. till. .er um það, að veittar verði 86 þús. kr. til vegagerðar að Ábæjarkirkju í Skagafirði. Þessi vegur er í tölu þjóðvega samkv. vegal., eins og aðrir vegir að kirkjustöðum. Ábær er sem kunnugt er í Austurdal í Skagafirði, og það, sem þarna er um að ræða, er að leggja veg frá brúnni á Jökulsá eystri í Skagafirði inn að Ábæ, og það er áætlað af yfirverkstjóra vegagerðarinnar í Skagafirði, að það kosti þessa upphæð að gera þarna nothæfan veg, a.m.k. fyrir svonefnda jeppa:

Nú er frá því að segja, að það var á næstliðnu ári, 1966, unnið að þessari vegagerð að nokkuð miklu leyti, og frú Monika Helgadóttir á Merkigili lagði fram að láni það, sem til þess þurfti, eitthvað um 68 þús. kr., og var þetta gert með leyfi vegamálastjóra Ég held, að þetta hljóti að vera einhver mistök, að þessi upphæð var ekki tekin inn á vegáætlunina, því að það getur ekki verið ætlun manna að láta húsfreyjuna á Merkigili bíða í mörg ár eftir því að fá þetta endurgreitt, framlagið í þennan þjóðveg. Verði okkar till. samþ., fer meginhluti upphæðarinnar til að endurgreiða þetta, og þá verður eitthvað lítið eitt eftir til þess að ljúka þessari vegagerð. Ég vildi vænta þess, að þessu yrði hér vel tekið, því að þarna er í raun og veru um smáupphæð að ræða í samanburði við margt annað. Það er sanngirnismál, að frú Monika fái þetta endurgreitt sem fyrst.

Að öðru leyti eru till. okkar um þrjár brýr í kjördæminu. Það er í fyrsta lagi brú á Austurá hjá Skárastöðum í Miðfirði, 1 1/2 millj., í öðru lagi brú á Laxá á Þverárfjallsvegi utan við Illugastaði í Skagafjarðarsýslu, einnig 1 1/2 millj., og að síðustu brú á Norðurá hjá Borgargerði í Norðurárdal í Skagafirði, 2 millj. kr. Um allar þessar brýr er það að segja, að þær eru nauðsynleg samgöngubót vegna samgangna innan héraðanna, þar sem þessar ár falla. Ég vil geta þess í þessu sambandi, að það hefur verið felld niður af vegáætlun 1 1/2 millj. til brúar á Djúpadalsá í Skagafirði, og gerð grein fyrir því í aths., sem fylgja þáltill. um endurskoðun vegáætlunar, hvernig á því stendur, svo að segja má, að kjördæmið eigi inní þessa upphæð, og sanngjarnt, að það verði veitt til brúargerðar í staðinn fyrir þetta, sem þarna var fellt niður. Þegar á þetta er litið, er þetta ekki nema að nokkru leyti viðbót við fjárveitingar, þetta sem felst í okkar brtt.