26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í D-deild Alþingistíðinda. (2270)

12. mál, endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. (ÞÞ) vék nokkrum orðum að mér í ræðu sinni hér áðan, og langar mig þess vegna til þess að leggja örfá orð í belg.

Hv. þm. sagði, að iðnaðurinn hefði búið og byggi við algerlega óeðlileg lánsfjárhöft. Því aðeins væri hægt að taka svona til orða, að það fé, sem bankakerfið hefur lánað til iðnaðarins undanfarið, væri hlutfallslega mun minna en numið hefur útlánaaukningu í heild eða því fé, sem bankakerfið hefur haft til ráðstöfunar til útlána. Hvernig eru staðreyndirnar um þetta efni? Frá 1. sept. 1965 til sama dags 1966 jukust útlán viðskiptabankanna til iðnaðarins um 23%. (Gripið fram í.) Nei, heildarútlánaaukningin nam einnig 23%. Útlánaaukningin til iðnaðarins er hlutfallslega nákvæmlega sú sama og útlánaaukningin í heild. Ef tekið er árið á undan, 1. sept. 1964 til 1. sept. 1965, var útlánaaukning til iðnaðarins 23 1/2%, en heildarútlánaaukningin á því tímabili 12%. Þessar tölur taka af öll tvímæli um það, að ekki er ástæða til þeirra ummæla, sem hv, þm. viðhafði.

Ég verð að hafa fyrirvara um það, hvort það kann að vera rétt hjá hv. þm., að síldarverksmiðjurnar séu í þessum tölum. Ég sé það ekki alveg, en það er ekki útilokað, að svo sé. Það þyrfti ég að athuga betur. (Gripið fram í.) Sundurliðunin er ekki svo nákvæm, sem ég hef hér fyrir framan mig, að ég gati sagt um það. Auðvelt er að fá úr því skorið. Það er sjálfsagt að hafa það, sem sannara reynist í þessum efnum. (Gripið fram í.) Já, ég vildi bara hafa sagt þetta, því að ég sé það ekki á tölunum, sem ég hef fyrir framan mig.

Þá gerði hv. þm. samanburð á endurkeyptum víxlum hjá Seðlabankanum og útflutningsverðmætinu á nokkurra ára bili. Slíkur samanburður er alveg út í hött. Endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum miðast við og hafa alltaf verið miðuð við verðmæti birgða. af útflutningsvöru. En síðan 1961 hafa reglur Seðlabankans um þetta efni verið algerlega óbreyttar, hlutfallstalan hvorki verið aukin né heldur minnkuð. Seðlabankinn hefur síðan 1961 lánað 55% út á verðmæti útflutningsbirgða. Áður var þetta hlutfall nokkru hærra og hafði komizt allt upp í 67%. En þess er þá að geta, að algerlega eðlilegt var að lækka þetta hlutfall 1961, m.a. vegna þess, að þá voru samþ. lög og hafin framkvæmd á breytingu stuttra lána til sjávarútvegs í löng lán, og á árunum 1961—1962 var hvorki meira né minna en 300 millj. kr. af stuttum lánum sjávarútvegsins breytt í samningsbundin, föst lán. Þess vegna er eðlileg afleiðing af þessu, að nokkur lækkun yrði á því hlutfalli, sem Seðlabankinn lánar út á útflutningsafurðir.

Í framhaldi af þessu langar mig til þess, og ég vona, að hæstv. forseti misvirði það ekki við mig, að skýra frá athugun, sem ég hef gert á mikilvægum ummælum hv. þm. í ræðu hér á miðvikudaginn var um mjög skylt mál, um hlutverk Seðlabankans í þágu íslenzks efnahagslífs og íslenzks fjármálalífs. Hann fór í ræðu sinni með tölur um endurkaup afurðavíxla Seðlabankans, hvernig þau hefðu breytzt á nokkrum undanförnum árum, bar nokkurra ára gamla tölu, sem hann tók, saman við tölu endurkaupa í árslok 1965, benti á, að þetta hlutfall væri mjög lágt og miklu lægra en næmi aukinni rekstrarfjárþörf atvinnuveganna á sama tíma, og lagði síðan út af þessu í tveimur ræðum. Ég hafði auðvitað ekki aðstöðu, sitjandi í mínum stól undir umr. og takandi þátt í umr., til þess að prófa sannleiksgildi þessara talna. Mér þótti þær satt að segja mjög undarlegar, en það vona ég að allir skilji, að meðan á ræðuhöldum stendur, er ekki aðstaða til þess að skoða frumgögn til þess að sannreyna, hvort rétt eða sanngjarnlega er á málum haldið. En þetta hef ég gert síðan, og hér er satt að segja um að ræða svo skýrt skóladæmi um óheiðarlegan málflutning, að mig langar til þess að gera nákvæma grein fyrir því, hvernig hv. þm. vana í þessu tilfelli og hvernig því miður hv. stjórnarandstaða allt of oft vinnur í sínum rökstuðningi og við meðferð einfaldra talna. Hér er um svo einfalt dæmi að ræða, að það má skýra það til botns á örfáum mínútum.

Hv. þm. er að leita að röksemd fyrir því, að Seðlabankinn og bankakerfið þjóni illa íslenzkum atvinnuvegum og þjónusta þeirra við íslenzka atvinnuvegi hefði versnað á undanförnum árum. Þetta er það, sem hann langar til þess að segja. Nú fer hann í skýrslu Seðlabankans, í Fjármálatíðindi, og leitar að röksemdum fyrir þessu. Þá gerir hann ekki það, sem hann hefði auðvitað átt að gera, að taka útlánaaukningu bankakerfisins alls í þágu atvinnulífsins í heild eða einstakra atvinnugreina á því árabili, sem hann hefur áhuga á. Það gerir hann ekki. Nei, hann tekur eingöngu einn þátt málsins, þ.e. endurkaup afurðavíxla hjá Seðlabankanum, og gerir samanburðinn þar, sem er auðvitað ekki nein heildarmynd, eins og ég mun víkja nánar að á eftir. Hann flettir upp í Fjármálatíðindum, hver hafi verið endurkaup afurðavíxla í árslok 1965, þ.e. 1165 millj. kr. Svo vill hann fara aftur í tímann, og ef hann hefði verið sjálfum sér samkvæmur og sínum málflutningi svo að segja undantekningarlaust í öðrum efnum, hefði hann átt að bera saman við árslok 1958, þau árslok, þegar sú stjórn, sem við sameiginlega stóðum að, fór frá. En hann kemst ekki hjá því að lesa nokkrar tölur í kringum árið 1958, sérstaklega á eftir, og þær tölur, sem hann hlýtur að hafa rekið augun í þessari skýrslu Fjármálatíðinda, eru þessar: Endurkaup afurðavíxla námu í árslok 1958 645 millj., í árslok 1859 857 millj. og 1960 737 millj. Hér hefur það m.ö.o. gerzt á þriggja ára tímabili, að mjög óvenjuleg breyting verður á endurkaupum afurðavíxla. Þau hækka frá 1958—1959 um meira en 200 millj. kr. Ef hann hefði litið nokkuð í kringum sig, eins og ég talaði um, hefði hann séð, að þetta er algerlega óvenjuleg breyting, sem þarna á sér stað, og hlýtur að eiga sér einhverjar alveg sérstakar skýringar. Hann gerir ekki það, sem hann er annars vanur að gera, að bera saman við árið 1958, því að ef hann hefði gert það, hefði hann komizt að raun um, að aukning afurðakaupa frá 1958—1965 er 81%. Aukning afurðakaupa frá 1858 til ársloka 1965 er 81%. Nei, það, sem hann gerir, er eins og óvandaðir og óheiðarlegir menn gera í málflutningi. Hann tekur hæstu töluna, sem hann finnur á þessu árabili, til þess að bera saman við töluna í árslok 1865 til að fá sem allra lægsta prósentuaukningu. Þannig fær hann prósentuaukninguna, sem hann var alltaf að hampa hér á miðvikudaginn var, 36%, og leggur út af í tveimur ræðum. Hugsið ykkur. hv. alþm., hugsið ykkur, þið, sem fáið að lesa fregnir af þessari ræðu minni: endurkaup afurðavíxla Seðlabankans hafa ekki aukizt á 6 árum síðan 1959 nema um 36%. Og þetta er miklu, miklu minna en sú aukning, sem hefur orðið á framfærslukostnaði og lánsfjárþörf atvinnuveganna. — En eins og ég segi, ef hann hefði tekið það ár, sem hann er vanur að taka til samanburðar, er aukningin 81%. Ef hann hefði tekið ári seinna, 1960, er aukningin 58%. En auðvitað tók hann og án nokkurra frekari skýringa árið 1959. Ég væni hann ekki um þá grunnhyggni að gera sér ekki grein fyrir því, að það er sérstök ástæða fyrir því, að endurkaupin vaxa á árinu 1959 alveg óvenjulega. Þá tekur hann auðvitað þá tölu, sem gaf honum frá hans sjónarmiði séð bezta útkomu, og lagði út af henni, þó að augljóst væri, að einhver sérstök ástæða lægi til grundvallar. Og hver er ástæðan fyrir því, að talan í árslok 1959 er alveg óvenjulega há, svo óvenjulega há, að hún lækkar á árinu 1980 um 120 millj.kr., hafði aukizt frá árinu áður um meira en 200 millj. og lækkar aftur um 120 millj. kr.? Hver er skýringin á þessum alveg óvenjulega toppi? Skýringarnar eru tvær: Eins og alltaf getur komið fyrir, voru birgðir í árslok 1959 alveg óvenjulega miklar. Þó er það ekki aðalskýringin, heldur hin algerlega óvenjulega skýring, sú, að um var að ræða verulegan hala af útflutningssjóði, sem um þessar mundir var einmitt verið að jafna út, og þessi hali á honum í þessu máli var yfir 200 millj. kr. Þannig stendur á því, að endurkaup afurðavíxlanna á árinu 1958 eru alveg óvenjulega há. Hér er auðvitað um að ræða tegund af málflutningi, sem er algerlega óheimill og algerlega óleyfilegur, og hefur þó ekki tekið nema tæpar 5 mínútur að sýna öllum, sem vilja vita hið sanna og hafa áhuga á heilbrigðum málflutningi, hvers konar óheilindi og hvers konar fölsun hér er í raun og veru um að ræða.

Hitt er svo annað mál, sem ég gat um áðan, að endurkaup afurðavíxlanna eru ekki nema örlítill þáttur af stuðningi bankakerfisins við útflutningsatvinnuvegina og atvinnulífið í heild, og það að bera saman breytingar á endurkaupunum einar frá ári til árs gefur enga heildarmynd. Það, sem auðvitað á að gera þarna, — hv. þm. var að ræða um aðstoð við sjávarútveg og landbúnað, — er auðvitað að bera saman, hvað heildarútlán bankakerfisins alls, ekki bara Seðlabankans, til þessara atvinnugreina hafa breytzt mikið á þessu tímabili. Ef maður tekur sama tímabil og hann var að tala um, er aukningin frá 1959—1965 63%, m.ö.o. næstum helmingi meiri en aukning afurðavíxlanna ein. Ef maður tekur aftur á móti heildarútlánaaukninguna á þessu sama tímabili, er hún 111%. En það sýnir ekki heldur, að sjávarútvegurinn og landbúnaðurinn hafi ekki fengið eðlilegan hluta, af því að heildarútlánaaukningartalan til þessara atvinnugreina, 90 og 63%. mótast auðvitað af hinni háu grundvallartölu í árslok 1959. Ef við aftur á móti tökum þær tölur, sem hann er vanur að taka í öðrum umr., í árslok 1958, — þar er um sambærilegar tölur að ræða að þessu leyti, — er niðurstaðan sú þar, að heildarútlán bankakerfisins til sjávarútvegs og landbúnaðar hafa aukizt síðan í árslok 1958 til ársloka 1965 um 99%. En hver skyldi hafa verið heildarútlánaaukningin til allra atvinnugreina frá öllum viðskiptabönkunum? 96%. Ef maður gerir því það, sem þessi þm. er vanur að gera, ef hann fellur ekki fyrir freistingunni að verða sérstaklega óheiðarlegur í málflutningi, ef hann ber saman við árslokin 1958, hefur sjávarútvegur og landbúnaður fengið úr bankakerfinu í heild, þ.e.a.s. úr viðskiptabönkunum, svo að segja hlutfallslega alveg sömu aukningu og atvinnulífið yfirleitt eða ívið meiri, 98% aukningu miðað við 96% aukningu.

Ég hef rakið þetta svona til þess að sýna hv. þm. og öðrum dæmi um það, fyrir hvers konar freistingum hv: stjórnarandstæðingar falla því miður allt of oft í málflutningi sínum. Það er ekki alltaf, að menn nenna að elta ólar við alla fjarstæðuna, sem frá þeim kemur, en hér fannst mér vera of langt gengið í blekkingum, svo að ég hafði fyrir því, sem raunar var mjög lítil fyrirhöfn, að rekja þetta og taldi rétt að sýna hv. þm. fram á, um hvers konar fjarstæðumálflutning ag hvers konar beina, fölsun hefur verið að ræða í tveimur ræðum hjá hv. þm. s.l. miðvikudag.

Að síðustu langar mig svo aftur til þess að víkja örfáum orðum að öðru atriði, sem fram fór í þessum umr. á miðvikudaginn var. Síðasti ræðumaður, hv. þm. Helgi Bergs, sagði nokkur orð, og m.a. sagði hann, að ég hefði farið rangt með tölur um gjaldeyrisforða bankanna, ég hefði talið hann vera um 2000 millj. kr., en Helgi Bergs var með Fjármálatíðindin, eins og ég núna, þá hafði ég þau ekki í sæti mínu, og sagði: Þarna reiknar viðskmrh. rangt, gjaldeyrisforðinn er ekki nema 1800 millj. kr. Hann gleymdi að draga frá gjaldeyrisskuld skuldamegin í reikningi Seðlabankans. — Og að svo mæltu fór hann í sæti sitt.

Ég vildi engan veginn útiloka það, að mér kynni að hafa orðið eitthvað smávegis á við það að taks saman þær tölur, sem ég tók saman. Það getur auðvitað hent mig eins og alla aðra að skjótast yfir tölu í stórri talnaröð, svo að ég vildi ekkert um þetta segja, vildi heldur játa það, þó að seinna væri, að mér kynni að hafa skjátlazt, og þar með búið. Ég gáði samt að því rétt á eftir, hver sannleikurinn væri í þessu, og hann er því miður allt annar en hv. þm. vildi vera láta. Mín tala var rétt — ég segi ekki: hún var auðvitað rétt, — hún gat vel verið röng. Munurinn er ekki afskaplega mikill, en mín tala var rétt og hans tala röng, og ég fann á andartaki út, í hverju villa hans var fólgin. Það er rétt, að ég segi líka þessum hv. unga þm. til viðvörunar, að það er dálítið varhugavert fyrir menn, sem eru ekki mun kunnugri því, sem þeir eru að tala um, að líta í sæti sínu í flóknar skýrslur og rjúka síðan upp í ræðustól á hv. Alþ. og bera öðrum á brýn, að þeir fari rangt með tölur. Það er mjög einfalt að sýna fram á, í hverju þetta liggur. Þær tölur hef ég nú fyrir framan mig.

Efnahagsreikningur Seðlabankans er prentaður á bls. 78—79 í Fjármálatíðindum. Þar stendur: Erlendar eignir eignamegin, þetta er talan í júnílok, sem ég hafði verið með og hann sagðist líka vera með. Í júnílok eru taldar erlendar eignir 2221 millj. kr. En hann vili láta liggja að því, að ég hafi talið gjaldeyrisforðann ca. 2000 millj. kr. Hann lítur hinum megin á skuldaliðinn, og þar er liður, sem heitir erlendar skuldir, 394.6 millj. kr. M.ö.o.: hann dregur um 400 millj. frá 2200 millj. og segir: Nettógjaldeyriseignin er 1800 millj. Þess vegna hlýtur tala viðskmrh. að vera röng. — En ef ég hefði áttað mig á því, að þetta væri svona einfalt, hefði ég getað svarað þessu á stundinni, hefði ég haft tölurnar fyrir framan mig. En gjaldeyrisforðinn er meira en liðurinn erlend eiga á reikningi Seðlabankans. Gjaldeyrisforðinn er líka gullforði Seðlabankans, sem er 43.7 millj. og gulleign Seðlabankans hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, sem er 161.3 millj., svo að brúttógjaldeyrisforði landsmanna er 2426 millj. kr. Frá því dró ég að sjálfsögðu, eins og þm. gerði, erlendar skuldir bankans, 394.6 millj. kr., og þá er útkoman 2031.4 millj. kr. Þetta hafði ég kallað um það bil 2000 millj. kr. Vona ég, að þetta verði þessum hv. þm. til viðvörunar í framtíðinni.