16.11.1966
Sameinað þing: 10. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í D-deild Alþingistíðinda. (2279)

12. mál, endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er búið að tala töluvert um þessa till. Hún hefur verið hér á dagskrá áður, og síðast var það fyrir hálfum mánuði, 2. nóv. Þá flutti hæstv. forsrh. einnig alllanga ræðu eins og nú. Þá las hann m.a. upp kafla úr ræðu, er hann hafði flutt á fundi flokksráðs Sjálfstfl. 14. okt. í haust. Það er sagt frá þessari ræðu í blaðinu Vísi, og eftir því sem þar segir, hafði hann sagt á þeim fundi um iðnaðinn m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„En ef við viljum, eins og gert hefur verið, veita innlendum iðnaði vernd, kostar sú vernd það, að við verðum að borga meira verð heldur en ella fyrir vöruna.“

Og nokkru síðar í sömu ræðu sagði hæstv. ráðh.:

„Við sjáum það einnig af tilteknum dæmum, að ef íslenzkur iðnaður fellur í rústir, hækka erlendir framleiðendur sína vöru, þannig að við verðum að borga meira en ella“

Þarna koma fram þær kenningar hjá hæstv. ráðh., að ef við viljum veita innlenda iðnaðinum vernd, þurfum við að borga meira en ella fyrir vöruna, og ef iðnaðurinn fallt í rúst, þurfum við líka að borga meira en ella. Það er dálítið erfitt að botna í þessu. En helzt skilst manni það vera skoðun ráðherrans, að alls ekki verði undan því komizt að borga meira verð fyrir iðnvarninginn, hvort sem hann er framleiddur hér heima eða erlendis. Ja, nú er það svart maður, má um þetta segja.

Hæstv. ráðh. sagðist telja íslenzkan iðnað nauðsynlegan. Ég er honum sammála um það. En þá þarf iðnaðurinn að hafa lífsskilyrði í þjóðfélaginu. M.a. þarf að búa sæmilega að honum með lánsfé, eins og um er rætt í till., sem hér liggur fyrir. Og að sjálfsögðu kemur fleira til álita. Í flokksráðsfundarræðunni, sem hér er vitnað til, sagði hæstv. forsrh., að það muni lengi þykja í frásögur færandi, að nokkrir menn skyldu snúast á móti virkjun Þjórsár og byggingu álbræðslu. Þarna fór illa fyrir hæstv. forsrh. Það er nefnilega rangt hjá honum, að nokkrir menn hafi snúizt á móti virkjun Þjórsár. Merkilegt, að hann skyldi leyfa sér að segja ósatt um þetta. Hitt er aftur rétt hjá honum, að menn voru á móti álbræðslunni, en það er allt annað en virkjun Þjórsár. Um álbræðsluna sagði hæstv. ráðh. m.a., að með henni væri ruddur vegurinn. Svo er nú það. Væntanlega ætlast ráðherrann ekki til þess, að sá ruddi vegur sé eingöngu fyrir útlendinga. Íslenzkir iðnrekendur hljóta að hafa leyfi til þess að fara þann rudda veg. Hagur íslenzkra iðnfyrirtækja mun vafalaust vænkast að mun, ef þau fá að njóta sömu kjara og álbræðslan, að því er varðar undanþágur frá sköttum. Þeir eru ákaflega margir skattarnir, sem álbræðslan sleppur við að greiða. Forsrh. ætti að láta athuga það, hvernig innlendu fyrirtækin yrðu á vegi stödd, ef eins vel væri búið að þeim í skattamálum og álbræðslunni. Eða hví skyldu Íslendingar búa við lakari kjör í sínu eigin landi en útlendingar, sem þar setjast að með sinn atvinnurekstur? Ég vil ógjarnan trúa því, að hæstv. forsrh. ætli þeim það.

Í ræðu sinni um þessa till. 2. nóv. talaði hæstv. ráðh. einnig um verðbólguna. Hann minnkist á sparifjárfrystingu og vaxtahækkun, sem stjórnin hefði notað í því skyni að vinna gegn verðbólgu og séu viðurkennd ráð til þess. Og hæstv. ráðh. spurði, hvort hægt væri að nefna sér eitt einasta land, þar sem barizt hafi verið á móti verðbólgu og öðru hvoru þessara ráða eða báðum hafi ekki verið beitt. Á flokksráðsfundinum 14. okt. ræddi hæstv. ráðh. líka um verðbólguvandann. Hann sagði, að stjórnin hefði reynt flest þau úrræði, „sem hvarvetna annars staðar eru talin frumskilyrði fyrir því, að við verðbólgu verði ráðið“, „og það er víst, að án þeirra verður ekki við hana ráðið“, bætti hann við. Og hann sagði, að barizt hefði verið á móti verðbólgu með beinum stjórnaraðgerðum. „Við höfum átt þátt í vaxtahækkun, við höfum átt þátt í bindingu sparifjár“, sagði hæstv. ráðh., o.s.frv. Í sömu ræðunni sagði hann enn fremur, eftir því sem Morgunblaðið hermir, með leyfi hæstv. forseta: „Vandinn verður heldur ekki leystur með einum fjármálaráðstöfunum, sem hagfræðingarnir sí og æ tala um.“ Ég endurtek þetta: „Vandinn verður heldur ekki leystur með einum fjármálaráðstöfunum, sem hagfræðingarnir sí og æ tala um.“ En síðan bætir hann við: „Þær eru alveg óhjákvæmilegar og eru forsenda þess, að vandinn verði leystur.“

En nokkru síðar í flokksráðsfundarræðunni kemur þó setning hjá hæstv. ráðh., sem bendir til þess, að loks sé að læðast að honum grunur um, að ekki sé öruggt, að ríkisstj. hafi verið hér á réttri leið. Hann sagði: „Spyrja mætti, hvort það sé rétt, sem andstæðingar okkar hafa stundum sagt, að efnahagslögmál þróaðra iðnaðarríkja eigi ekki við hjá okkur. Það getur verið nokkuð til í þessu.“ Það getur verið nokkuð til í þessu, sagði hæstv. ráðh. Það er einmitt það, það er áreiðanlega mikið til í þessu. Ýmsar fjármálaaðgerðir, sem þykja nothæfar í stóru löndunum, eiga ekki við hjá okkur. Þetta hefði hæstv. forsrh. átt að hugleiða miklu fyrr. Við skulum athuga t.d. vaxtahækkunina, sem ríkisstj. beitti sér fyrir í upphafi og hefur haldið dauðahaldi í fram að þessu samkv. kenningum hagfræðinganna. Vaxtahækkunin átti að þeirra sögn að verða til þess að draga úr eftirspurn eftir lánsfé. Þeir segja, að sú aðferð sé nú víða notuð í öðrum löndum með þeim árangri, og líklega er það rétt. En þó að þetta geti átt við hjá fjölmennum og fjármagnsríkum þjóðum, gildir allt annað hjá okkur. Það mátti stjórnin og hennar hagfróðu ráðunautar vita, enda hefur reynslan sannað þetta áþreifanlega. Eftirspurnin eftir lánsfé hefur ekkert minnkað hér á landi undanfarið, þrátt fyrir vaxtahækkunina. Biðraðir þeirra manna, sem sækja um lán hjá bankastjórunum, eru jafnvel stærri en nokkru sinni áður. Og þetta er vel skiljanlegt. Hin stórkostlega dýrtíðaraukning, sem háu vextirnir hafa m.a. átt sinn þátt í að skapa, hefur valdið því, að atvinnuvegirnir þurfa miklu meira af lánsfé nú í seinni tíð en áður. Og þegar lánsfjárskorturinn sverfur svo mjög að þeim sem hann gerir nú, er ekki spurt um vextina. Iðnaðarmaðurinn, sem er t.d. í vanda staddur með sitt fyrirtæki, vegna þess að hann vantar fé til þess að halda rekstri þess áfram, spyr ekki um það, hvort vextirnir séu tveimur eða þremur hundraðshlutum hærri eða lægri. Hann reynir að ná í lánsféð, sé þess nokkur kostur. Og þetta er vel skiljanlegt, því að hann er að tefla um lífíð og dauðann fyrir sitt fyrirtæki. Og sama gildir um fleiri atvinnurekendur, svo sem útgerðarmenn og forstöðumenn viðskiptafyrirtækja. Sparifjárfrystingin, sem hæstv. ríkisstj. kom einnig á eftir hagfræðinga ráði, hefur líka gert það að verkum, að bankar og sparisjóðir geta langtum síður fullnægt þörfum manna fyrir lánsfé en vera mundi án frystingarinnar. Og vitanlega eru það fleiri en iðnaðarmenn, útvegsmenn, bændur og kaupsýslumenn, sem ekki spyrja um vaxtaprósentuna, þegar þeir leita eftir lánum. Menn hafa séð sér hag í því að taka lán, væri þess nokkur kostur, og leggja féð í húsbyggingar eða kaup á fasteignum, þrátt fyrir háu vextina, því að þeir hafa getað hagnazt á því. Því veldur verðbólgan, sem alltaf hefur verið í fylgd með núv. hæstv. ríkisstj. og vel má nefnast systir hennar. Það liggur þannig ljóst fyrir, að háu vextirnir hafa alls ekki orðið til þess að draga úr eftirspurninni eftir lánsfé, eins og þeim var ætlað. En hafa þeir þá ekki haft áhrif í þá átt að auka spariféð? Ég hygg, að lítið sé gerandi úr því, og það er vegna þess, að verðbólgan hefur étið af sparifénu meira en sem vöxtunum hefur numið. Þeir, sem hafa átt sparifé í bönkum og sjóðum, hafa tapað, ekki aðeins öllum vöxtunum, heldur einnig ríflegum hluta af höfuðstólnum í verðbólguhítina. Þannig hefur verið að þeim búið. Stórum betra hefði verið fyrir þá að fá lægri vexti, ef verðbólgueldurinn hefði ekki eytt innstæðum þeirra.

Hæstv. forsrh. talar um, að menn verði að gera sér grein fyrir vandamálunum. Þetta er mikið rétt. Sú yfirlýsing, sem hæstv. ráðh. gaf í byrjun þessa þings um, að haldið yrði sömu stjórnarstefnu og áður, bar þó ekki vott um, að hann hefði gert sér vandann nógu ljósan, því miður. En örskömmu eftir að hann lýsti þessu yfir á Alþingi, hélt hann ræðu á fundi flokksmanna sinna í Reykjavík. Tveimur dögum fyrir fundinn var hann auglýstur í Morgunblaðinu, og þar var sagt, að ræðutexti ráðherrans mundi verða: „Á vegamótum velgengni og vandræða“. Á vegamótum velgengni og vandræða. Þetta bendir til þess, að hæstv. forsrh. væri ljóst orðið, að hann og hans stjórn væru þó a.m.k. mjög nærri vandræðaveginum, enda er það mála sannast, að stjórnin hefur verið á þeim vegi. Ýmsar efnahagsráðstafanir hennar, svo sem vaxtahækkunin og sparifjárbindingin, hafa orðið til þess að gera atvinnuvegunum mjög erfitt fyrir. Reynslan hefur sannað, að slíkt á ekki við hjá okkur, þótt það geti þótt hentugt hjá fjölmennari og ríkari þjóðum. Þessar og fleiri stjórnarráðstafanir ásamt verðbólgunni, sem hefur fylgt hæstv. ríkisstj. eins og skugginn, hafa valdið því, að aðalatvinnuvegirnir eru nú í þrengingum þrátt fyrir góðæri frá náttúrunnar hendi. Þeir eru á vandræðavegi, og stjórnin hefur átt mikinn þátt í að leiða þá þangað. Ræðufyrirsögn eins og ég gat um og auglýst var í Morgunblaðinu 15. okt. gæti bent til þess, að sú hugsun hefði þá verið farin að læðast að hæstv. forsrh., að stjórnin væri ekki með málefni þjóðarinnar á þeirri braut, sem leiðir til velgengni. Og orðin, sem féllu hjá hæstv. ráðh. á flokksráðafundi sjálfstæðismanna 14. okt., þau sem ég vitnaði í áðan, að það gæti verið nokkuð til í því, að efnahagslögmál þróaðra iðnaðarríkja eigi ekki við hjá okkur, benda til þess sama, að sá grunur sé farinn að sækja að honum, að hann og hans ríkisstj. séu ekki á heppilegri leið. Þess væri óskandi, að sá grunur yrði sem fyrst að vissu hjá honum, þegar hann sjálfur fer að gera sér betri grein fyrir vandanum, eins og hann segir réttilega að menn þurfi að gera. Ef svo fer, ætti hann að manna sig upp og breyta um stefnu, hverfa frá ýmsum stjórnarráðstöfunum, sem hafa gefizt illa, en taka upp ný vinnubrögð, sem yrðu hollari fyrir atvinnuvegina. Eitt meðal annars, sem hann ætti að gera þeim til hagsbóta, væri að veita þeim ekki lakari kjör í skattamálum en útlendingunum í Straumsvík er ætlað að búa við. Það er margt, sem hægt er að gera til eflingar atvinnulífinu hjá okkur án þess að fá útlendinga til atvinnurekstrar hér, ef nægur skilningur, áræði og dugnaður er til staðar hjá valdhöfunum.

En ef til vill er hæstv. forsrh. orðinn of þreyttur til þess að geta hafið sig þannig upp. Mér virðist, að komið hafi fram þreytumerki í málflutningi hans í seinni tíð. Hann talar um smæð þjóðfélagsins og hvað það sé dýrt og erfitt að halda hér við sjálfstæðu ríki, hver Íslendingur þurfi að leggja meira til opinberra þarfa en einstaklingar hjá fjölmennum ríkjum. Hins er þó ekki getið, að við borgum þó ekki stórfé til vígbúnaðar eins og margir aðrir. Hæstv. ráðh. talar um, að atvinnuvegir okkar séu fáir og einhæfir og háðir stórkostlegum sveiflum. Og í ræðunni, sem hann var að ljúka við rétt áðan, talaði hann um það allsrúna land, sem okkar land hefði verið, þegar Íslendingar fengu sjálfsforræði. Það „allsrúna land“, Ísland með öllum gögnum og gæðum, það var að hans dómi allsrúið land fyrir nokkrum árum. Og hann er farinn að taka sér í munn fræg ummæli starfsbróður sína í stjórnarráðinu, hæstv. menntmrh., um litlu kænuna á heimsins ólgusjó. Eitt af mörgu, sem hann sagði, þegar hann var að tala við hv. 5. þm. Reykv. áðan, var það, að hann segist ekki hafa færi á því eða starfsorku til að kanna til hlítar eitthvert atriði, sem hann var þá að tala um. Ég held, að þetta sé mála sannast, að hann vanti færi og starfsorku og hans stjórn yfirleitt til að kanna vandamálin til hlítar og taka skynsamlega á þeim. Ég held, að það væri hyggilegast fyrir þjóðina að afskrá þessa menn og fela öðrum að stýra skipinu.