13.12.1966
Efri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 346 í B-deild Alþingistíðinda. (229)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Menntmn. hefur haft til athugunar milli umr. það frv., sem hér liggur fyrir, og brtt. þær, sem fyrir lágu við 2. umr. málsins, en voru þá allar teknar aftur til 3. umr. N. flytur nú 2 nýjar brtt. við frv., og eru þær á þskj. 133. Er fyrri till. miðuð við þær breyttu aðstæður, sem hafa skapazt við tilkomu íslenzks sjónvarps, en hin siðari lýtur að upplýsingaskyldu manna um útvarpsafnot, tilkynningarskyldu, sölu, afhendingu og leigu viðtækja og notkun nafnskírteina í því sambandi.

Innheimtustjóri og framkvæmdastjóri fjármáladeildar útvarpsins mættu á fundi n. og gáfu þar ýmsar upplýsingar. Þeir tjáðu n., að töluverðir erfiðleikar væru á því að afla nægra upplýsinga um útvarpsafnot manna og það væri á því mikill misbrestur, að sú tilkynningarskylda, sem útvarpsl. leggja mönnum á herðar, væri rækt á fullnægjandi hátt. Leiddi þetta til óeðlilega lágrar innheimtu á afnotagjöldum og ætti sinn þátt í rekstrarhalla útvarpsins. Þeir töldu, að erfitt væri að afla nógu ýtarlegra upplýsinga frá innflytjendum og öðrum, sem verzla með viðtæki, og þess mundu jafnvel vera dæmi, að kaupendur viðtækja gæfu upp röng nöfn og heimilisföng. Þeir lögðu m.a. mikla áherzlu á það, að aflað yrði ótvíræðrar lagaheimildar til þess að krefjast framvísunar nafnskírteina í öllum viðtækjaviðskiptum, svo að auðveldara yrði að fylgjast með viðtækjaeign og útvarpsafnotum fólks, og einnig lögðu þeir mikla áherzlu á, að aflað yrði lagaheimildar til þess að skylda menn til þess að gefa upplýsingar um útvarpsafnot sín. Að fengnum þessum upplýsingum taldi menntmn. rétt að flytja þær brtt., sem eru á þskj. 133.

Um síðari till. á því þskj. sé ég ekki ástæðu til þess að fjölyrða eða um efni hennar og rökstuðning fyrir henni frekar en ég hef nú þegar gert.

En um fyrri brtt. er það að segja í sambandi við hana, að langsamlega flest sjónvarpsviðtæki, sem eru í notkun hér á landi, munu einnig hafa útbúnað til hljóðvarpsmóttöku. Okkur var tjáð í n., að það mundu eingöngu vera fáein af elztu sjónvarpstækjum, sem ekki hefðu slíkan útbúnað. Það má því jafnvel gera ráð fyrir því, að eigendur sjónvarpsviðtækja láti sér þau ein duga fyrir hvort tveggja, sjónvarp og hljóðvarp. Það væri óeðlilegt, að þessir notendur slyppu þannig við að greiða afnotagjald hljóðvarps. Með fyrri brtt. á þskj. 133 er lagt til, að eigendur sjónvarpsviðtækja, sem hafa hljóðvarpsútbúnað, verði jafnframt taldir eigendur hljóðvarpsviðtækja. Um hljóðvarpsafnotagjald þeirra gildir þá að sjálfsögðu sú almenna regla, sem gildir yfirleitt um afnotagjald af hljóðvarpi, þannig að þótt heimilað verði að krefjast sjónvarpsafnotagjalds af hverju sjónvarpsviðtæki, þótt fleiri en eitt séu á heimili; mundi annað gilda um hljóðvarpsafnotagjald, miðað við þann hátt, sem hafður er á nú um þá gjaldheimtu, sem ekki er lagt til, að verði neitt breytt með þessu frv.

Við síðustu umr. var þegar gerð grein fyrir þeirri brtt., sem menntmn. flutti á þskj. 106, og þarf ég því ekki að ræða hana frekar.

Ég skal þá gera grein fyrir brtt., sem meiri hl. menntmn. flytur á þskj. 134. Menntmn. hafði m.a. til athugunar brtt. þá, sem hv. 4. þm. Vestf. flytur á þskj. 114. Samstaða varð ekki í n. um afstöðu til þeirrar till. Meiri hl. menntmn. flytur á þskj. 134 brtt. við brtt. á þskj. 114. Leggur meiri hl. n. til, svo sem fram kemur á þskj., að till. á þskj. 114 verði orðuð um og breytt efnislega, þannig að lántökuheimild miðist við allt að 25 millj. kr. og verði bundin við að koma upp aðalendurvarpsstöðvum sjónvarps. Um rökstuðning fyrir brtt. meiri hl. n. leyfi ég mér að vísa til þess, sem fram kom í umr. við 2. umr. málsins hér í hv. þd. Það liggur auðvitað í augum uppi, að dreifing sjónvarps um landið byggist fyrst og fremst á því, að komið verði upp aðalendurvarpsstöðvum, og þær eru því þær framkvæmdir, sem fyrst þarf að hefjast handa um í þessum efnum.

Ég hef þá, hæstv. forseti, gert grein fyrir þeim brtt., sem menntmn. flytur, sem og þeirri brtt.; sem meiri hl. n. flytur við frv., og sé ekki að svo komnu ástæðu til þess að fara um málið fleiri orðum.