23.11.1966
Sameinað þing: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (2315)

24. mál, endurnýjun strandferðaskipaflotans og skipulagning strandferða

Flm. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki hafa uppi langt mál sem svar við ræðu hæstv. ráðh., þess gerist ekki þörf. Hann afsannaði ekkert. Hann vefengdi ekkert af þeirri sögu, sem ég sagði um ástandið í strandferðamálunum, en hins vegar kom út af fyrir sig fram fróðleg yfirlýsing. Hún var á þá leið, að það breytti engu, þó að svona till. kæmu fram á hv. Alþ., ríkisstj. mundi fara sínu fram í þessu máli, eftir því sem hún teldi hagkvæmast og bezt fyrir ríkissjóð.

Hæstv. ráðh. tilkynnti. að það væri til n. í þessum málum, sem væri nú starfandi. Þetta eru nú ekki miklar fréttir, því að það er búið áður að kveðja svo marga til sem ráðgefandi aðila í málinu, að það eru svo sem ekki stórtíðindi, þó að einni silkihúfunni sé bætt ofan á, og það hefur sýnt sig, að ýmist hafa till, nefndarmanna eða ráðgefandi manna ekki verið hafðar að neinu eða að till. hafa orðið að athlægi eða ekki verið taldar neins virði.

Hæstv. ráðh. talaði um, að það væri sjálfsagt að selja Esju og Heklu, þar sem þær hentuðu ekki nútímastrandferðum. Þetta þarf ekki að segja okkur flm. Okkur var það ljóst, að þar er umbóta þörf, og ef litið er á grg., sem fylgir till. okkar, ræðum við þar ýtarlega um, að það sé augljóst, að miklu þurfi að breyta, fá ný og hagkvæm skip og þar fram eftir götunum. En þetta hefur ekki verið gert. Það hefur verið byrjað á öfugum enda. Gömlu skipunum hefur verið fargað, án þess að nokkuð kæmi í staðinn annað en eitt leiguskip, sem hentar ekki á nokkurn hátt, sérstaklega ekki smærri höfnunum. Það má vel vera, að hæstv. ríkisstj. láti sig það engu skipta, þó að samgöngur leggist niður á smærri hafnirnar. Forsjá hæstv. ríkisstj. mun þá beinast að því að útvega fólkinu utan af landi lóðir og bústaði innan Stór-Reykjavíkur, þegar allar bjargir virðast vera bannaðar um, að það geti haldizt við í heimabyggðum sínum. Og það getur vitanlega liðið að því, að fólkið víða um landið verði að flýja sínar stöðvar úti á landi. Því virðist þar flest bannað af yfirvaldanna hálfu. Það er staðið á móti því að veita fé til vega, enn fremur allt of lítið gert af öðrum samgöngubótum, og svo á þetta að bætast ofan á, að það á að fara eftir hentugleikum hæstv. ríkisstj., hve mikið verður gert í strandferðamálunum.

Svo segir hæstv. ráðh., að það eigi ekki að rýra þjónustuna við strandferðirnar. Þetta er þá í annað skipti, sem það gerist, að ráðh. lýsir slíku yfir. Slíkt er einu sinni búið að ske á s.l. vori, en hefur ekki verið staðið við það. Það hefur náttúrlega hent ráðh. þessarar ríkisstjórnar fyrr að standa ekki við sínar yfirlýsingar, en þetta er þá í annað skipti í þessu máli, að hæstv. ráðh. einn lýsir því yfir, að það eigi ekki að rýra samgöngurnar á sjó, en slíkt loforð svikið.

Hæstv. ráðh. gat þess réttilega og staðfesti það, sem ég sagði, að aðstaðan hér í Reykjavík, sem ræður miklu um, hvað rekstrarhallinn er mikill hjá ríkisskipunum, hefur ekki verið bætt. 1958 var nokkur fjárveiting til þess að byrja á þessu. Það var ekki framkvæmt það ár. En fjárveitingin var svo skorin niður 1959, í fyrsta sinni, sem þessi hæstv. ríkisstj. eða ráðamenn hennar höfðu vald á hlutunum. Þá var fjárveitingin lækkuð niður í 10 millj. til Skipaútgerðarinnar úr 15.7 millj. árið 1958. Það var lausn málanna, um leið og fram undan var stórkostleg gengislækkun og verðbólga.

Hæstv. ráðh. biðja um, að menn haldi ekki á lofti neinni fjandsemi af hálfu ríkisstj. til fólksins úti á landi. En ef saga þessa máls er sögð eins og hún er sönnust, býst ég við, að hæstv. ráðh. finni, að það er fjandskapur, sem kemur fram í aðgerðarleysi ríkisstj. öll hennar ár, og það er hún, sem ber ábyrgð á því, hvernig komið er, en hvorki við flm. till. né aðrir, sem fordæmum það aðgerðarleysi, sem átt hefur sér stað í strandferðamálunum.

Hæstv. ráðh. var að tala um, að þeir væru að baksa við að koma málum ríkisskipanna á heilbrigðan grundvöll. Þetta er nú nokkuð óljóst. En vissulega á að stefna að því og hefur, hygg ég, fyrrum einatt verið stefnt að því, að reksturinn væri eftir atvikum á heilbrigðum grundvelli. En ef heilbrigður grundvöllur hjá ríkisstj. táknar aðeins það að þurfa ekki að leggja fram nauðsynlegt fé til starfrækslunnar, hygg ég, að það verði ekki allir sammála um, að það sé heilbrigður grundvöllur, sem ríkisstj. stefnir að í þessu máli, enda er það í raun og veru sjáanlegt, að svo er ekki. Það er frekar peningasjónarmiðið, að hægt sé að klípa eitthvað af eðlilegum og óhjákvæmilegum rekstrarkostnaði Skipaútgerðarinnar, það er líklega það, sem heitir á máli hæstv. ríkisstj. heilbrigður rekstrargrundvöllur.

Ég hef í raun og veru ekkert meira um þetta að segja og get látið mér nægja það, sem ég hef sagt í málinu. Það hefur ekkert verið rengt eða véfengt af þeirri sögu, sem ég sagði um ófremdarástand þessa máls öll þessi mörgu ár hæstv. ríkisstj., og það spáir ekki góðu, eins og nú horfir við. Ég skal aðeins víkja í lokin að því, að hæstv. ráðh. vék að því, sem ég drap á, að þetta leiguskip væri óhentugt. Ég var ekki að dæma það óhentugt til allra hluta, en það er óheppilegt til strandferða, þar sem það er þegar fengin reynsla fyrir því, að það sinnir ekki afgreiðslu á smærri höfnunum, sem eiga í raun og veru allar sínar samgöngur, a.m.k. að vetrarlagi, þar í húfi. Og svo er það staðreynd, sem ekki var heldur hnekkt af hálfu hæstv. ráðh., eins og ekki var við að búast, að það er fleira en eitt athugavert við þetta skip. Það hefði einhvern tíma þótt tíðindum sæta, að ekki væri nema eitt skip í strandferðum með frystilest, þegar fram undan er vetrarvertíð og nauðsynlegur stórflutningur á beitusíld á milli hafna, svo að maður tali nú ekki um flutninga á matvælum, sem hæstv. ríkisstj. þykir nú sennilega ekki skipta miklu máli.