13.12.1966
Efri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (232)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess eins að mæla með samþykkt brtt. meiri hl. menntmn. á þskj. 134. Ég vil endurtaka það, sem ég hef áður sagt við fyrri umr. um þetta mál hér í hv. Ed., að ríkisstj. var þegar búin að taka ákvörðun um byggingu aðalendurvarpsstöðvar dreifikerfisins á Skálafelli og um byggingu endurvarpsstöðvar fyrir Norðurland, aðalstöðvarinnar á Norðurlandi á Vaðlaheiði. Og fjármagn ríkisútvarpsins sjálfs mun duga til þess að greiða kostnað af byggingu þessara endurvarpsstöðva. Hins vegar er á þessari stundu ekki fyrirsjáanlegt, að fjárhagur ríkisútvarpsins sjálfs leyfi að byggja á næstunni aðalendurvarpsstöðvarnar fyrir Vestfirði og Austfirði. En vegna hins mikla áhuga, sem komið hefur fram í þessum landsfjórðungum á því að fá aðalendurvarpsstöðvarnar fyrir þessa landsfjórðunga líka, hefur ríkisstj. fyrir sitt leyti viljað mæla með því, að henni sé veitt heimild til lántöku, sem nægi til þess að koma upp þessum Vestfjarða- og Austfjarðaendurvarpsstöðvum. Ég hef áður gert grein fyrir því, að 25 millj. kr. lánsheimild til ríkisstj. í þessu skyni á að duga til þess, að Vestfjarða- og Austfjarðastöðin komist einnig upp, þannig að nokkurn veginn samtímis komist upp endurvarpsstöðvar fyrir alla landsfjórðungana fjóra og hornsteinar dreifikerfisins, ef svo mætti segja, komist því upp nokkurn veginn samtímis og á næsta tveggja ára tímabili.

Ég endurtek, að eins og nú horfir, mun 25 millj. kr. lánsheimild duga í þessu skyni, og þess vegna get ég mælt með þeirri brtt., sem um þetta efni er flutt af hálfu meiri hl. menntmn. á þskj. 134. Ef ríkisstj. telur síðar nauðsynlegt að taka viðbótarlán til dreifingar sjónvarpsins um landið, verður leitað lagaheimildar til þess, þegar þar að kemur.