13.12.1966
Efri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Þorvaldur G. Kristjánsson:

Herra forseti. Brtt. mín á þskj. 114 var mikið rædd við 2. umr. þessa máls. Síðan hefur menntmn. tekið till. mína til athugunar, og hefur nú meiri hl. menntmn. lagt fram till. á þskj. 134, brtt. við till. mína á þskj. 114. Ég taldi mig færa sterk rök fyrir minni till. við síðustu umr., og ég skal ekki hér endurtaka neitt, sem ég þá sagði. En ég vil með tilliti til þess, sem síðar hefur skeð, taka fram: Ég tel aðalatriðið, að tekið sé lán til að braða dreifingu sjónvarpsins um landsbyggðina. Það er mín skoðun, að lántaka sé nauðsynleg til að gera mögulegan þann hraða á framkvæmdum þessum, sem menn virðast almennt gera ráð fyrir. Þess vegna taldi ég rétt, að ríkisstj. yrði veitt í lögum lánsheimild í þessu skyni. Till. mín var um lánsheimild allt að 100 millj. kr. Þessi till. miðaðist við framkvæmd verksins í heild, þ.e. framkvæmdir, sem stæðu yfir í nokkur ár. Nú er komin fram frá meiri hl. menntmn. sú brtt. við mína till., að upphæð lánsheimildar sé miðuð við 25 millj. kr. í stað 100 millj. Þessi breyting þykir mér ekki vera til bóta og raunar vera ástæðulaus. Hins vegar hefur menntmrh. nú lýst yfir, að ákveðið sé að nota lánsheimild þessa, allt að 25 millj. kr., til að reisa aðalsendistöðvar fyrir Vestfirði og Austfirði, en það þýðir, að þessar stöðvar verði reistar svo til samtímis öðrum aðalsendistöðvunum. Með þessu á að vera tryggt, að fyrstu áfangar sjónvarpsdreifingarinnar verði framkvæmdir svo fljótt sem kostur er. Enn fremur hefur menntmrh. lýst yfir, að ef ríkisstj. telur síðar nauðsynlegt að taka viðbótarlán til dreifingar sjónvarpsins um landið, verði leitað lagaheimildar til þess, þegar þar að komi. Með hliðsjón af því, sem hér er fram komið, er mér ekki aðalatriði, hvort till. mín er samþ. með óbreyttri upphæð lánsheimildar eða ekki. Mér er aðalatriðið, að tryggð sé lántaka til að sjá svo um, að eðlilegur hraði verði á verkinu. Ég vil hér ítreka það, sem ég sagði, er ég mælti fyrir till. minni við 2. umr. málsins: „Það má kannske segja, að það sé ekki aðalatriðið, hvað lánsheimildin er samþykkt há núna, því að það kemur þing eftir þetta þing, og það má að sjálfsögðu alltaf breyta þessum lögum.“ Með tilliti til þessa mun ég hvorki greiða atkv. með brtt. á þskj. 134 né gegn henni.