23.11.1966
Sameinað þing: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (2337)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Flm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Á þskj. 33 höfum við 5 framsóknarmenn leyft okkur að flytja svo hljóðandi till. til þál.:

,.Alþ. ályktar að kjósa 7 manna n. til að vinna ásamt ríkisstj. að því að afla viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins, svo sem stefnt var að með lögum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948. sbr. ályktun Alþ. frá 5. maí 1959 og yfirlýsingu ríkisstj. í auglýsingu nr. 4 frá 1961.“

Á síðasta Alþ. fluttum við sams konar till., en hún náði því miður ekki afgreiðslu á því þingi. Frá því í fyrra hefur ekkert gerzt, svo að mér sé kunnugt, sem geri samþykkt þessarar þátill. síður nauðsynlega nú en þá. Þess vegna höfum við leyft okkur að flytja hana nú á ný á þessu Alþ.

Þegar þessari þáltill. er fylgt úr hlaði, væri vissulega freistandi að gera nokkuð almennt grein fyrir horfi þjóðaréttarins til landhelgi, bæði fyrr og nú, svo og því, hverjar reglur hafa gilt um landhelgi hér við land frá fornu fari. Ég skal þó ekki reyna mjög á þolinmæði hv. þm. í því efni, enda skilst mér, að fundartíminn sé nú orðinn frekar naumur, þó að ég vilji segja um leið, að það mál, sem hér er um að ræða, er ekki þess háttar, að sæmi að mínum dómi að setja það á neinn krókbekk. En ég vil aðeins leyfa mér að nefna nokkur atriði í því sambandi.

Það er auðvitað svo, að landhelgi varðar fyrst og fremst miklu í þjóðaréttinum, vegna þess að takmörk landhelginnar segja til um takmörk yfirráðasvæðis hvers ríkis. En samt er það nú svo, að í þjóðaréttinum hafa ekki verið og eru ekki enn fastákveðnar, viðurkenndar reglur um það, hversu landhelgi skuli vera breið eða stór eða ná langt á haf út. Þó hafa á liðnum öldum hvað eftir annað verið gerðar tilraunir til þess af hálfu fræðimanna að setja fram kenningar um það, hversu breitt þetta belti sævarins, sem landinu á að fylgja, skuli vera. Þar má telja elzta þá kenningu, að landhelgin skuli vera svo sem skotlengd eða ná svo langt á haf út sem fallbyssa dregur. Sú kenning var sett fram í byrjun 18. aldar, en var reyndar þá strax gersamlega úrelt. Samt var það svo, að um skeið var nokkuð miðað við þetta. En seinna meir reyndu svo fræðimenn að breyta þessari reglu í ákveðna vegalengd, og var þá sett fram kenningin um þriggja sjómílna landhelgi, og um skeið var óneitanlega allmikið stuðzt við þá kenningu í þjóðarétti, enda hölluðust helztu siglingaþjóðir heims að þeirri reglu og tóku hana upp, sem skiljanlegt er, því að það var sjónarmið þeirra, að þetta belti skyldi yfirleitt vera sem stytzt og frjálsræði úthafsins sem mest. En alltaf hafa verið margar þjóðir, sem játuðust ekki undir þessa reglu, og þess vegna hefur það alltaf verið nokkuð óvíst, hver regla gilti um þetta efni. Þess vegna hafa m.a. bæði alþjóðafélög þjóðréttarfræðinga reynt að setja fram ákveðnar reglur um þetta, og eins hafa verið kvaddar saman hvað eftir annað alþjóðlegar ráðstefnur til þess að fjalla um þetta efni og til þess að reyna að komast að niðurstöðu um það, hversu landhelgi skuli vera stór. Þá sögu skal ég ekki rekja hér, en vil aðeins nefna það, að árið 1930 var kvödd saman ráðstefna í Haag, að tilhlutan gamla þjóðabandalagsins, og eitt af þeim verkefnum, sem sú ráðstefna átti að fjalla um, var einmitt landhelgin. Sú ráðstefna var sótt af 45 ríkjum. Því miður tókst henni ekki að komast að neinu samkomulagi um breidd landhelginnar, en hún var samt engan veginn þýðingarlaus, vegna þess að þá var aflað mjög mikilla gagna frá ýmsum löndum um þetta efni, og þá kom fram, hver sjónarmið þjóðanna voru á þeim tíma til þessa efnis. Svo var það næst, að kvödd var saman sjóréttarráðstefna í Genf 1958, en þá var það á undan farið, að 1950 hafði Ísland einmitt gert till. um það á þingi Sameinuðu þjóðanna, að þjóðréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna skyldi taka þetta málefni, landhelgina, til meðferðar í sambandi við það málefni, sem n. var falið að setja reglur um, úthafið. Þjóðréttarnefndin starfaði og aflaði mikilla upplýsinga og skilaði áliti 1956, en henni tókst ekki að komast að niðurstöðu um það, hversu landhelgin skyldi vera breið. Hins vegar komst hún að þeirri niðurstöðu, að það væru ekki til neinar fastar alþjóðlegar reglur um þetta efni, og kollvarpaði þess vegna þeirri kenningu, sem hafði verið haldið fram, m.a. af Bretum og mörgum öðrum stórum þjóðum, að það væri alþjóðaregla, að landhelgi skyldi ekki vera nema 3 sjómílur. En hins vegar setti þjóðréttarnefndin fram það álit sitt, að landhelgi mætti þó ekki vera lengri en 12 sjómílur. En vitaskuld er það eingöngu álit þeirra fræðimanna, sem þá n. skipuðu. Þetta mál kom svo til Sameinuðu þjóðanna, en því lauk þar með því, eins og ég áðan sagði, að þar var samþykkt að kveðja saman þessa sjóréttarráðstefnu í Genf 1953. Niðurstaðan af þeirri sjóréttarráðstefnu varð, eins og öllum er kunnugt, sem hér eru, á þá lund, að þar fékkst ekki samkomulag um það, hversu breið landhelgin skyldi vera, eða réttara sagt, það náðist ekki tilskilinn meiri hluti fyrir samþykkt um það efni, og enn var málinu vísað til Sameinuðu þjóðanna, og þar lauk svo á sömu lund og fyrr, að ákveðið var að kalla saman nýja sjóréttarráðstefnu. Hún var kvödd saman í Genf 1960, en lauk á sama veg og áður, að ekki náðist niðurstaða, þó að mjóu munaði, vegna þess að þar munaði í raun og veru ekki nema einu atkv. og þó tæplega það, til þess að samþykkt væri gerð um þetta efni, og má segja, að eins og á stóð, hafi það líklega farið vel, að ekki tókst þó þá að gera þá samþykkt, sem þar stóð til að gera. Þannig stöndum við enn í dag, að það eru ekki til fastar alþjóðareglur um þetta efni, landhelgina.

Hvert hefur þá verið horf íslenzka ríkisins til landhelgi á umliðnum árum? Það má í stuttu máli segja, að áður fyrr var landhelgisbeltið við Ísland talið breitt. Frá því á 17. og á 18. og fram yfir miðja 19. öld var landhelgi hér við land talin frá 24 sjómílum niður í 16 sjómílur. Árið 1812 var gefinn út konungsúrskurður um landhelgi við Danmörku og Noreg og þar ákveðið, að landhelgi skyldi vera 1 dönsk míla eða 4 sjómílur. Sá konungsúrskurður var ekki talinn hafa gildi hér á landi, enda var honum ekki ætlað það. Hélzt því sama regla hér og fyrr. Síðan gerist það, að 1859 spyrst flotamálaráðuneytið fyrir um það til danska dómsmálaráðuneytisins, hversu viða landhelgi skuli verja hér við land. Þá var svar danska dómsmrn. á þá lund, að þó að landhelgi hafi hér verið áður lengri og konungsúrskurðinum hafi ekki beint verið ætlað hér að gilda, þá hafi þó í framkvæmdinni verið látið nægja nú um skeið að meina öðrum þjóðum að veiða hér á 4 sjómílna belti, og sagt, að við það skuli haldið og að utanrrn. hafi verið beðið að tilkynna það öðrum þjóðum. Síðan var það eftirleiðis þannig, að miðað var við 4 sjómílur í þessum efnum. En landhelgisgæzlan hér við land þótti mjög slægleg, og hvað eftir annað kom til kasta Alþingis, hins ráðgefandi þings, og það samþykkti hvað eftir annað bænaskrár um bætta landhelgisgæzlu, og það varð m.a. til þess, að 1872 var gefin út tilskipun um fiskveiðar útlendinga hér við land. Og þar er gert ráð fyrir því, að útlendingum séu bannaðar fiskveiðar innan þeirra marka, sem landhelgi eru ákveðin í hinum almenna þjóðarétti, eða eins og hún kunni að verða ákveðin í samningum Íslands við aðrar þjóðir.

Eins og ég hef rakið hér áður, var ekki til nein alþjóðaregla um þetta, og var því að þessu leyti til byggt á falskri forsendu í þessari tilskipun. Svo gerðist það, sem hér þarf ekki að hafa mörg orð um og öllum háttv. alþm. er kunnugt, að árið 1901 var gerður samningur við Breta um þessi efni, og í þeim samningi var fiskveiðilögsagan gagnvart Bretum ákveðin 3 mílufjórðungar og í framkvæmd var því fylgt einnig gagnvart öðrum þjóðum, að því er virðist. Það stóð svo allar götur til 1951, að þessi samningur við Breta rann út. Að vísu var þá ekki á stundinni hafizt handa um stækkun landhelginnar, heldur látið bíða nokkuð og beðið eftir úrslitum í máli því, sem þá stóð yfir milli Norðmanna og Breta um landhelgismál. Þegar úrslit þess máls lágu fyrir, var hafizt handa um stækkun landhelginnar 1952.

Þetta eru í stuttu máli, alveg örstuttu máli, aðaldrættirnir í því, hvernig þessum málum er háttað og hefur verið háttað að þjóðaréttinum og hvernig þeim málum hefur verið háttað hér hjá okkur. En áður en landhelgin var færð út 1952, hafði það gerzt, eins og rakið er í grg., að lögin nr. 44/1948, um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins, höfðu verið sett, sem ég mun hér í máli mínu á eftir til hægðarauka nefna landgrunnslögin.

Landgrunnslögin voru byggð á þeirri hugsun, eins og sagt er í grg. með þessari þáltill., að Íslendingar eigi rétt til landgrunnsins alls og að þeir fari þar einir með lögsögu og full yfirráð. Sú hugsun er í sjálfu sér forsenda laganna. Það er að vísu ekki skilgreint í lögunum sjálfum, við hvað sé átt með landgrunni, enda er í sjálfu sér kannske dálítið erfitt að skilgreina það nákvæmlega, því að sannleikurinn er sá, að landgrunnið er ekki miðað við neinn tiltekinn mílufjölda á haf út, heldur endar landgrunnið eðli málsins samkvæmt þar, sem snögg breyting verður á og grunnsævið kringum landið endar og snardýpkar út að úthafi. Í athugasemdum þeim, sem fylgdu frv. að landgrunnslögunum, var þó tekið fram, að landgrunnið væri greinilega afmarkað á 100 faðma dýpi, og má vel vera, að svo sé hér, um það skal ég ekki segja. En rétt er um leið að geta þess, að á sjóréttarráðstefnunni í Genf árið 1958 var gengið út frá því, að mörk landgrunnsins væru miðuð við 200 m dýpi, og er ekki ólíklegt, að við það verði aðallega miðað í framtíðinni.

Með setningu landgrunnslaganna var hafizt handa um útfærslu fiskveiðilögsögunnar til friðunaraðgerða á landgrunninu, en það var þá ljóst orðið, að slíkar aðgerðir voru sérstaklega nauðsynlegar, og undanfarið höfðu komið fram margar raddir um það og m.a. verið samþykktir um það gerðar og till um það fluttar hér á Alþ. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þá sögu hér, en nefni það aðeins og undirstrika það, án þess þó að fara að lesa upp landgrunnslögin, að þau geyma mjög viðtæka heimild til handa reglugerðargjafanum til ákvörðunar á fiskveiðitakmörkum og til þess að gera friðunaraðgerðir á landgrunninu. Þau hafa verið skilin í framkvæmd á þá lund, og það hefur ekki verið gerð nein aths. út af fyrir sig við þá framkvæmd, að þau veiti sjútvmrn. heimild til útfærslu fiskveiðilandhelgi. Hafa allar reglugerðir um útfærslu til þessa, þ.e.a.s. reglugerðin frá 1950 um útfærslu fyrir Norðurlandi, reglugerðin 1952 um almenna útfærslu og reglugerðin 1958 og svo núgildandi reglugerð, verið byggðar á eða verið settar með tilvísun til landgrunnslaganna, eins ag alkunnugt er. Það er skoðun mín að vísu, að það hefði verið hentugra að ákveða landhelgina með lögum eða a.m.k. með forsetaúrskurði, og það er skoðun mín, að það sé óheppilegt, að eitt ráðuneyti hafi jafnóskorað vald í þessum efnum eins og er eftir lögunum frá 1948. En út í það skal ég ekki fara nánar hér. Ég skal ekki heldur fara neitt út í aðdraganda að setningu þessara reglugerða hverrar fyrir sig, og ég ætla heldur ekki að fara hér neitt út í landhelgisdeilu þá við Breta, sem hófst í sambandi við eða eftir að þessar reglugerðir höfðu verið settar.

Þó að landhelgisreglugerðirnar séu allar byggðar á landgrunnslögunum og settar með tilvísun til þeirra, og þó að það sé auðvitað frá sjónarmiði okkar Íslendinga alveg sjálfsagt réttlætismál, að landgrunnið með öllum þess gögnum og gæðum, þar með talin fiskimiðin á landgrunninu, tilheyri Íslandi og Íslendingum, hefur sú regla, að strandríki hafi einkarétt til fiskimiða landgrunns þess. ekki enn náð viðurkenningu sem þjóðréttarregla því miður. Það tókst ekki að fá þá reglu viðurkennda á sjóréttarráðstefnunni 1958 þrátt fyrir viðleitni íslenzku fulltrúanna í þá átt. Reyndar er enn tiltölulega skammt síðan hin svokallaða landgrunnskenning var sett fram og hún hefur, eins og sagt var, ekki enn náð viðurkenningu sem þjóðréttarregla. Það hefur Alþ. verið ljóst, því að 5. maí 1959 samþ. Alþ. þáltill. um landhelgismálið, sem er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

Alþ. ályktar að mótmæla harðlega brotum þeim á íslenzkri fiskveiðilöggjöf, sem brezk stjórnarvöld hafa efnt til með stöðugum ofbeldisaðgerðum brezkra herskipa innan íslenzkrar landhelgi, nú nýlega hvað eftir annað jafnvel innan 4 mílna landhelginnar frá 1952. Þar sem slíkar aðgerðir eru augljóslega ætlaðar til að knýja Íslendinga til undanhalds, lýsir Alþ. yfir, að það telur Íslendinga eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, að afla beri viðurkenningar á rétti þess til landgrunnsins alls, svo sem stefnt var að með lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, og að ekki komi til mála minni fiskveiðilandhelgi heldur en 12 mílur frá grunnlínum umhverfis landið.“

Þessi till. var á sínum tíma flutt af utanrmn. og var á Alþ. samþ. samhljóða. Eins og ljóst er af henni, telur Alþingi Íslendinga eiga ótvíræðan rétt til 12 mílna fiskveiðilandhelgi, þ.e.a.s. að sú landhelgisákvörðun sé í fullu samræmi við þjóðréttarreglur, eins og nú mun nokkuð almennt viðurkennt. Hins vegar gerir Alþ. ráð fyrir því, að réttur landsins til landgrunnsins alls eða utan 12 mílna markanna sé ekki jafnskýlaus að alþjóðalögum, en lýsir yfir þeim vilja sínum, þeim ásetningi sínum, að afla beri viðurkenningar á rétti landsins til landgrunnsins alls, eins og stefnt var að með landgrunnslögunum frá 1948. Í viljayfirlýsingu Alþingis felst auðvitað áskorun til ríkisstj. um að reyna að afla þeirrar viðurkenningar. Í samningnum við Breta um lausn fiskveiðideilunnar frá 1961, sbr. auglýsingu nr. 4 frá 1961, segir svo, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórn Íslands mun halda áfram að vinna að framkvæmd ályktunar Alþingis frá 5. maí 1959 varðandi útfærslu fiskveiðilögsögunnar við Ísland, en mun tilkynna ríkisstjórn Bretlands slíka útfærslu með 6 mánaða fyrirvara, og ríki ágreiningur um slíka útfærslu, skal honum, ef annar hvor aðili óskar, skotið til Alþjóðadómstólsins.“

Hér áskilja Íslendingar sér að vísu rétt til einhliða útfærslu fiskveiðilögsögunnar, hvort heldur er til landgrunnsins alls eða til tiltekinna svæða þess, svo sem stefnt var að með ályktun Alþ. frá 5. maí 1959 og landgrunnslögunum frá 1948. En út frá því er jafnframt gengið, að slík útfærsla sé ekki andstæð þjóðarétti, því að báðir aðilar samþ. að skuldbinda sig til að hlíta úrskurði Alþjóðadómstólsins um lögmæti útfærslunnar, ef til ágreinings skyldi koma.

Það er alkunnugt, sem ég fer ekki út í hér, að um þennan samning urðu miklar deilur á Alþ., bæði um þetta „obligatoriska“ ákvæði um málskot til Alþjóðadómatólsins og eins ákvæði um tilkynningarskyldu, sérstaklega gagnvart Bretum, en út í þær deilur fer ég ekki neitt hér og rek ekki þá sögu hér.

Hverjar svo sem skoðanir manna kunna að vera á þessum samningi og hver svo sem þau atriði hans eru, sem mönnum eru sérstaklega þyrnir í augum, þá er það víst, að fram hjá honum verður ekki gengið, og meðan samningurinn er í gildi, verður auðvitað eftir honum að fara, hvernig svo sem afstaða manna hefur verið til samningagerðarinnar á sínum tíma. Þó að Íslendingar geti eftir sem áður fært út landhelgina með einhliða ákvörðun, verða þeir að vera við því búnir, að Bretar geri kröfu um, að sú ákvörðun sé lögð undir úrskurð Alþjóðadómstólsins. Gagnkvæmt gildir það auðvitað, að Íslendingar geta samkvæmt þessu ákvæði krafizt þess, að slík deila verði lögð undir úrskurð Alþjóðadómstólsins, ef Bretar ætluðu sér t.d. að beita hervaldi eins og síðast. Alþjóðadómstóllinn segir þá til um það, hverjar hömlur þjóðarétturinn setur ákvörðunarvaldi einstakra ríkja í þessu efni. Er af því ljóst, að möguleikar Íslands til frekari landhelgisútfærslu og til friðunaraðgerða á landgrunninu eru mjög undir því komnir, hver þróun þjóðaréttar verður í þessu efni og á þessu sviði. Það skiptir því mjög miklu máli, að fylgzt sé sem allra bezt með réttarþróuninni í þessum efnum og reynt sé á allan hátt, eftir því sem hægt er, að stuðla að þeirri réttarþróun, sem okkur er hagstæð.

En það leikur ekki á tveim tungum, að á undanförnum árum hefur þróun þjóðréttarreglna um landhelgi vemið okkur Íslendingum í vil, bæði um viðáttu eiginlegrar fiskveiðilandhelgi og rétt ríkja yfir landgrunninu, en nú mun af þjóðarétti viðurkenndur umráðaréttur ríkja yfir hafsbotninum á landgrunninu, hvort heldur er til rannsóknar eða nýtingar náttúruauðlinda þar. Um það efni var gerð alþjóðasamþykkt á Genfarráðstefnunni 1958, og mun sú alþjóðasamþykkt nú hafa tekið gildi. En sérstaklega þýðingarmikil í því sambandi var yfirlýsing sú, sem Truman Bandaríkjaforseti gaf á sínum tíma árið 1945 um það, að náttúruauðæfi á hafsbotni landgrunnsins kringum Bandaríkin skyldu tilheyra þeim, sem gefin var í tilefni af olíulindafundi, sem þar átti sér stað.

Eins og ljóst er af því örstutta yfirliti, sem ég gef áðan um þróun þjóðréttarreglna um þetta efni, var það svo, að mjög víða var landhelgin talin 3 sjómílur, og kom fram á ráðstefnunni í Haag 1930 t.d., að það voru mjög margar þjóðir þeirrar skoðunar, að landhelgin ætti að vera sú. En nú hafa hins vegar fjölmörg ríki, jafnvel þau, sem áður aðhylltust 3 sjómílna landhelgi, fært út sína landhelgi og eru mjög mörg komin með 12 sjómílna landhelgi og sum jafnvel stærri landhelgi, eins og t.d. Suður-Ameríkuríkin, sem hafa helgað sér landgrunnið allt, og t d. ríki eins og Argentína, Equador, Chile, Perú telja landhelgi sína 200 sjómílur á haf út og þar með landgrunnið allt, og raunar 3 hin síðasttöldu án tillits til þess, hvort þarna er um landgrunn að ræða. Það er að vísu ekki hægt að segja, að þetta hafi verið viðurkennd þjóðréttarregla enn, en samt er það svo, að þessum ákvæðum hefur verið beitt í framkvæmd. T.d. er það kunnugt og þekkt dæmi, þegar Perúmenn árið 1954 tóku rétt innan við þessi mörk hvalveiðiflota gríska skipakóngsins Onassis, sem sigldi undir Panamafána, og færðu skipin til hafna með vopnavaldi, og þeim skipum var ekki þaðan sleppt, fyrr en borguð hafði verið sú sekt, sem þau höfðu verið dæmd til að greiða, um 3 millj. Bandaríkjadollara. Það er þess vegna í stuttu máli augljóst, að á síðari árum og sérstaklega á þeim árum t.d., sem liðin eru frá síðari heimsstyrjöld, hafa orðið alger þáttaskil í þessum efnum, og það hefur átt sér stað mikil þróun í rétta stefnu að okkar dómi á þessu sviði, þannig að ríki geti nú talið sér víðari landhelgi en áður.

Nú kynni einhver að álíta, að Íslendingar, sú fámenna þjóð, gætu ekki haft mikil áhrif í þessu efni, hver þróun þjóðaréttarins verður og hver þróun verður á alþjóðavettvangi í þessum efnum. En sú ályktun er ekki rétt. Ef litið er til sögunnar, sést það einmitt, að það er hafið yfir allan vafa, að með staðfastri baráttu sinni í landhelgismálinu á undanförnum árum hafa Íslendingar átt drjúgan þátt í þessari þróun, sem orðið hefur, og skal ég ekki endurtaka það, sem ég hef þegar um það sagt, að Íslendingar áttu á sínum tíma á allsherjarþinginu 1950 þátt í því, að þjóðréttarnefndin tók þetta mál til meðferðar og að þessar tvær sjóréttarráðstefnur í Genf 1958 og 1960 fjölluðu um málið, komust að vísu ekki að ákveðinni eða endanlegri niðurstöðu, en það kom þó glögglega fram á þessum ráðstefnum, að reglunni um 3 sjómílna landhelgi var algerlega kollvarpað og sú regla, sem átti mestu fylgi að fagna á þessum ráðstefnum, var 12 sjómílna landhelgin. Það má enn fremur nefna það, að á þessari ráðstefnu 1958 var gerð samþykkt um fiskveiðar og verndun lífrænna auðæfa hafsins, eins og hún hefur verið nefnd. Og í 7. gr. þeirrar samþykktar er sagt, að strandríki geti gert einhliða ráðstafanir um takmarkaðan tíma til verndar fiskstofnum á landgrunni utan landhelgislínu. Þær ráðstafanir verða þó að vera reistar á vísindalegri niðurstöðu, þeirra verður að vera greinilega þörf, og þær mega ekki skapa nein forréttindi til handa fiskimönnum einstaks strandríkis.

Það þarf ekki hér að minna á þær ráðstafanir, sem Íslendingar gerðu, eftir að ljóst var, að landhelgisráðstefnan 1958 var árangurslaus að þessu leyti til, að þar fékkst ekki nein ákveðin regla. Þá var landhelgin færð hér út, eins og kunnugt er, í 12 sjómílur, og síðan hefur sem sagt þróunin hjá öðrum ríkjum stefnt í þá átt að færa út sína fiskveiðilandhelgi. Aðrar þjóðir, eins og t.d. Norðmenn, hafa þar komið á eftir. Það þarf ekki að rekja það nánar, en það er alveg auðsætt, í hvaða átt þróunin hefur stefnt. Og það er líka alveg fullvíst, eins og ég sagði áðan, að Ísland hefur átt sinn mikla þátt í þeirri þróun með baráttu sinni í landhelgismálunum. En hvað sem um það er, er það ljóst, að eftir þessar alþjóðaráðstefnur í Genf er ekki fyrir hendi nein alþjóðasamþykkt eða alþjóðasamningur um viðáttu landhelgi. Þar af mega menn vitaskuld ekki draga þá ályktun, að þjóðarétturinn setji hér engar skorður og að hverju ríki sé algerlega í sjálfsvald sett að fara svo langt sem það kýs. Kom það raunar fram í áliti þjóðréttarnefndarinnar, sem ég vitnaði til áðan. En í því sambandi má líka minna á dóm Alþjóðadómstólsins í deilumáli Breta og Norðmanna 1951, sem er afskaplega þýðingarmikill dómur um þessi efni, vegna þess að sú grundvallarregla kemur fram í þeim dómi, að það verði að meta eftir heildarmati á fjölmörgum atriðum, hversu langt ríki megi teygja sín yfirráð út. Það verði að taka tillit til bæði sögulegra ástæðna, landfræðilegra ástæðna, efnahagslegra ástæðna, líffræðilegra ástæðna o.s.frv. Og sú grundvallarregla er auðvitað sérstaklega mikilsverð fyrir okkur Íslendinga, auk þess sem þá var staðfest hið svokallaða grunnlínukerfi, sem er afar þýðingarmikið. En á meðan ekki eru fyrir hendi neinar alþjóðlegar samþykktir eða fastar alþjóðavenjur, staðfestar af alþjóðadómi, um þetta efni, er ríkjandi nokkur réttaróvissa á þessu sviði. Og á meðan er einmitt fyrir hendi verulegt svigrúm til að vinna að réttarreglu í þá átt, sem við teljum okkur hagstæða, eða réttarþróun í þá átt, sem við teljum okkur hagkvæma. Auðvitað er sá möguleiki einnig fyrir hendi, á meðan svo stendur, að þróunin gangi í öfuga átt. Enginn getur að vísu sagt um það, en ég held þó, að þróunin muni fremur stefna í þá átt, að viðurkenndur verði ríkari réttur einstakra ríkja í þessu efni til landgrunnsins, og finnst mér ýmislegt á síðari tímum benda til þess, m.a. það, sem fram hefur komið á alþjóðaráðstefnum um það efni. Meðan þetta svigrúm er fyrir hendi, er þess vegna um að gera fyrir okkur að nota tímann og vinna að þessari réttarþróun, því að það er alveg víst, að þó að mikið hafi áunnizt og enginn geri lítið úr því, sem á vannst með útfærslu landhelginnar bæði 1952 og 1958, fer því fjarri, að framtíðarhagsmunum íslenzkrar þjóðar á þessu sviði sé þar með fullnægt. Það verður stöðugt ljósara, að þar verður ekki fullur sigur unninn, fyrr en viðurkenndur hefur verið réttur þjóðarinnar yfir fiskimiðum landgrunnsins, svo að hún geti sett þar þær reglur um fiskveiðar og friðunaraðgerðir, sem þörf er á til verndunar fiskstofnum og til varnar gegn ofveiði. En það mun nú samdóma álit allra, sem bezt þekkja til, að veiðar á uppeldisstöðvum fiskstofnanna á landgrunninu utan landhelgislínu gangi langt úr hófi fram og jafnvel svo, að lífshagsmunum þjóðarinnar sé stefnt í voða. Nútímaveiðitækni hefur auðvitað stóraukið þá hættu. Rannsóknir hafa sýnt, að Íslendingar veiða ekki nema örlítið brot af þeim ungfiski, sem þar er um að ræða. Í því sambandi og því til sönnunar má sérstaklega vitna til skýrslu Jón Jónssonar, sem birt var s.l. vetur, í marz að ég ætla, í tímaritinu Ægi, en Jón Jónsson var formaður í nefnd fiskifræðinga, sem falið var það verkefni að gera skýrslu um ástand þorsk-, ýsu-, ufsa- og karfastofnanna við Ísland, Færeyjar og Austur-Grænland. Þessi skýrsla er mjög athyglisverð. Ég veit, að hv. alþm. hafa kynnt sér hana. Það er þess vegna ekki ástæða til að fjölyrða um það efni, en þó vil ég aðeins til áherzlu taka upp örfá atriði úr þeirri skýrslu. Þar segir m.a.:

„Á árunum 1960—1964 var samtals landað af Íslandsmiðum 575 millj. þorska. Eru Íslendingar og Bretar stórtækastir á veiðinni, en það skiptir mjög í tvö horn með stærðina á þeim fiski, sem þessar þjóðir afla. Á þessu tímabili nam heildarveiði Breta 254 millj. þorska eða 44% af heildarafla, en sá fiskur var aðallega 40—70 cm langur og mest af honum á aldrinum 3—5 ára og svo til allur ókynþroska. Heildarafli Íslendinga á sama tíma nam 261 millj. fiska, en þeir voru aðallega 70—100 cm langir, aldurinn 7—12 ára og svo til allir kynþroska og höfðu a.m.k. 30% hrygnt einu sinni eða oftar.“

Og enn fremur segir í þessari stórmerku skýrslu:

„Það er enn fremur mjög athyglisvert að athuga, hve mikill hluti afla hinna einstöku þjóða er fiskur undir 70 cm eða óþroska. Í heildarafla Íslendinga voru um 18% undir þessari stærð, en 82% í veiði útlendinga.“ Enn fremur segir: „Íslendingar taka einungis 18 af hverjum 100 óþroska fiskum, sem landað er á Íslandsmiðum. Hitt taka útlendingar, aðallega Bretar. Veiðisvæði þeirra eru vel þekkt fyrir Norðaustur- og Norðvesturlandi, og má segja, að fiskur sá, sem þeir afla, sé nokkuð staðbundinn, þar til hana verður kynþroska og leitar í heita sjóinn til hrygningar.“

Í þessari skýrslu leggur Jón til, að vissar ráðstafanir séu gerðar. Þær ráðstafanir eru sjálfsagt réttmætar út af fyrir sig, og dreg ég það ekki í efa. En þó að þær séu gerðar, þá dregur það ekki úr nauðsyn þess, sem öllum ætti að vera augljóst eftir lestur þessarar skýrslu, að Íslendingar helgi sér landgrunnið allt, til þess að þeir geti sett þar þær reglur um veiðarnar, sem við eiga. Það er augljóst, að til þess er rík nauðsyn. Og eftir lestur þessarar skýrslu verður auðvitað skiljanleg sú ördeyða, sem verið hefur fyrir Norðurlandi undanfarin ár. Það var ofur eðlilegt, að síðasta fiskiþing léti þetta málefni til sín taka og gerði það líka myndarlega. Það var samþykkt þar samhljóða svofelld ályktun, sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskiþing leggur ríka áherzlu á, að unnið verði markvisst að því, að allt landgrunnið verði innan fiskveiðilögsögu Íslands.“

Herra forseti. Ég skal nú fara að stytta mál mitt. Í þessari þáltill. felst það, að kosin skuli 7 manna nefnd til að vinna að þessu máli ásamt ríkisstj. Það er nauðsynlegt, að undirbúningur þessa máls sé sem vandaðastur. Um undirbúning að landhelgisútfærslu 1952 og 1958 má kannske deila, að því er varðar einstök atriði. En ég hygg, að allir séu sammála um það, að í höfuðdráttum hafi undirbúningur að þeim ákvörðunum verið með vönduðum hætti og vel hafi verið að þeim unnið og staðið. Og ég býst við því, að það þurfi að vinna að þessu máli eitthvað á svipaðan hátt og þá var gert. Það þarf að kynna öðrum þjóðum sem rækilegast ástæður Íslendinga og málstað þeirra í þessu máli, og það verður að fylgjast með réttarþróuninni og kynna sér hana og hvað er að gerast í þessum efnum og reyna alls staðar, þar sem hægt er, að stuðla að þeirri réttarþróun, sem við teljum æskilega í þessum efnum, sem sé þeirri, að réttur ríkis hvers til landgrunns síns, og fiskimið þar með talin, verði viðurkenndur. Það er sérstök þjóðarnauðsyn, að um þetta mál verði sem allra mestur einhugur innanlands. Þess vegna er einmitt lagt til í þessari þáltill., sem við höfum hér lagt fram, að Alþ. kjósi 7 manna nefnd til þess að hafa forustu í málinu, en með þeim hætti ætti að vera tryggð samstaða í því, svo sem bezt verður gert. En það þarf, eins og ég sagði, að hafa undirbúninginn í þessu máli allan sem vandaðastan, og það þarf að leggja höfuðáherzlu á að afla allra þeirra gagna, sem fáanleg eru í þessu efni og eru til þess fallin að vekja skilning útlendra manna á þeirri nauðsyn, sem hér er um að ræða fyrir íslenzka þjóð. Það má sjálfsagt búast við því, að róðurinn í þessum efnum verði þungur, þar til fullur sigur er unninn. En ég tel ekki tímabært á þessu stigi að vera með neina spádóma um það efni, hversu langan eða skamman tíma það muni taka að vinna að fullum sigri Íslands á þessu sviði, það fer eftir atvikum. En eins og ég sagði áðan, er það trú mín, sem ég að vísu byggi á n,okkrum sólarmerkjum, að þróunin muni á næstu árum ganga í þá átt, að það muni vera grundvöllur fyrir því að fá viðurkenndan rétt ríkis til landgrunnsins, ekki aðeins til botnsins og náttúruauðæfa þar, eins og raunar þegar er gert, heldur til fiskimiðanna yfir landgrunninu. En hvað sem um það er, legg ég höfuðáherzlu á það í þessu sambandi, að þetta mál þolir ekki neina bið og þess vegna verður að hefja sókn í því sem allra fyrst. Og um það finnst mér, að allir landsmenn ættu að geta verið sammála, og allir landsmenn ættu að geta verið sammála um að fara þessa leið, sem hér er gert ráð fyrir, en með henni er mörkuð sú höfuðstefna., að að þeirri stefnu, sem tekin verður í málinu, standi allir stjórnmálaflokkar landsins, en það er að mínum dómi heppilegast, ef þess er nokkur kostur. Og auðvitað á þetta mál ekki að vera sérmál neinna stjórnmálatlokka eða ríkisstjórnar. Þess vegna hef ég líka hagað mínum málflutningi hér á þá lund, að ég hef ekki farið út í deilur um fortíðina, ég hef látið þær liggja á milli hluta. Það þýðir ekki það, að þær séu gleymdar. Þær eru vitaskuld geymdar, en það er ekki ástæða til þess að vera að rifja þær upp í þessu sambandi, vegna þess að ég tel það mikilsverðast, að allir standi saman um framtíðaraðgerðir í málinu.

Ég skal svo ljúka máli mínu, en leyfi mér að leggja til, að till. sé vísað til 2. umr. og vísað í millitíðinni á milli umræðna til utanrmn. til athugunar.