30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í D-deild Alþingistíðinda. (2339)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þessi tillaga á þskj. 33 er samhljóða annarri, sem flutt var á síðasta þingi, að mestu leyti af sömu mönnum. Tillögunni á síðasta þingi var vísað til utanrmn., og hún skilaði áliti um tillöguna. Hún klofnaði að vísu og skilaði tveimur álitum, frá meiri hl. og minni hl., þar aem meiri hl. lagði til, að málinu yrði vísað til ríkisstj., en minni hl. lagði til, að tillagan yrði samþykkt. Það er nú ekki svo langt síðan þetta gerðist, það er kringum missiri, því að nál. utanrmn. komu fram í maímánuði s.l., það eru um það bil sex mánuðir síðan þetta gerðist. En þingi var að ljúka, þegar till. utanrmn. bárust þinginu, og komust þær þess vegna ekki til afgreiðslu. Ég held þess vegna, að það sé ekki mikil ástæða til þess að fara frekar út í málið en gert var á síðasta þingi, en ég skal gjarnan í stuttu máli lýsa afstöðu minni þá en hún var á þá leið, að ég taldi, að með þessari nefndarskipun væri mjög lítið unnið á þessu stigi málsins. Ég lýsti mig samþykkan því, sem segir í grg. till., með leyfi hæstv. forseta, að setja þarf kunnáttumenn til að kynna sér mál þessi öll og réttarþróunina sem rækilegast, svo og til að kynna öðrum þjóðum málstað Íslands og stuðla með öllum tiltækum úrræðum að þeirri réttarþróun um mál þetta og allar framkvæmdir og að um allar ákvarðanir sé sem allra mest samstaða stjórnmálaflokka. Ég get, eins og ég lýsti þá yfir líka, alveg fallizt á, að nauðsynlegt er og það er frumatriði í málinu, að íslenzka þjóðin og stjórnmálaflokkarnir hafi samstöðu um málið og geri það, sem hægt er, til þess að koma því fram. En hitt getur náttúrlega verið ágreiningur um og er það í þessu tilfelli, hvaða leið yrði farin og hvaða leið væri líklegust til þess að ná beztum árangri. Ég fyrir mitt leyti tel, að beztur árangur náist með því, að sá háttur verði hafður, sem í grg. segir og ég var að enda við að lesa upp, að kunnáttumenn verði fengnir til þess að kynna sér mál þessi öll frá sem flestum sjónarmiðum. Nefnd hefur raunverulega ekki, að mér finnst, neitt verkefni til að taka til meðferðar, fyrr en málið hefur verið rannsakað af þessum kunnáttumanni eða mönnum og niðurstöður frá honum eða þeim liggja fyrir.

Nú hefur það skeð í málinu, að ríkisstj. hefur tryggt sér þann kunnáttumann íslenzkan í þessu máli, sem ég tel færastan til þess að fara með það og kynna sér það sem allra bezt, það er Hans Andersen ambassador í Osló, sem hafði með landhelgismálið að gera allt á fyrra stigi og er öllum hnútum þar manna kunnugastur. Hann hefur tekið að sér að kanna öll atriði í sambandi við þetta mál, og það er einmitt í hans skipunarbréfi, að hann eigi að kynna sér það frá bíólógísku sjónarmiði, frá efnahagslegu sjónarmiði og frá lagalegu sjónarmiði og leggja niðurstöður sínar að þessari athugun lokinni fyrir ríkisstj., sem þá mundi leita eftir samstöðu við aðra flokka um, hvernig frekar skyldi staðið að málinu. Ég held, að þetta sé sú aðferð, sem hljóti að gefa bezta raun, því að þótt sjö menn skjótist saman, sinn úr hverju horni, til þess að ræða málið, þá er það ekki gott fyrir nefndina og er raunverulega ekki mögulegt fyrir nefndina að hafa á þessu skoðun, fyrr en hún hefur fengið þær upplýsingar frá sérfræðingnum, sem hann getur veitt eftir að hafa tekið málið til athugunar.

Raunverulega er þetta það, sem ég hef um málið að segja. Það er að mínu viti ekki líklegasta leiðin til að afla því framgangs að setja saman þessa nefnd, heldur að sérfræðingurinn, sem ráðinn hefur verið, hafi frumkvæði í málinu og kannske með aðstoð annarra, því að hann hefur fengið heimild til þess að hafa samband við og ráðfæra sig við alþjóðasérfræðinga á þessu sviði, og þess vegna geta þar fleiri komið til en hann. En allt verður það að vegast og metast frá sérfræðings- og vísindamannssjónarmiði fyrst og fremst.

Ég held, að ég þurfi ekki frekar um þetta að segja. Skoðun mín á málinu hefur ekki breytzt frá því í vor, enda, eins og ég sagði, ekki nema missiri, síðan málið var hér síðast til umr.