30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í D-deild Alþingistíðinda. (2341)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Norðurl. v. og 1. flm. þessarar till. kom að því oftar en einu sinni í sinni ræðu, að víst væri þessi maður, sem við höfum fengið til þess að vinna að undirbúningi málsins, Hans G. Andersen, hæfur og góður maður. En sitt hvað var þó við hann að athuga hjá þessum hv. þm. Í fyrsta lagi vildi hann gera þetta tortryggilegt með því að telja, að það væri verið að gera þetta að hjáverki hjá honum að kanna málið, þar sem hana væri sendiherra okkar í Noregi og hefði þar öðrum hnöppum að hneppa, og í öðru lagi hefði ekki við útnefningu þessa manna verið haft samráð við hina flokkana. Ég minnist nú þess, að viðurkenning þessa hv. þm. á Hans Andersen var nú ekki meiri en það í vor, þegar um þetta mál var rætt, að ég man ekki betur en hann hefði þar orðað og viljað hafa þann hátt á, að velja nokkra unga menn til þess að alast upp í málinu, kynna sér, — ja, læra fyrst, skildist mér þá hvernig þeir ættu að standa að því, og á eftir að taka það að sér til þess að vinna við það. Ég held, að það sé engum blöðum um það að fletta, að Hans Andersen er sá færasti og sá langfærasti allra Íslendinga í dag til þess að mynda sér skoðun í þessu máli og hafa um það forustu í allri grein. Hann er meira en færasti maður okkar Íslendinga, hann er „átoritet“ á heimamælikvarða. Og það er alveg sama, hvernig þessi hv. þm. veltir þeim hlutum fyrir sér, því verður ekki um þokað. Ég taldi það þess vegna, svo sjálfsagt, að þegar hann var fenginn og gaf kost á því að taka þetta mál að sér, yrði það ekki vefengt eða dregið í efa af neinum og þar með væri þessum hluta málsins skipað á þann bezta veg, sem hægt væri að gera. Ég held, þrátt fyrir það að hann sé okkar sendiherra í Osló, þurfi það akki að rekast á við störf hans að undirbúningi landhelgismálsins, en ef svo færi, þá er auðvelt að fá mann til Oslóar, því að starfið þar er ekki eins þýðingarmikið og þetta mál, eins og raunar kom líka fram hjá hv. síðasta ræðumanni.

Ég held þess vegna, að það hafi ekki verið neitt unnið að þessu máli í þá áttina, að samkomulag við aðra flokka gæti ekki orðið gott, þó að ekki væri samkomulag um ráðningu þessa manns. Svo sjálfsagt var það.

Ég held, eins og ég sagði, að nefndarskipunar á þessu stigi sé ekki þörf og geri lítið gagn. Það er alveg rétt, sem hv. flm. sagði, að allir Íslendingar hafa svipaða skoðun á málinu og þeir vilja, að landgrunnið komist í hendur Íslendinga. En þeir geta ekki haft skoðun á því, hvernig eigi að vinna að því, að þetta verði gert. Það er það, sem málið á stendur. Og það þarf að kynna sér bæði frá lagalegu sjónarmiði og vísindalegu sjónarmiði, hvernig bezt verður að því staðið. Við erum nú ekki, Íslendingar, einir í heiminum, og til þess að ná þessu í gegn verðum við að hafa til fylgis við okkur meiri hluta allra þjóða. Og hvernig verður bezt að því unnið?

Hv. þm. lét að því liggja, að ég hafi staðið mig haldur illa á þessum fundi Sameinuðu þjóðanna, þar sem ég hafði ekki tekið þetta mál til meðferðar þar. Það er nú svo. Ég gerði það, gerði það ekki að vísu á þann hátt, sem hann eða hans blað, Tíminn, töldu, að réttast væri að gera, með því að segja: Hér er ég frá Íslandi og vil hafa mitt landgrunn. — Ég taldi þetta áhyggilegt. Ég taldi miklu fremur rétt að reyna að fá samvinnu sem flestra þjóða í heiminum í baráttunni gegn hungri og fyrir verndun fiskstofnanna. Það er staðreynd í dag, að ýmsar þjóðir í heiminum svelta heilu hungri og alveg sérstaklega vegna próteinskorts, sem fiskurinn gefur. Ég taldi þess vegna vera réttast þar að benda á þetta atriði og reyna að fá sem flesta til þess að fá samúð með því að tryggja þeim þjóðum, sem eru í svelti, það fiskmeti, sem þær þurfa Og það gerði ég. Og ég varð var við það, að þetta hafói samúð margra manna á þinginu, alveg sérstaklega þeirra, sem skortinn líða. Ég held þess vegna, að það hafi verið miklu skynsamlegra að byrja átök í þessu máli með því að reyna að ná samúð um það, heldur en vekja andúð á því, því að auðvitað hefði það vakið andúð og ég vil segja á þessu stigi kannske mikla andúð, að við færum að undirstrika það, að við ættum nú eiginlega þetta allt saman og það væri heilög skylda þeirra að hjálpa. okkur til þess, að þetta eignarhald næðist.

Ég skal náttúrlega ekki meta, hvort sjónarmið þessa hv. þm. um það að taka strax landgrunnssjónarmiðið í fyrstu atrennu sem aðalatriði málsins sé affarasælla en hitt, að reyna að vekja samúð um það að vernda fiskatofnana í hafinu.

Ég get til viðbótar þessu sagt, að skömmu síðar var borin fram till. á þingi Sameinuðu þjóðana um rannsókn á auðæfum hafsins, en þar var ekki í till., eins og hún kom fyrst fram, gert ráð fyrir, að verndun fiskstofna yrði þar tekin með. Fyrir atbeina íslenzku sendinefndarinnar, sem gerðist meðflm. að málinu með því skilyrði, að þetta væri tekið inn í till., var það gert. Og nú hefur verið samþ. í annarri n. hjá Sameinuðu þjóðunum till., sem fer í þá átt að rannsaka auðæfi hafsins og verndun fiskstofna. Ég veit ekki, hvernig hægt verður að þoka málinu þessa leið, en ég held, að það sé hægara að þoka málinu áfram þessa leiðina en vaða beint áfram með landgrunnssjónarmiðið og eiginhagsmunasjónarmiðið strax í upphafi.

Þetta mál eða þessi till. sem hefur verið samþ. í nefnd hjá Sameinuðu þjóðunum og væntanlega kemur fyrir hjá þinginu sjálfu núna mjög bráðlega, er að mínu viti mjög líkleg til þess að geta hjálpað okkur um þá afgreiðslu málsins, sem getur komið okkur að gagni. Og ég vil benda á meira, að till. þessi, sem samþ. hefur verið, gerir ráð fyrir því, að aðalritari Sameinuðu þjóðanna skipi n. sérfræðinga til þess að vinna að þessu máli, og íslenzka sendinefndin hefur fengið fyrirmæli um það að leitast við, að við fengjum fulltrúa í þessari n., og það tel ég mjög þýðingarmikið, ef það tekst, og ég er ekki frá því, að það takist, eftir því sem útlitið er nú, að því er mér er sagt. Sem sagt, ég nafni þetta vegna þess, að hv. þm. fann ástæðu til að finna að þeim hætti, sem ég hefði haft á um að koma málinu af stað. En ég fullyrði, að það er ekki líklegt, eða ég meina það a.m.k. og vil leyfa mér að hafa þann h átt á matinu, að það er ekki líklegt, að það hefði gengið öllu betur, þátt við hefðum strax farið að ræða um okkar landhelgi og okkar eiginhagsmuni.

Hv. þm. taldi, að þó að ríkisstj. eða kannske nánar tiltekið ég í þessu tilfelli hefðum haft falleg orð um samstöðu í málinu, væru athafnirnar þannig, að þær staðfestu ekki þessa umsögn mína eða ríkisstj. Athafnirnar gilda, sagði hv. þm., og þær eru öðruvísi en mátt hefði vænta eftir þeim orðum, sem um þetta hafa verið höfð. Ég held nú, að þetta sé langt frá því að vera rétt. Orðin, sem við höfum haft um þetta mál, eru þau, að við viljum láta kanna málið mjög ýtarlega, og það er vandasamt mál og það viðurkenna allir, og leggja það síðan gjarnan fyrir samstarfsnefnd allra flokka eða á annan hátt þannig, að allir stjórnmálaflokkarnir fái tækifæri til þess að kynna sér það, til þess að meta þær leiðir, sem lagt er til að farnar verði, og til þess að yfirleitt gera sér grein fyrir málinu í öllum atriðum. Að athafnirnar í þessu máli séu þess vegna öðruvísi en við höfum haft orð uni, það tel ég ekki rétt og hafi ekki við neitt að styðjast. Við erum nefnilega. mjög háðir því í þessu máli, hvernig aðrar þjóðir taka undir. Við getum ekki komið saman í 7 manna nefnd hér uppi á Íslandi og sagt: Við Íslendingar teljum, að við eigum landgrunnið, og við viljum gjarnan fá það og fá afnot af því fyrir okkur eingöngu, en við viljum ekki, að aðrir komi þar nálægt. — Ég er ekki alveg viss um það, að meiri hlutinn af þjóðum heims muni hoppa inn á svona athafnir. Væri ekki skynsamlegra að fara þá leið að markinu að kynna sér fyrst eftir lagaleiðum, eftir persónulegum samtölum við aðila þeirra ríkja, sem fulltrúa eiga hjá Sameinuðu þjóðunum, og á allan annan hátt, sem mögulegur er, á hvern hátt möguleikar væru til þess að þoka málinu fram, og þá fyrst, þegar sérfræðingurinn eða sérfræðingarnir eru komnir að niðurstöðu um það, hvernig þetta skuli gert og hvernig það megi bezt takast, komi n. saman? Þetta er það eina, sem ég hef sagt um málið, bæði við umr. í vor, þegar þetta mál var til meðferðar hér, og ég er sömu skoðunar enn, og mér þykir leitt, að ég þarf að hryggja hv. þm. með því, að ég hef ekki skipt um skoðun og ég tel mjög litlar líkur fyrir því, að ég geri það.

Þá kom hann inn á annað atriði, sem vissulega er athyglisvert og ég er honum sammála um að þarf að breytast, og það er um stöðu utanrmn. hér í hinu háa Alþ. Það er alveg rétt, að það eru miklu færri mál borin undir utanrmn. en vert væri og sennilega rétt væri. En það er af því, að fyrrv. utanrrh. taldi, að hann hefði orðið þannig fyrir barðinu á utanrmn., að hann gæti ekki trúað henni fyrir málum. Ég held, að mér sé óhætt að segja það eftir honum, að trúnaðarmál, sem n. hafi verið sagt frá, hafi verið borin út og komið í blöðunum, og þess vegna vildi hann ekki fyrir sitt leyti, að henni væru fengnar allar þær upplýsingar, sem annars hefði verið rétt, að n. fengi. Ég skal ekkert segja um þetta, ég þekki það ekki svo vel. En hitt vildi ég gjarnan og það hef ég sagt við utanrmn., að það væri hægt að komast að — ég vil segja samkomulagi við n. um það, að það væri hægt að hafa það samband við hana, sem eðlilegt er, þ.e.a.s. það væri hægt að trúa henni fyrir öllum málum, sem þar ættu að ræðast, og hægt væri að taka upp við hana samband um þetta. Ég hef nú ekki haft tækifæri til þess að hafa þetta samband við utanrmn. nema mjög stutt. En ef eitthvert framhald yrði á því, sem kannske verður nú ekki, skal ég gjarnan lýsa því yfir, að ég vildi gjarnan hafa það samband við utanrmn., sem ég tel að eðlilegt væri, þ.e. a. s. henni væri hægt að trúa fyrir öllum utanríkismálum eins og þau legðu sig. Það er það eðlilega, og það er það rétta. Ég held svo, að ef það tækist að koma málum í það horf, væri nú enn þá minni nauðsyn til að setja þessa 7 manna n., sem hv. þm. vilja setja samkv. þessari till.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð í bili. Ég veit, að þetta mál er vandmeðfarið, og það vitum við sjálfsagt allir. Og þess vegna megum við ekki blanda í það pólitík. Það vona ég, að ég hafi ekki gert, og ég held, að það væri ekki æskilegt, að það yrði gert, heldur að reynt yrði að vinna að því i sátt og samlyndi, án þess að reyna að koma þar að sjónarmiðum, sem að mínu viti eiga þar ekki heima. Ég tel að vísu að sjálfsögðu rétt, að þetta fari aftur til utanrmn., a.m.k. formsins vegna, því að málið þarf að afgreiðast hér. Þó að hún hafi látið í ljós álit sitt á því í fyrra, er kannske ekki alveg fræðilega öruggt, að hennar skoðun sé sú sama í dag. Ég skal ekkert um það segja, ég hef ekki kannað það, en mér þykir ólíklegt, að á því hafi orðið nokkur veruleg breyting. En samt sem áður, af því að nál. vomu ekki tekin til meðferðar hér í vor, er sjálfsagt, að þau fái möguleika til eðlilegrar afgreiðslu nú.