15.02.1967
Sameinað þing: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (2349)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Fyrst aðeins nokkur orð um það, sam var tilefni til þess, að ég fór að ræða málið hér á ný, þ.e.a.s. fundargerð utanrmn. frá 1964.

Hv. 3. þm. Norðurl. v., sem hér var að ljúka máli sínu, taldi, að sú staðhæfing, sem kemur fram í fundargerð n., sé ekki nægilega rökstudd, og ég skal ekki fara út í að ræða það frekar. En það, sem fyrir mér vakti, var aðeins að sanna það, að ég hafði sagt rétt frá — það er ekkert annað, sem fyrir mér vakti, — að fyrrv. utanrrh. hefði virkilega lýst þessu yfir um stjórnarandstöðuna í n., og ástæðan til þess, að hann skýrði ekki n. frá trúnaðarmálum, væri þessi, sem ég greindi frá. Og það tel ég að komi alveg skýrt og greinilega fram í fundargerðinni.

Þá skal ég víkja nokkrum orðum að þeim efnisatriðum, sem hv. síðasti ræðumaður hér, hv. 3. þm. Norðurl. v., minntist á. Hann taldi og var mér sammála um það, að mjög æskilegt væri, að meðferð þessa máls, þessa þýðingarmikla og kannske þýðingarmesta máls okkar, landhelgismálsins, væri ópólitísk, og ég er því fyllilega samþykkur. En þá er spurningin, hvaða hátt á að hafa, til þess að þessi málsmeðferð geti komið til framkvæmda. Till., sem hér liggur fyrir til umr., er um að kjósa 7 manna n. hlutfallskosningu til þess, eins og í till. stendur. „að vinna ásamt ríkisstj. að því að afla viðurkenningar á rétti Íslands til landgrunnsins, svo sem stefnt var að með l. um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, sbr. ályktun Alþingis frá 5. maí 1959 og yfirlýsingu ríkisstj. í auglýsingu nr. 4 frá 1961.“ Þetta er lofsverður tilgangur, og sjálfsagt finnst mér að taka undir hann. En það, sem var ástæðan til þess, að ég taldi það ekki beinlínis nauðsynlegt að kjósa þessa n., er það, að ef samstarf tekst við utanrmn., höfum við þar nákvæmlega sömu n. sem hér er stungið upp á. Og það vona ég, að geti komið til. Við höfum 7 manna n. Það eru 7 menn, sem ganga saman í utanrmn. og ræða þar saman. Þar eru allir flokkar, og þeir eru þar í sömu hlutföllum og mundi verða í nýrri 7 manna n., þannig að ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til að ætla, að þessi 7 manna n. mundi vinna nokkuð meira en utanrmn. getur gert, ef á annað borð tekst gott samstarf á milli hennar og ríkisstj., sem ég vil vona. Og ef ekki tekst gott samstarf á milli ríkisstj. og utanrmn., er ekki heldur að búast við, að það verði neitt sérstáklega gott samstarf á milli þessarar nýju 7 manna n. og ríkisstj., þannig að mér sýnist það alveg koma út á eitt, hvort þessi 7 manna n. verður kjörin og henni fengin málin til meðferðar eða utanrmn.

Þá minntist hv. síðasti ræðumaður á þá ræðu, sem ég hafði flutt á þingi Sameinuðu þjóðanna, og endurtók það, sem hann sagði hér fyrir jólin, að ég hefði átt að leggja meiri áherzlu á kröfu Íslendinga til landgrunnsins. Nú vil ég í fyrsta lagi benda á, að þessar umr., sem ég tók þátt í, voru almennar umræður eða eldhúsdagsumræður, það voru ekki umr. um sérstakt mál, heldur almennar pólitískar umr., og þess vegna meiri ástæða til að tala um málið almennt, en taka upp sérstök mál til meðferðar þar. En það, sem fyrir mér vakti við þá umr., var að undirstrika þá almennu þýðingu á því, að fiskstofnarnir yrðu varðveittir, og hvaða þýðingu það hefði, sérstaklega fyrir þær mörgu nýju þjóðir, sem voru orðnar meðlimir Sameinuðu þjóðanna, sem eru í fisksvelti, sem eru í prótein-svelti og ég held, að það hafi haft nokkra þýðingu, a.m.k. varð ég nokkuð var við það. Og ef hægt er að gera þessar þjóðir „interessaðar“ í því, að gerðar verði sératakar ráðstafanir til verndunar fiskstofnanna, er mikið unnið. Og það var það, sem ég lagði áherzlu á í þeim orðum, sem ég fór um þetta fyrir jólin, og ég taldi þetta ekki óheppileg vinnubrögð á fyrsta stigi málsins. Á öðru stigi málsins, þegar till. kom frá annarri n. þingsins um kosningu n. til að rannsaka auðæfi hafsins og á hvern hátt þau yrðu varðveitt og komið í veg fyrir eyðileggingu þeirra, tók fulltrúi okkar til máls og tók einmitt þetta atriði til greina um afstöðu okkar til landhelgismálsins, og ég held, að það sé gagnlegt til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að ég lesi það, sem hann sagði þar. Það er svo, með leyfi forseta, — hann er búinn að halda þó nokkurn ræðustúf áður, en segir svo, — þá var einmitt til umræðu þetta, hvort ætti að kjósa nefnd til rannsóknar og varðveizlu á auðæfum hafsins, og hann segir:

„Allir, sem hér eru, vita, að ráðstefnurnar í Genf árin 1958 og 1960 gerðu sér fyllilega grein fyrir forgangsrétti strandríkis á sviði fiskveiða og verndarráðstafana. Það mál er ekki hér til umræðu að þessu sinni. En sendinefnd Íslands vill leggja áherzlu á það, að ráðstafanir af hálfu strandríkisins beri að taka með í yfirliti því, sem ráðgert er. Að öðrum kosti mundi yfirlitið verða algerlega óraunhæft. Að því er Ísland varðar, er það grundvallaratriði í stefnu ríkisstj. að halda áfram að vinna að þessum málum á grundvelli laganna um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins frá 1948, þ.e. innan þess svæðis, sem nokkurn veginn svarar til landgrunnsins. Af Íslands hálfu hefur með hlýjum hug verið metinn hinn vaxandi skilningur á þessari nauðsyn að því er Ísland varðar og einnig að því er tekur til annarra landa, þar sem ný löggjöf varðandi fiskveiðitakmörk hefur verið sett eða er í undirbúningi. Á Íslandi samþykkti Alþingi ályktun árið 1959 þess efnis, að ríkisstjórn Íslands mundi gera allt, sem í hennar valdi stæði, til að afla viðurkenningar annarra þjóða á nauðsyn þess að framkvæma landgrunnslögin. Rétt og nauðsynleg framkvæmd þeirra laga byggist á þróun þjóðaréttar. Við vonum, að hin nýju ríki taki þátt í þeirri þróunarviðleitni og vissulega standi þar fremst í flokki.“

Ég þarf ekki að lesa meira en þetta, til þess að hv. 3. þm. Norðurl. v. sannfærist um, að það hafi ekki verið óheppileg vinnubrögð að ræða málið fyrst almennt og gera grein fyrir, hvað í húfi var fyrir heimsbyggðina bókstaflega alla, ef fiskstofnarnir minnkuðu og drægjust saman, og síðan, þegar málið var að koma úr annarri nefndinni og till. um nefndarkosninguna, væri gerð sérstök grein fyrir áhugamálum Íslands og hvernig Íslendingar hugsuðu sér að reka málin. Það má náttúrlega sí og æ deila um það, hvað sé heppileg aðferð, hvað sé heppilegur málflutningur í þessu efni. En ég held, að þessi málflutningur, sem við höfðum uppi hjá Sameinuðu þjóðunum í haust sem leið, hafi ekki verið óheppilegur, og alveg sérstaklega sá árangur, sem náðist, þegar nefndin í fyrsta lagi gat komið rannsókn á fiskstofnunum inn í verkefni þessarar rannsóknarnefndar, og síðan, að við gátum fengið Íslending í nefndina, Íslending, sem er mjög mikið „átoritet“ á sínu sviði, þá held ég, að málunum hafi verið þokað eins vel áfram á þessum vettvangi og þá var mögulegt.

Það var, þegar við töluðum áður um landhelgismálið, viðurkennt, að það gæti tekið tíma og það gæti tekið langan tíma að koma þessu máli í framkvæmd. Það verðum við að gera okkur ljóst, og það er líka viðurkennt af öllum. En ég held, að þessi byrjun, sem komst af stað núna hjá Sameinuðu þjóðunum, sé gagnleg og miði verulega í rétta átt. Sameinuðu þjóðirnar eru að mínu viti alveg ákjósanlegur vettvangur til þess að taka þetta mál upp, eins og reyndist áður, með sinni meðhöndlun í laganefndinni, alþjóðalaganefndinni, og á þeim fiskveiðiráðstefnum, sem um þetta mál voru haldnar, svo að ég held, að Sameinuðu þjóðirnar séu örugglega sá vettvangur, sem við eigum að halda okkur að, a.m.k. fyrst í stað og raunar framvegis líka, af því að það, sem gildir í þessu máli, er að fá alþjóðlega viðurkenningu á því, að það þurfi fiskstofnanna vegna að vernda landgrunnið. Það er ekki nóg að segja, eins og hv. síðasti ræðumaður kom nú nokkuð inn á að ég hefði sagt áður, það er ekki nóg að koma og segja: Ég vil eigna mér þetta hafsvæði, sem er yfir landgrunninu, og allt, sem í því er. — Hitt er að mínu viti miklu vænlegra til árangurs, ef við getum komið og sýnt fram á að það sé fræðileg nauðsyn og meira en fræðileg, það sé raunveruleg nauðsyn til þess, að fiskstofnarnir verði varðveittir, og það verði ekki gert nema með því að færa landhelgina út.

Hv. þm. vildi gera greinarmun á þessu tvennu, á verndun fiskstofnanna og yfirráðum yfir landgrunninu, og sagði raunar eitthvað á þá leið, að þetta væru tvö aðgreind mái, sem mér skildist að hann vildi halda fram að væru nánast óskyld. En það álít ég, að sé mikill misskilningur, því að ég álít, að rakanna fyrir því, að við fáum yfirráðin yfir landgrunninu og fáum okkar fiskveiðilandhelgi færða út, þeirra raka sé fyrst og fremst að vænta frá þeim bíólógísku rannsóknum, sem fram hafa farið og fara enn á fiskstofnunum og þeim möguleikum, sem séu til þess að viðhalda þeim. Þess vegna, held ég, að það sé alveg óvefengjanlegt, að þessi tvö mál séu skyld og að annað málið styðji hitt eða að þau styðji hvort annað gagnkvæmt.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta frekar, í öllum aðalatriðum erum við, skilst mér, sammála. Það getur verið einhver blæmunur á því, hvaða aðferð er höfð, en ég er á því, að sú aðferð, sem við höfum enn þá haft uppi í þessu máli, sé heppileg, og að mínu viti líklegust til að bera árangur. Það hefur nú á örstuttum tíma tekizt að fá 12 mílna landhelgina viðurkennda um — ég vil segja allan heim og af öllum þeim, sem um þessi mál fjalla. Hins vegar koma svo lönd í SuðurAmeríku með ótrúlega landhelgi fyrir utan sín lönd, en á því tekur enginn mark, og þess vegna held ég, að sú undirbygging, sem við þurfum að hafa, sé einmitt sú undirbygging, sem fæst í starfi þessarar n., sem kosin var til að rannsaka og tryggja verndun auðæfa hafsins.