24.02.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í D-deild Alþingistíðinda. (2382)

41. mál, húsnæðismál

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 43 till. til þál. um húsnæðismál. Er efni till. það, að Alþ. álykti að skora á ríkisstj. að láta heimildarákvæði gildandi laga um húsnæðismálastofnun ríkisins um byggingar hagkvæmra, vandaðra og staðlaðra íbúða, sem láglaunafólk í verkalýðsfélögunum hafi forkaupsrétt að með sérstökum lánskjörum, koma til framkvæmda hvarvetna utan Reykjavíkur, þar sem þörf er aukinna íbúðabygginga og viðkomandi sveitarfélög og samtök verkafólks tryggja, að ákvæðum og skilyrðum laga um gerð íbúðanna og hagkvæmar byggingarframkvæmdir sé fullnægt.

Forsaga þeirra heimildarlaga, sem hér er rætt um, er í stuttu máli sú, að við gerð kjarasamninga verkalýðsfélaganna á Suðvesturlandi, eða nánar tiltekið í Reykjavík, og vinnuveitenda sumarið 1965 var gefin um það yfirlýsing af hálfu ríkisstj. og borgarstjórnar Reykjavíkur, að þessir aðilar skuldbyndu sig til að standa að byggingu 1250 íbúða, sem reistar yrðu í Reykjavík á 5 árum. En láglaunafólk í verkalýðsfélögum skyldi eiga forkaupsrétt að íbúðum þessum og njóta í því sambandi sérstakra kjara hvað lán og lánstíma snerti. Skyldu lánin nema 80% af koatnaðarverði íbúða og lánstíminn vera 33 ár og lánin afborgunarlaus fyrstu 3 árin. Framhaldið var svo það, að ríkisstj. beitti sér fyrir breytingu á l. um húsnæðismálastofnun ríkisins, sem fól í sér heimild henni til handa til að láta byggja, eins og í l. segir, hagkvæmar, ódýrar íbúðir í fjölbýlishúsum í samvinnu við hlutaðeigandi sveitarfélög og veita láglaunafólki í verkalýðsfélögunum þau lánskjör til kaupa á íbúðunum, sem heitið var í yfirlýsingu ríkisstj. En lög um þetta efni voru samþ. á Alþ í des. 1965. Síðan hafa framkvæmdir samkv. gefnum yfirlýsingum og heimildarlögum verið í undirbúningi hér í höfuðborginni. Þær hafa að vísu tekið nokkru lengri tíma en ráð var fyrir gert, en víst mun þó talið nú, að smíði 350 íbúða muni hefjast innan tíðar. Hins vegar sér þess enn ekki merki, að ríkisstj. hafi uppi áform um að nota heimildarákvæði til hliðstæðra framkvæmda utan höfuðborgarinnar.

Í sambandi við kjarasamninga verkalýðssamtakanna og samtaka vinnuveitenda bæði 1964 og 1965, var farið inn á þær brautir að fjalla um ýmis fleiri hagsmunaatriði en hið beina kaupgjald, og voru húsnæðismálin þar efst á blaði bæði árin og það af mjög auðskiljanlegum ástæðum, sem sé þeim, að samningsaðilum var ljóst, að lítt bærilegur húsnæðiskostnaðar láglaunafólks var og er ein af aðalástæðunum fyrir sívaxandi tekjuþörf þess. Um leið og verkalýðssamtökin hurfu að því ráði að reyna kjarasamninga á grundvelli minni kauphækkana en áður og að því er ætlað var á grundvelli verðbólguhömlunar, var það rökrétt og eðlilegt, að þau lögðu áherzlu á endurbætur á húsnæðismálakerfinu og freistuðu þess að ná fram aðgerðum, sem miðuðu að því að lækka þennan mikilvæga þátt framfærslukostnaðar. Með samkomulaginu um byggingu 1250 íbúða í Reykjavík fyrir láglaunafólk í höfuðborginni með þeim kjörum, sem í því sambandi eru fyrirhuguð, eygir umtalsverður fjöldi heimila þar í fyrsta skipti raunhæfa möguleika á því að eignast sæmilegt húsnæði, sem líklegt er, að það fái risið fjárhagslega undir. Hitt er þó ekki síður mikilvægt, að slíkur íbúðafjöldi sem hér kæmi til á íbúðamarkaðinum við væntanlega hagstæðu verði og sérstaklega aðgengilegum lánskjörum, miklu aðgengilegri lánskjörum en áður hafa þekkzt, er næsta líklegur til þess að hafa lækkunaráhrif og þau kannske veruleg á húsnæðismarkaðinn, breyta honum í heilbrigðara horf, lækka byggingarverðlag almennt á höfuðborgarsvæðinu. Á hinn bóginn virðist það á engan hátt réttlætanlegt, að slíkar umbætur sem hér er um að ræða séu einskorðaðar við höfuðborgina og láglaunafólk annars staðar á landinu verði með öllu afskipt um þau sérstöku lánskjör og hagkvæmni í byggingarframkvæmdum, sem ætlunin er, að upp verði tekin. Húsnæðisvandamálin eru engan veginn takmörkuð við höfuðborgina, heldur er þar um að ræða vanda, sem steðjar raunverulega að hverjum láglaunamanni, sem þarf að byggja yfir sig húsnæði og sig og sína, hvar sem er á landinu. Og sú þörf er fyrir hendi að meira eða minna leyti í flestum kaupstöðum og kauptúnum í landinu. Það skal þó ekki úr því dregið, að þörfin á úrbótum og framkvæmdum sé brýnust hér á höfuðborgarsvæðinu, og því verður að teljast eðlilegt, að þyngst áherzla sé lögð á sérstakar ráðstafanir þar. En hinu má þó ekki heldur gleyma, að jafnvægi og jafnræði í þessum efnum milli höfuðborgarsvæðisins annars vegar og landsbyggðarinnar hins vegar verður að vera ríkjandi regla, ef nokkurt hald á að reynast í átaki eins og því, sem hér er fyrirhugað. Forréttindi og misrétti mundi aðeins enn á ný ýta á þá þróun, að landsmenn þjappi sér enn frekar saman en áður á þéttbýlissvæðinu í og við höfuðborgina og hún aftur gera takmörkuð átök í húsnæðismálunum að engu, áður en langt um liði, og í raun og veru vil ég segja, að þetta sjónarmið sé að nokkru leyti a.m.k. viðurkennt með því að heimildarlögin ná til landsins alls, eins og ég hef áður getið um. Ég álít, að öll skilyrði, sem heimildarlögin setja fyrir því, að ákvæðin um hin sérstöku lánskjör séu notuð, séu nú fyrir hendi víða um land, sérstaklega í hinum stærri kaupstöðum, þar sé víða um verulega aukningarþörf í byggingarframkvæmdum að ræða og þar séu góð skilyrði og ég vil segja jafnvel fullt eins góð skilyrði og í Reykjavík eða betri til þess að byggja hagkvæmar og staðlaðar íbúðir og þar sé einnig víða fyrir hendi vilji sveitarfélaga og verkalýðsfélaga til nauðsynlegrar samvinnu um framkvæmdir, ef möguleikar til þeirra eru opnaðir af hálfu ríkisstj.

Af hálfu verkalýðssamtakanna hlýtur að vera lögð á það þung áherzla, að hinar sérstöku ráðstafanir komi láglaunafólki til góða hvarvetna úti um land, þar sem unnt er að uppfylla eðlileg skilyrði og þar sem húsnæðisskortur er fyrir hendi, og eftir að svo hefur verið frá lögunum gengið sem gert hefur verið, verður að teljast í alla staði óeðlilegt, að slíkt jafnréttismál þyrfti t.d. að gera að nýju samningamáli í sambandi við hugsanlega eða væntanlega kjarasamninga. Í þessu sambandi minni ég t.d. á ályktun, sem gerð var um þetta efni á þingi A.S.Í., sem haldið var seint á s.l. ári, í nóv. s.l., þar sem þess var krafizt, að ráðstafanir yrðu gerðar til þess að útfæra umræddar aðgerðir í húsnæðismálum til landsbyggðarinnar allrar.

Ég læt svo að lokum í .ljós þá von, að hv. Alþ. fallist á að samþykkja þessa till., sem hér liggur fyrir, og sýni með því ótvíræðan vilja sinn um það, að sami réttur verði tryggður láglaunafólki um allt land til þeirra úrbóta í húsnæðismálum, sem hér ræðir um og ríkisstj. hefur fullar heimildir til að beita sér fyrir.

Ég legg til, herra forseti, að umr. verði nú frestað og málinu vísað til hv. allshn.