14.12.1966
Neðri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 366 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Sunnl. hefur nú lýst skoðunum sínum á þessu máli og eru þær í aðalatriðum mjög svipaðar þeim skoðunum, sem ég hef á því, greinir þar lítið á milli, nema hvað snertir þörfina fyrir lántöku. Þegar hv. þm. er búinn að lýsa nauðsyn á því að hraða uppbyggingu dreifikerfis sjónvarps um landið og hversu þýðingarmikið þetta sé fyrir landsmenn og dreifbýlið og alla að koma þessu á, þá kemst bann að þeirri niðurstöðu, að það skipti engu máli, hvort ríkisstj. megi taka 25 millj. kr. lán eða 50 millj. kr. lán. M.ö.o.: það skiptir engu máli, hvort ríkisstj. hefur mikla eða litla peninga úr að spila. Ég verð nú að segja eins og er, ég skil ekki svona rökfærslu. Ég hélt, að það mundi heldur greiða fyrir uppbyggingu sjónvarpsins, ef ríkisstj. hefði nóga peninga, en hún hefur það auðsjáanlega ekki, ef hún á að hafa aðeins 25 millj. kr. lánsheimild. Ég ætla ekki að neita því, að hv. 5. þm. Vesturl. er kunnugur þessum málum og getur talað af nokkurri þekkingu um þau. En hann er búinn að gera lifandis ósköp mikið úr þessum tæknilegu erfiðleikum. Mér skilst, að það eigi eftir að mæla allt alls staðar og það sé eiginlega ekki hægt að vita, hvar þessar stöðvar eiga einu sinni að koma, þ. á m. Stykkishólmsstöðin, það sé eftir að mæla, hvar hún eigi að vera. En þó getur hann sagt það og hæstv. ráðh., að hún skuli vera í Stykkishólmi. Eitthvað eru þeir nú farnir að mæla. Þeir vita, hvar Skálafellsstöðin á að vera og Vaðlaheiðarstöðin o.s.frv. En þó er eiginlega allt eftir. Það er erfitt að skilja þetta, svo að ég taki nú ekki sterkara til orða. Ég neita því ekki, að tæknilegir erfiðleikar geti komið upp, þegar kemur til framkvæmdanna. Þá bendir hann mér á einn hlut, að verkfræðingurinn, sem kallaður var á fund menntmn. í morgun, sé ekki verkfræðingur þessara framkvæmda. Til hvers var þm. þá að biðja um þennan verkfræðing á fund nefndarinnar? Af hverju var ekki fenginn réttur verkfræðingur? Þetta er „vitlaus“ maður, sem hv. formaður menntmn. hefur kallað á sinn fund. Ég vissi ekki annað en þetta væri sérfræðingur, sem við gætum leitað allra upplýsinga hjá. Nei, nei, þetta er allt annar verkfræðingur. Þetta kalla ég eiginlega mistök. Því var ekki verkfræðingur landssímans látinn koma þarna? En það er aftur á móti staðreynd og hv. frsm. neitaði því ekki, sem ég sagði, að þeir, framkvæmdastjóri sjónvarpsins og verkfræðingurinn, gátu ekki bent okkur á þessa tæknilegu örðugleika.

Hv. 5. þm. Vesturl. segist hafa mikinn áhuga á útbreiðslu sjónvarps, og ég held líka, að hann geri það út af fyrir sig og hann geti ekki láð mér eða öðrum, þó að við höfum það líka. En finnst honum sjálfum það nógur áhugi að skera lánsheimildir svo við nögl sér, að ekki verði hægt að byggja meira á þremur næstu árum en fjórar stöðvarnar? En það hefur hann sagt hér í ræðu sinni núna, það séu þessar 4 stöðvar, það sé sá áfangi, sem eigi að reyna að koma upp fram til 1969: Skálafell, Vaðlaheiði, Stykkishólmur, Fjarðarheiði. Næstu 3 árin fáum við ekki annað. (Gripið fram í.) Það geta verið þær hérna sunnanlands, ég er að tala um hina landsfjórðungana. En hvað verður þá mikill hluti af fólkinu vestanlands, norðanlands og austanlands, sem getur notið sjónvarps, þegar þessar stöðvar eru komnar upp? Vantar ekki mikið á kerfið fyrir því? Jú, ég er hræddur um, að það vanti æðimikið. M.ö.o.: það er ekki nema lítið brot af fólki í öllum þessum landsfjórðungum, sem getur notið sjónvarps, þó að þessar stöðvar komi. Og þá hugsar hann og þeir, sem með honum standa í þessu, að komi næsta tímabil, líklega 4 ár, miðað við 7 ára tímabilið, til þess að byggja hitt upp. Þetta er þeirra áætlun, og þeir virðast ófáanlegir til þess að breyta þessum hugmyndum sínum um, að þetta taki 7 ár. En má ég nú ekki spyrja hv. frsm. n.: Á hverju byggist það, að hann og ráðh. og mér skilst stjórnarliðarnir hér standa svo einbeittlega gegn því, að heimildin sé hækkuð, heimild til lántöku sé hækkuð upp í 50 millj.? Hann segir, að það þurfi miklu meira fé. Það er alveg rétt. Hv. 3. þm. Sunnl. segir það sama, það vanti miklu meira. En að fara að hækka lánsheimild úr 25 millj. upp í 50 millj., það er bara hreint út í bláinn, segir hv. þm., það er alveg út í bláinn, út í hött. (Gripið fram í.) Er það ekki nær því, að hægt sé að byggja meira að hafa 50 millj. en 25 millj.? Þetta skilur enginn, að þetta sé hægt að samrýma áhuga um dreifingu sjónvarps. Það verður aldrei hægt að láta nokkurn mann skilja þetta. Hann getur engan úr sínum eigin flokki fengið til að skilja þetta, því að þetta liggur svo opið fyrir öllum mönnum, að það að hafa lánsheimild, sem er 50 millj., það skapar meiri möguleika til framkvæmda en að hafa bara 25 millj. Samt er ekki þeim að víkja, það skal ekki fara yfir 25 millj., sem ráðh. má taka að láni. Nú er enginn að skipa ráðh. að taka þetta að láni. Hann hefur það á valdi sínu. En ef honum lægi á og ef gengi vel að koma upp fleiri millistöðvum, þá gæti hann haldið áfram, af því að hann hefði heimildina.

Hv. 3. þm. Sunnl. sagði í ræðu sinni hér áðan: Það skiptir mig engu máli, hvort þessi till. er samþ. eða ekki, það mun hvaða ríkisstj, sem er fá heimild til þess að hækka þetta. — Ekki líklega, ef Alþingi verður eins skipað og núna. Fyrst þetta Alþingi ætlar að neita um að hækka 25 milljónirnar, þá getur líklega næsta Alþingi gert það líka. Þurfa þeir endilega að reikna með því, að Alþingi hér á eftir verði miklu betra en þetta? Það er ekki víst, að það verði neitt betra. Þetta atriði eitt að standa gegn hækkun lánsheimildarinnar sýnir, að áhugi þessara manna, — ég sný ekki aftur með það, — er minni en hjá okkur, sem höfum um þetta talað og viljum hraða uppbyggingunni. Hann er minni, því að andstaðan getur ekki byggzt á öðru. Þá verður hægt að afsaka sig með því, að peningarnir séu búnir: við höfum ekki meira fé allt til 1969, í 3 ár.