24.02.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 396 í D-deild Alþingistíðinda. (2476)

80. mál, fiskeldisstöðvar

Flm. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég hef ásamt hv. 2. þm. Norðurl. e. flutt á þskj. 99 till. til þál. um fiskeldisstöðvar. Er efni till. það að skora á ríkisstj. að skipa n. sérfróðra manna, sem rannsaki, hverjar gerðir fiskeldisstöðva henti bezt íslenzkum bændum, geri um slíkar framkvæmdir kostnaðaráætlanir og leggi á ráðin um, hver opinber stuðningur sé nauðsynlegur og tiltækilegur, til þess að þessi búgrein megi eflast með eðlilegum og æskilegum hætti í landinu. Við teljum rétt og nauðsynlegt, að slíkar athuganir fari fram, og eru helztu rök okkar fyrir því þessi: Í fyrsta lagi þau, að flest bendir til, að ræktun laxfiska geti orðið mjög arðvænleg atvinnugrein hérlendis, ef rétt er á málum haldið og byggt er á nægilegri þekkingu og fyrirhyggju. Í öðru lagi er hér um að ræða svo til nýja atvinnugrein, sem getur ekki byggzt á teljandi innlendri reynslu. Í þriðja lagi, að hérlendis er sérþekking í þessum efnum aðeins bundin við fáa einstaklinga enn sem komið er og því til fárra að leita um upplýsingar og fræðslu fyrir þá, sem hug hafa á og aðstöðu til að hefja fiskrækt, hvort sem er í smáum stíl eða stórum. Í fjórða lagi, að fiskrækt geti orðið sérlega heppileg aukabúgrein bænda, búgrein, sem geti stutt og eflt lífvænlega búsetu í sveitum landsins og aukið arðsemi og verðgildi bújarða.

Sá þáttur fiskræktar, sem þessi þáltill. fjallar um, gæti aðallega átt sér stað með tvennum hætti. Annars vegar með þeim hætti, að bændur notfærðu sér aðstöðu, sem þeir hefðu, með því að halda fiski í afkróuðum tjörnum, vötnum, vogum eða lónum, þar sem hann eftir aðstæðum væri látinn ganga sjálfala, þar til hann hefði náð markaðshæfum þroska án fóðrunar, eða flýtt væri fyrir vexti hans með fóðrun að meira eða minna leyti, þar sem nauðsyn bæri til. Í slíkum tilvikum væri um tvennt að ræða varðandi ræktunina: að hún byggðist á eigin klakstöðvum hvers fiskræktarbónda, sem þá væru að sjálfsögðu smáar í sniðum, eða að uppeldisseiði væru keypt frá stórum fiskeldisstöðvum. Reynslan af hagkvæmni í þessu sambandi yrði vafalaust að skera hér úr, en verð á seiðum frá þeim stöðvum, sem nú eru starfandi í landinu, virðist nokkuð hátt, enda enn sem komið er fyrst og fremst miðað við sleppingu í sportveiðiár, sem leigðar eru dýrum dómum. Aukin reynsla og hagkvæmni í rekstri klakstöðva gæti vafalaust lækkað verðlagið. En lítil klakhús hins vegar á sveitabæjum, þar sem fiskrækt væri stunduð, eru einnig fullkomlega innan marka þess möguleika. Auk fiskhalds, sem svo hefur verið nefnt, í tjörnum, vötnum eða sjávarlónum kemur svo að sjálfsögðu til greina sú fiskræktaraðferð, sem aðallega er nú þekkt hér á landi, að gönguseiðum er sleppt í ár og koma til viðbótar náttúrlegri framleiðslu ánna og skila sér aftur fullvaxin úr sjó 2—3 árum síðar, en þá aðeins að litlum hluta, kannske milli 5 og 10% í bezta falli, en eldið hefur þá líka orðið því ódýrara sem minni fóðrun nemur, og það er þessi aðferð, sem starfsemi allra þeirra fiskeldisstöðva, sem nú eru starfandi í landinu, er miðuð við, en þær munu vera 12 talsins. Báðar þessar fiskræktaraðferðir eiga vafalaust .mikla framtíð fyrir sér hér á Sandi, og hlýtur takmark beggja að vera það að komast fram úr því að byggja fyrst og fremst á sportveiði, svo góð sem hún er, þar sem hún hefur litla sem enga þjóðhagslega þýðingu. Stefnt hlýtur að verða að því að framleiða mikið magn laxa og annarra laxfiska, svo sem bleikju, sjóbirtings og vatnaurriða, bæði til innanlandsneyzlu og í stórum stíl til útflutnings, þar sem hér er um að ræða mjög verðmæta og einstaka gæðavöru. Til þess eiga að vera öll skilyrði hér á landi með allt það geysimikla vatnasvæði, sem enn er ómengað af völdum hvers konar stórrekstrar og fjölbýlis, sem hefur reynzt hinn mesti skaðvaldur alls lifandi lífs í ám og vötnum víða um lönd og alveg sérstaklega í iðnaðarlöndunum.

Það er skoðun okkar flm., að stórfyrirtæki í laxfiskarækt, fyrirtæki, sem e.t.v. kostar milljónir eða tugmilljónir að koma á fót, séu engan veginn eina færa leiðin til þess að þróa fiskrækt hér á landi, þar komi ekki síður til, að bændum víðs vegar um landið sé hjálpað með ráðum og dáð til þess að koma á fót tiltölulega ódýrum, en hentugum eldisstöðvum, sem þeir geti sinnt við hlið annars búrekstrar, a.m.k. í byrjun, og þá gjarnan með aðstoð léttara vinnuafls á heimilunum. Hirðing á klaki og seiðum útheimtir þrifnað og vissa nákvæmni, en hins vegar ekki mikla vinnu, og t.d. unglingar, sem vanir eru skepnuhirðingu, ættu vafalaust auðvelt með að uppfylla þau skilyrði, og slík vinna hefði líka trúlega uppeldisgildi og yrði ánægjulegt aukastarf fyrir yngri sem eldri. Með tilkomu kornaðs þurrfóðurs úr fiskúrgangi, sem nú er farið að framleiða, því miður ekki enn þá hér á landi, en þess er að vænta, að það verði innan tíðar, og því tilheyrandi ódýrum og öruggum fóðrunartækjum er mörgum kostnaði og örðugleikum rutt úr vegi og allt starf að eldinu gert margfalt auðveldara og ódýrara en áður var. Það, sem hér þarf helzt að koma til, er staðgott leiðbeiningastarf og einhver aukinn aðgangur að fjármagni. Leiðbeiningastarfið þarf hins vegar að byggjast á athugunum, slíkum sem þessi þáltill. gerir ráð fyrir, og einnig sú opinbera fjárhagsaðstoð, sem nauðsynleg mun reynast.

Þar sem þetta mál er allgreinilega reifað í grg. okkar flm., hef ég ekki um það fleiri orð að sinni, en legg til, að umr. verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.