01.03.1967
Sameinað þing: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í D-deild Alþingistíðinda. (2510)

107. mál, lagning olíumalar á Vesturlandsveg

Flm. (Axel Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 203 till. til þál. um að skora á ríkisstj. að láta gera ýtarlegar tilraunir með lagningu olíumalar á fjölfarnasta kafla Vesturlandsvegar, þ.e. frá Ártúnshöfða að vegamótum Þingvallavegar.

Á s.l. sumri mun umferð á hinum ýmsu vegum hafa aukizt um 10—20% og allt upp í 25% miðað við árið áður, og miðað við þá aukningu, sem orðið hefur á innflutningi bifreiða á árinu 1966 frá því, sem var árið 1965, má gera ráð fyrir enn frekari aukningu á umferðinni á þessu ári. Ástand fjölförnustu malarveganna er þegar orðið mjög slæmt, hvað þá þar sem fullvíst má telja, að umferðin aukist enn frekar en nú er. Það er eðlilegt, að malarvegirnir þoli ekki þessa miklu umferð og þá ekki hvað sízt fyrir það, að bifreiðarnar verða ávallt þyngri og þyngri, og mun það mála sannast, að það er kannske helzta ástæðan fyrir því, hvað malarvegirnir fara illa, þ.e. hve mikill öxulþungi er á þá lagður. Nú mun vera nokkurt eftirlit með því, að ákvæði hámarksþunga séu virt, og ég tel, að það beri að herða þetta eftirlit til muna, því að það er áreiðanlega ein höfuðforsendan fyrir því, að hægt sé að halda núverandi malarvegum í sæmilegu ásigkomulagi, að fylgt sé þar settum reglum. Það er og skoðun margra, að þungaskatturinn nú sé máske óeðlilega lágur miðað við það mikla slit, sem vegirnir verða fyrir af völdum hinna þungu bifreiða. Það er annað mál og ekki hér til umr. nú.

Með byggingu Reykjanesbrautarinnar frá Engidal við Hafnarfjörð og allt til Keflavíkur urðu þáttaskil í vegamálum okkar. Hin steypta Reykjanesbraut er vandaðasta vegagerð á landinu, — vegagerð, sem vonazt er til, að muni gefa góða raun, og svo hefur vissulega orðið, það sem af er, frá því að vegurinn var tekinn í notkun haustið 1965. Það er ekki ómælt, þó að sagt sé, að Reykjanesbrautin sé glæsilegasta framkvæmd í samgöngumálum Íslendinga, en þessi framkvæmd var eðlilega mjög kostnaðarsöm, og um síðustu áramót var kostnaður orðinn um 270 millj. kr. Það er því augljóst, að endurbygging helztu hraðbrautanna út frá Reykjavík verður geysilega mikið átak og fjárfrekar framkvæmdir og þess ekki að vænta, að þar verði allt framkvæmt í einu. Nú standa vonir til, að bráðlega hefjist framkvæmdir við endurbyggingu Hafnarfjarðarvegar um Kópavog, en þar er um stórframkvæmd að ræða, sem gert er ráð fyrir, að kosti um 70 millj. eða yfir 70 millj. kr. Þá er og hafin framkvæmd við byggingu Reykjanesbrautar frá Elliðaám til Hafnarfjarðar austan núverandi byggðar í Kópavogi. Það mun og verða mjög fjárfrek og tímafrek framkvæmd. Unnið er að undirbyggingu Austurvegar norðan Sandskeiðs, og fyrirhugaðar eru framkvæmdir við brúargerð á Elliðaám, sem verða mjög kostnaðarsamar framkvæmdir.

Af öllu þessu, sem hér hefur verið nefnt, má augljóslega sjá að þegar hefur verið í mikið ráðizt og mikið er á döfinni varðandi vegagerð hér í nágrenni Reykjavíkur. Og eins og eðlilegt er, hljóta þessar framkvæmdir að taka sinn tíma. Þá er og búið að ákveða vegarstæði Vesturlandsvegar allt til Kollafjarðar. Þar verður um mjög kostnaðarsama og tímafreka framkvæmd að ræða. Þar verða óhjákvæmilega mikil jarðvegsskipti, þegar til þeirra framkvæmda kemur.

Af því, sem ég hef hér vakið athygli á er augljóst, að fram undan eru þegar ákveðnar miklar framkvæmdir í nýbyggingu hraðbrauta út frá Reykjavík. Eins og ég hef tekið fram, hlýtur þetta að taka nokkurn tíma. En Vesturlandsvegurinn og þá sérstaklega að vegamótum Þingvallavegar er fjölfarnasti þjóðvegur landsins í dag, og þar er aðeins um malarveg að ræða, sem er langt frá því þannig gerður, að hann þoli þá miklu bifreiðaumferð, sem þar er nú, og einmitt á þeim vegi að vegamótum Þingvallavegar varð umferðaraukningin sumarið 1966 25% miðað við árið áður. Það er álit allra, sem til þekkja, að þarna verði að koma eitthvað til úrbóta. Eins og ég sagði, umferðin er gífurlega mikil, náði því í sumar að verða á milli 2500 og 2600 bílar á dag. Það er og eðlilegt. Þarna fer um öll umferðin til Vesturlands, Vestfjarða og Austfjarða, auk þess sem mikil umferð er um Þingvallaveginn.

Ég hef vakið athygli á því hér að gera tilraun með að nýta olíumölina til bráðabirgða, meðan notast þarf við þennan veg, — nota olíumölina til þess að reyna á þann hátt að bæta ástand vegarins í bili. Það má segja að ekki sé mikil reynsla fyrir olíumöl á okkar akbrautum enn sem komið er og alls ekki þar sem jafnmikil og þung umferð er eins og þarna er um rætt. Það er komin örlítil reynsla á olíumöl við þær aðstæður, þar sem umferð er minni. Sú reynsla gefur þegar góða raun og má fyllilega gera ráð fyrir því, að þar sé um frambúðarlausn að ræða varðandi slitlag á vegum, sem hafa a.m.k. ekki meira en tiltekna hámarksumferð. En það þýðir ekki það, að miklar vonir þurfi að binda við olíumalarsliti og á mjög fjölförnum akbrautum. Þetta haggar hins vegar ekki því, að nauðsynlegt er að reyna að gera eitthvað til úrbóta á þessum fjölfarnasta vegarkafla, og þá er eðlilegt að reyna olíumölina, vegna þess að þar er þó ekki um svo geysilega fjárfreka framkvæmd að ræða, ekkert í líkingu við t.d. malbik, enda mundi engum, sem til þekkja, koma til hugar, að það yrði nokkurt gagn að því að setja malbik á Vesturlandsveginn, og þarf ekki annað en vitna til Ártúnsbrekkunnar nú þegar, sem malbikuð var í sumar eða haust, enda malbikið miklu, miklu erfiðara og kostnaðarsamara í viðhaldi, að þar er ekki neinu saman að jafna.

Það er rétt að benda á að hvort sem horfið yrði að þeirri tilraun, sem hér er lagt til að gera, eða ekki, þarf vissulega að gera vissar endurbætur á Vesturlandsveginum. Þar á ég við að ná vatninu af veginum,fá á hann réttan halla, en það er vitanlega forsenda þess, að hægt sé að halda honum við, og forsenda þess, að nokkuð þýði að fara út í þá tilraun, sem hér er rætt um. Ég viðurkenni og, að tveir staðir á þessari vegalengd eru þannig, að kannske má lítils vænta af því, þó að lagt verði olíumalarslitlag á veginn þar. Það eru mýrarsundin fyrir ofan Ártúnshöfða og meðfram Hamrahlíðinni hjá Lágafelli í Mosfellssveit. Það má vel vera, að þarna sé um svo gljúpan jarðveg að ræða, að ekki verði neitt gagn að því að gera þessa tilraun, og það kemur þá í ljós. Svíar endurbyggja ekki sína malarvegi undir olíumalarslitlagið, heldur setja það á sína troðnu vegi. Síðan kemur í ljós, að á stöku stað eru kannske dý eða gljúpir kaflar, og þá eru þeir teknir til endurbyggingar, þegar slíkt kemur í ljós. En eins og ég hef vikið að, er hér fyrst og fremst um að ræða tilraun til þess að bæta úr því vandræðaástandi, sem er á þessum fjölfarnasta vegarkafla, meðan á endurbyggingu vegarins stendur. Mér er það fullljóst, að þetta er engin framtíðarlausn í sambandi við þessa miklu umferðaræð.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri á þessu stigi. Ég legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til hv. fjvn.