26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í D-deild Alþingistíðinda. (2576)

27. mál, Vesturlandsvegur

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. spyr, hvað ríkisstj. hugsi sér að gera í sambandi við lántöku til Vesturlandavegar. Því er til að svara, að ekki var byrjað á þessu verki á þessu ári. Undirbúningur að verkinu var ekki kominn það langt, eins og vegamálastjóri hefur upplýst og kemur fram í bréfi vegamálastjóra til mín, dags. í gær. Vegamálastjóri segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Með vísun til fsp. Jóns Skaftasonar alþm. til samgmrh. á Alþ. um undirbúning að lagningu Vesturlandsvegar frá Elliðaám í Hvalfjarðarbotn og notkun lánsheimilda í vegáætlun í því sambandi skal eftirfarandi tekið fram, að því er varðar undirbúning verksins:

Fyrstu mælingar fyrir nýrri veglínu fyrir Vesturlandsveg frá Elliðaám að Kollafirði voru gerðar á árinu 1964. Á því hausti var lega hins fyrirhugaða vegar samþykkt í svæðisskipulagsnefnd Reykjavíkur og nágrennis og þar með af sveitarfélögum þeim, sem hlut eiga að máli, en það eru Reykjavíkurborg og Mosfellshreppur. Sumarið 1965 voru gerðar umfangsmiklar jarðvegsathuganir á hinni fyrimhuguðu veglínu frá Elliðaám að Korpúlfsstaðaá, og þá um haustið var byrjað á vinnu við frumáætlanir að nýjum vegi a þeim kafla. Er það mjög umfangsmikið verk, og verður því væntanlega lokið um næstu áramót. Munu þá liggja fyrir kostnaðaráætlanir um þennan hluta vegarins. Þegar frumáætlanir liggja fyrir, er hægt að hefja jarðvegsvinnu við veginn, en jafnframt þarf þá að gera fullnaðarteikningar að veginum og hinum mörgu brúm og erfiðu gatnamótum, sem byggja þarf á þessum kafla vegarins. Ef fjármagn til framkvæmda verður fyrir hendi, ætti að vera unnt að hefja framkvæmdir við lagningu þessa kafla vegarins á vori komanda. Gert er ráð fyrir því, að upp úr næstu áramótum verði unnt að hefja vinnu við gerð frumáætlana að næsta kafla vegarins, þ.e. frá Korpúlfsstaðaá að Kollafirði.“

Vegamálastjóri hefur látið gera grófa áætlun um kostnað við vegagerð frá Elliðaám að Þingvallavegi, og samkv. þeirri grófu áætlun er gert ráð fyrir, að til þess þurfi 194 millj. kr. Það er því allmikið fé, sem þarf til þessara framkvæmda, þótt ekki sé strax talað um vegagerð alla leið upp í Hvalfjarðarbotn, og þær lántökuheimildir, sem eru fyrir hendi nú í vegáætlun, eru þess vegna of litlar. Ef hrinda á þessu verki í framkvæmd á stuttum tíma, þarf að gera hvort tveggja, að auka ráðstöfunarfé vegasjóðs og auka lánsheimildirnar.

Það er ekkert vafamál, að hraðbrautirnar hérna út frá Reykjavík kalla eftir framkvæmdum, ekki litlum framkvæmdum, heldur miklum framkvæmdum. Hér á hv. Alþ. kom fram í tilkynningu forsrh., að ríkisstj. hefði til athugunar fjáröflun til vegasjóðs, enda er starfandi n. einmitt í þessu máli, og það er enginn ágreiningur um það í ríkisstj., að það sé mikil þörf á að flýta framkvæmdum hraðbrauta, ekki sízt hér út frá Reykjavík.

Eins og fram kemur í bréfi vegamálastjóra, er hægt að hefjast handa á næsta ári með vinnu í Vesturlandsvegi, ef fé er fyrir hendi. Og það er til athugunar, eins og áður hefur verið á minnzt, hvað gert verður í sambandi við fjáröflun, bæði sem framlag til vegasjóðs og til lántöku.