26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (2579)

27. mál, Vesturlandsvegur

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af þeirri fsp., sem hv. 4. þm. Reykn. hefur varpað hér fram til hæstv. samgmrh.

Við erum sjálfasagt allir sammála um það þrír, ráðh. og við þm. úr Reykn., hversu mikla nauðsyn ber til, að eitthvað verði gert í vegamálum Vesturlandsvegar. Hér er um að ræða, eins og fram kom, einn fjölfarnasta þjóðveg landsins, og um hann fer mjög mikið af þungum farartækjum, sem oft og tíðum gera þennan veg mjög slæman og oft illfæran fyrir minni bifreiðar.

Samgmrh. hefur upplýst hér um gang málsins í sambandi við nýja vegalagningu, þ.e.a.s. um Mosfellssveit, og hefur m.a. bent á þann útreikning, sem gerður hefur verið, að talið er, að það séu um 194 millj. kr., sem muni kosta að gera hér nýja hraðbraut. Ég vil varpa fram þeirri hugmynd hér til ráðh., hvort ekki mundi vera ráðlegt að nota það vegarstæði, sem nú er fyrir hendi, og á það yrði lagt varanlegt slitlag. Það má vel vera, að það sé af ókunnugleika mínum, sem ég varpa þessari hugmynd fram, það séu til einhver þau rök í þessu máli, sem mæla gegn henni. Þá kemur það í ljós. En ég mundi halda, að það væri ekki úr vegi að athuga þessa hugmynd. Við sjáum t.d. nú á s.l. sumri, að á Hafnarfjarðarveginn á a.m.k. 5 km svæði hefur verið lagt nýtt slitlag, þ.e.a.s. hann er malbikaður, og hér er um að ræða nýjan veg að mínum dómi. Að aka leiðina frá Kópavogi og suður til Hafnarfjarðar í dag miðað við það, sem var í fyrra, er gerólikt. Þeir, sem hafa ekið veginn, — ég ímynda mér, að flestir þm. hafi gert það, — sjá þann reginmun, sem þar er á. Ég vil varpa þessari hugmynd hér fram, hvort þetta gæti ekki orðið til þess að flýta því, að þarna fáist betri þjóðvegur, enda þótt í framtíðinni yrði unnið að þeim hugmyndum, sem samgmrn. hefur verið með í sambandi við nýjan veg sem Vesturlandsveg.