26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í D-deild Alþingistíðinda. (2584)

203. mál, störf tveggja nefnda til að rannsaka atvinnuástand á Norðurlandi

Fyrirspyrjandi (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin. Mér þykir leitt, að ekki skyldi fást nein skýring á því, hvers vegna enginn sýnilegur árangur varð af störfum hinnar stjórnskipuðu atvinnumálanefndar frá 1964. Hjá hæstv. ráðh. kom það skýrt fram, að n. hafi rannsakað málið vandlega, en hins vegar liggur ljóst fyrir, að enga framkvæmd á Norðurlandi hefur leitt af störfum þessarar nefndar. Og það líða tvö ár, frá því að starfi þessarar n. lýkur í raun og veru með þessari bráðabirgðaskýrslu og þar til nýir sendimenn koma í heimsókn til að vinna nákvæmlega sama verkið og hin fyrri n. var búin að vinna.

Hæstv. ráðh. ræddi nokkuð um atvinnumálanefnd þá, sem skipuð var í samræmi við samninga verkalýðsfélaganna vorið 1965, en það er reyndar eina n., sem þannig hefur unnið, að Norðlendingar hafi séð einhvern árangur af störfum hennar. Þessi n. átti hins vegar aðeins að fjalla um bráðabirgðaúrræði, Hún fjallaði ekki um nein framtíðarúrræði, eins og ævinlega hefur verið reiknað með að væri brýnust þörf á. Framtíðarúrræðin dragast hins vegar á langinn ár eftir ár, meðan nýjar og nýjar n. fjalla um málið. Það er staðreynd, sem ekki verður fram hjá komizt.

Hæstv. ráðh, ræddi nokkuð um Norðurlandsáætlun svokallaða, og mig langar í framhaldi af þeim ummælum að draga saman í örstuttu máli, hver ég tel að sé kjarni þessa máls og hvert sé grundvallarskilyrði þess, að áætlunargerð eins og hér er talað um geti heppnazt. Ég vil minna á, að þessir stöðugu þjóðflutningar úr flestum byggðarlögum landsins hér inn á höfuðborgarsvæðið við Faxaflóa eru stórfellt þjóðfélagsvandamál, sem verður því erfiðara að leysa, því lengur sem dregið er að grípa til róttækra ráðstafana. Auðvitað liggur það í augum uppi, að ýmsar ástæður eru þess valdandi, að fólk sækir hingað inn á höfuðborgarvæðið. Það geta t.d. verið orsakir eins og fjölbreyttara menningar- og skemmtanalíf og stundum eru hér fleiri ættingjar og vinir, svo að nefnd séu dæmi. En hitt liggur ljóst fyrir, að það er atvinnuástandið, sem skiptir höfuðmáli. Ef ofan á allt annað bætist, að heima fyrir er atvinnuleysi, en við Faxaflóa stöðugur vinnuaflsskortur, hlýtur fólksflóttinn frá þessum byggðum að magnast um allan helming.

Nú er það auðvitað bláköld staðreynd, að í landinu er í raun og veru ekki nema eitt þróað markaðs- og iðnaðarsvæði, þ.e.a.s. Stór-Reykjavík og nágrenni. Öll önnur byggðarlög eru nánast vanþróuð í samanburði við Faxaflóasvæðið. Þar er fjölmenni og þar er allstór markaður. Þar eru öruggar samgöngur, allar helztu peningastofnanir, stjórnarvöld og margs konar þjónusta. Einmitt af þessari ástæðu eru hverju sinni yfirgnæfandi líkur til þess, að sá, senn ætlar að setja á stofn iðnfyrirtæki, reisi það á, þessu svæði. Þetta er meginregla, sem auðvitað er ekki undantekningarlaus. En einkaframtakið vill yfirleitt ekki staðsetja fyrirtæki sín úti um land, nema um sé að ræða útflutningsframleiðslu, sem byggist á hráefnisöflun frá nálægum svæðum.

Af þessu leiðir aftur á móti það, að uppbygging atvinnulífsins úti um landsbyggðina hlýtur að ganga mjög hægt og jafnvel standa í stað, ef einkaframtakið fær að ráða stefnunni í fjárfestingarmálum. Það er einmitt þetta, sem hefur verið að gerast á Norðurlandi og víðar á landinu. Atvinnuástand á þessum stöðum er fyrst og fremst afleiðing af þeirri stefnu ríkisstj. að vilja ekki stjórna fjárfestingunni, en láta í þess stað ágóðasjónarmiðið eða sögmál peninganna ráða því, hvar atvinnutækin eru staðsett. Þess vegna held ég, að það ætti að vera hverjum manni ljóst, að byggðavandamálið verður ekki leyst, nema breytt sé algerlega um stefnu í fjárfestingarmálum, ríkið viðurkenni forustuskyldu sína í atvinnumálum og taki að sér það hlutverk að leggja grundvöll að atvinnuuppbyggingu í byggðarlögum, sem að undanförnu hafa glímt við atvinnuleysi og samdrátt á flestum sviðum.

Nú þykist ríkisstj. ætla að bæta fyrir vanrækslu sína á undanförnum árum og segist ætla að láta semja heilmikið plögg, sem hún nefnir Norðurlandsáætlun. Ég spurði hæstv. ráðh. áðan að því, hvers eðlis þessi áætlun yrði, en svörin voru mjög óljós, því miður. Ég spurði einnig, hvort þessi áætlun yrði aðeins almenns eðlis eða hvort þar yrði fjallað um tiltekin verkefni og ákveðnar framkvæmdir, en það kom heldur ekki nægilega skýrt fram. Spurningin er sem sagt sú, hvort ríkisstj. ætlar með þessari Norðurlandsáætlun að breyta stefnu sinni í fjárfestingarmálum og viðurkenna frumkvæðis- og forustuhlutverk sitt eða hvort þessi Norðurlandsáætlun verður aðeins almenn hugleiðing um ástand og horfur í atvinnumálum Norðlendinga, samin í þeim tilgangi, að frambjóðendur stjórnarflokkanna geti í næstu kosningum veifað þessu töfraorði, „Norðurlandsáætlun“, framan í kjósendur og talið þeim trú um, að með þessu fína plaggi verði vandamál þeirra endanlega leyst.