26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í D-deild Alþingistíðinda. (2585)

203. mál, störf tveggja nefnda til að rannsaka atvinnuástand á Norðurlandi

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi jók ekkert við hróður sinn með þeim eftirmála, sem hann var að þylja núna í sambandi við fsp. sína. Það var aðallega það, að ríkið þyrfti að taka forustuna í sínar hendur í akvinnumálum Norðlendinga. Án þess að ég skuli nokkuð út í það fara, er það vitað, að einmitt á þeim stað, sem hann telur sig nú búsettan, þessi hv. þm. hefur það verið talin ein meinsemdin á undanförnum árum, að það opinbera hefði haft of mikil afskipti af atvinnumálum og hindrað það, að upp kæmust atvinnutæki einstaklinga. Þetta ætti hann að þekkja úr sinni eigin heimabyggð.

Ég þarf svo engu við að bæta svar hæstv. félmrh., en það var næsta eðlilegt um þá n., sem ég skipaði sem iðnmrh. eftir samþykkt Alþingis 1964, að eftir að hún hafði skilað sínu bráðabirgðaáliti, var hafin samvinna milli ríkisstj. og verkalýðssamtakanna á Norðurlandi og skipuð atvinnumálanefndin, sem nú hefur verið gerð grein fyrir, og ríkisstj. hefur síðan að sínu leyti lagt sig fram um að leggja fé til umbóta, til þess að þær bráðabirgðaráðstafanir eða skyndiráðstafanir, sem var talað um, að þessi n. hefði ákvarðanir um, gætu komið til framkvæmda. Þegar málum var svo komið og eftir að í uppsiglingu var Norðurlandsáætlunin, talaði ég um það við formann fyrstu n., sem skipuð hafði verið, að hennar hlutverki væri eðlilega lokið. Það er sannast að segja ákaflega einkennilegt, að nokkrum þm. skuli finnast einhver furða að slíkum vinnubrögðum og einhver leyndardómur yfir starfsemi manna, sem unnið hafa að því að rétta við hag ýmissa byggðarlaga á Norðurlandi að undanförnu. En ég tel, að það sé fullt samræmi, frá því að fyrst var skipuð n. hér eftir ákvörðun Alþ. af iðnmrh. og í þeim síðari ráðstöfunum, sem hæstv. félmrh. hefur greinilega gert grein fyrir.