26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í D-deild Alþingistíðinda. (2588)

204. mál, rekstrarvandamál hinna smærri báta

Fyrirspyrjandi (Ingvar Gíslason):

Herra forseti. Síðan ég lagði fram fsp. mínar um það, hvað liði störfum vélbátanefndarinnar, og það, hvort álitsgerð n. yrði birt opinberlegra og hvenær, hefur það ánægjulega gerzt. að dreift hefur verið meðal þm. fjölritaðri álitsgerð umræddrar n., og þetta vil ég þakka. Með því er í raun og veru svarað fsp. mínum. og hafi framlagning þeirra orðið til þess að hraða birtingu nefndarskýrslunnar, hafa þær þó orðið til nokkurs gagns, því að óneitanlega var ýmsa farið að lengja eftir áliti vélbátanefndarinnar, enda mikil vandkvæði um útgerð vélbáta af vissri stærð og nauðsyn á að finna raunhæfar úrbætur í málefnum þessara báta.

Ég hef lesið skýrslu vélbátanefndarinnar, og við fljótan yfirlestur sýnist mér n. benda á margt, sem athygli er vert í sambandi við hag hinna minni fiskiskipa, sem ekki eru lengur nothæf til síldveiða. En sérstaka athygli hlýtur að vekja sú niðurstaða n., að óhyggilegt sé að auka nú botnvörpuveiðar í landhelgi. Þetta er athyglisvert, vegna þess að fyllilega hefur verið gefið í skyn, að ríkisstj. hafi í hyggju að beita sér fyrir opnun landhelginnar fyrir togarana.

Ég skal ekki ræða meira um þetta mál eða fara neitt efnislega út í það, sem í skýrslunni stendur, enda er ekki vettvangur fyrir það hér í fsp.-tíma. Ég vil aðeins þakka fyrir það, að þessi skýrsla hefur verið birt opinberlega og henni dreift á meðal þm.