09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í D-deild Alþingistíðinda. (2597)

14. mál, sjónvarp

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar ríkisstj. ákvað fyrir tveimur árum að beita sér fyrir því, að komið yrði á fót íslenzku sjónvarpi, var sú ákvörðun byggð á því, að aðflutningsgjöld af innfluttum sjónvarpstækjum skyldu ganga til greiðslu á stofnkostnaði sjónvarpsins, en tekjur af árlegum afnotagjöldum og auglýsingum skyldu standa, undir kostnaði við rekstur. Ríkisstj. fór því fram á það við Alþ., að hún fengi heimild til þess að nota aðflutningsgjöld af innfluttum sjónvarpstækjum til greiðslu á stofnkostnaði íslenzks sjónvarps. Samþykkti Alþ. þetta. Síðar samþykkti ríkisstj. að nota þessa heimild frá 1. júlí 1964.

Í framhaldi af þessu samþykki ríkisstj. till. mínar um, hvernig fyrstu framkvæmdum skyldi hagað. Hef ég áður gert grein fyrir því hér á hinu háa Alþ. Ákveðið var, að fyrstu framkvæmdir væru við það miðaðar að reisa 500 watta sendistöð í Reykjavík. Síðan yrði næsta sporið að reisa 5 þús. watta sendistöð á Skálafelli, en hún mundi ná um Suðurnes, mest allt Suðurlandsundirlendið, Borgarfjörð og sunnanvert Snæfellsnes, eða til um það bil 60% þjóðarinnar, auk þess sem hún næði til endurvarpsstöðva., sem síðar yrðu byggðar í Stykkishólmi, Húnaþingi, Skagafirði og Eyjafirði. Yrði það látið fara eftir fjárhagsgetu sjónvarpsins sjálfs, hvenær Skálafellsstöðin yrði byggð og sömuleiðis hvenær byggðar yrðu endurvarpsstöðvar, er endurvörpuðu sjónvarpsefninu um landið.

Í skýrslu sjónvarpsnefndarinnar svokölluðu, sem skilaði áliti í marz 1964, var gert ráð fyrir því, að höfuðstöðvar þess kerfis, sem dreifði sjónvarpsefninu um landið, yrðu á Skálafelli, í Stykkishólmi, á Vaðlaheiði, Fjarðarheiði og Hjörleifshöfða og yrðu þær 5 þús. wött að styrk hver. Gerði n. ráð fyrir því, að þær mundu kasta um 9 millj. kr. hver eða 45 millj. kr. samtals. Auk þeirra, yrðu margar minni stöðvar, ýmist 500 wött, 100 wött eða örsmáar stöðvar, 1—10 wött. Áætlaði n., að heildarstofnkostnaður dreifikerfisins um landið yrði 180 millj. kr.

Þessar frumáætlanir sjónvarpsnefndarinnar hafa ekki enn verið endurskoðaðar, en með hliðsjón af þeirri reynslu, sem fengizt hefur af byggingu Reykjavíkurstöðvarinnar, má gera ráð fyrir því, að endurskoðun þessara áætlana leiði til mjög verulegrar hækkunar. Hinn 1. okt. s.l. var hreinn stofnkostnaður Reykjavíkurstöðvarinnar orðinn 38.4 millj. kr. Hún er ekki fullgerð enn. Er áætlað, að svo geti orðið um næstu áramót og muni hún þá kostar um 57.4 millj. kr. Þótt hún megi þá. teljast fullgerð, verður þó sjálfsagt einhver aukning nauðsynleg síðar meir. Hér er um að ræða beinan stofnkostnað, þ.e.a.s. kostnað við tæki og húsnæði, en áður en sjónvarpssendingar gætu hafizt, varð að sjálfsögðu að leggja í margs konar undirbúningkostnað, fyrst og fremst launagreiðslur, en auk þess efniskostnað. Þegar tilraunasendingar sjónvarpsins hófust 30. sept. s.l., hafði slíkur undirbúningskostnaður numið 9.9 millj. kr. Ef allur rekstrarkostnaður ársins 1966 er talinn undirbúningskostnaður, nemur hann alls 21.7 millj. kr. Sé allur þessi undirbúningskostnaður talinn til stofnkostnaðar, verður stofnkostnaður Reykjavíkurstöðvarinnar 79.1 millj. km. Hér er þess þó að geta, að ekki þarf að greiða allan þennan stofnkostnað þegar í stað eða á þessu ári. Er um gjaldfrest að ræða í sambandi við húsakaup og tækjakaup. Það, sem greiða þarf í stofnkostnað og undirbúningskastnað til ársloka þessa árs, nemur 70.2 millj. kr. Til 1. okt. s.l. námu tekjur af aðflutningsgjöldum vegna innfluttra sjónvarpstækja 57.5 millj. kr. Til áraloka eru þessar tekjur áætlaðar 15 millj. kr., þannig að í lok þessa árs verða til ráðstöfunar tekjur af aðflutningsgjöldum að upphæð 72.5 millj. kr., en greiðslur vegna stofnkostnaðar og undirbúningskostnaðar nema hins vegar 70.2 millj. kr., þannig að tekjurnar verða þá í árslok orðnar 2.3 millj. kr. meiri en nemur öllum stofn- og undirbúningskostnaði til áramóta. Auk þess má segja, að ekki sé eðlilegt, að allur rekstrarkostnaður sé talinn undirbúningskostnaður, eftir að sjónvarpssendingar séu hafnar, þótt að vísu sé um tilraunasendingar að ræða. Gera má ráð fyrir, að eitthvert afnotagjald verði ákveðið fyrir þann tíma, sem sjónvarpið starfar á þessu ári, ekki fullt afnotagjald, eins og það verður miðað við fulla starfrækslu sjónvarpsins, heldur að tiltölu við starfstíma þess. Gætu þá tekjurnar af þeim afnotagjöldum og greiðslurnar fyrir þær auglýsingar, sem birtar eru á árinu, bætzt við eða m.ö.o. gengið til endurgreiðslu á þeim rekstrarkostnaði, sem féll, eftir að sjónvarpssendingar hófust, og talinn var undirbúningskostnaður að framan.

Á næsta ári eru tekjur af aðflutningsgjöldum áætlaðar 17.5 millj. kr. Auk þess verður væntanlega einhver hluti aðflutningsgjaldatekna á þessu ári, 1966, til ráðstöfunar til þess að hefja byggingu dreifikerfisins um landið. Hefur þegar verið ákveðið að byggja stóra endurvarpsstöð í Vestmannaeyjum og endurvarpsstöðvar í Grindavík og Borgarnesi. Stöð sú, sem komið var upp í Vestmannaeyjum í sumar, nær aðeins til kaupstaðarins sjálfs. Stöð sú, sem ákveðið er að koma upp í Vestmannaeyjum, mun hins vegar einnig ná til mikils hluta Árnes- og Rangárvallasýslu, þ.e.a.s. þar sem fjöll ber ekki á milli. Talið er, að nýi Vestmannaeyjasendirinn muni ná til yfir 12 þús. manns. Kostnaðarverð hans er áætlað 2.7 millj. kr. Stöðvarnar í Borgarnesi og Grindavík eru taldar kosta 0,5 millj. kr. hvor og ná til um það bil 2000 manns. Heildarstofnkostnaður þessara þriggja endurvarpsstöðva, sem þegar hefur verið tekin ákvörðun um, er þannig 3.7 millj. kr.

Augljóst er því, að hægt á að vera að hefja byggingu Skálafellsstöðvarinnar þegar á næsta ári. Endanlegar áætlanir liggja, ekki fyrir um, hvað hún mundi kosta, en ekki mundi það verða minna en 12 millj. kr. Þessi stöð yrði hornsteinn dreifingarkerfisins, en þaðan yrði varpað til annarra endurvarpsstöðva. Auk þess mundi hún bæta móttökuskilyrði á þeim svæðum, er þegar hafa sjónvarp, og ná til ýmissa svæða í Borgarfirði og á Suðurlandi, sem Reykjavíkurstöðin og stöðvarnar þrjár, sem ég nefndi áðan, ná ekki til.

Bygging Skálafellsstöðvarinnar er forsenda þess, að unnt sé að reisa endurvarpsstöð á Vaðlaheiði. En Vaðlaheiðarstöðin mundi ná til allrar byggðar í Eyjafirði, en ekki til Siglufjarðar, eða til um það bil 14 þús. manns. Fyrir Siglufjörð yrði hins vegar að reisa litla endurvarpsstöð. Auk þess myndi stöðin á Vaðlaheiði ná til endurvarpsstöðva í Þingeyjarsýslu og Austurlandi, á Fjarðarheiði. Stofnkostnaðar Vaðlaheiðarstöðvarinnar yrði hinn sami og Skálafellsstöðvarinnar, eða ekki minni en 12 millj. kr. Hins vegar er þess að geta, að bygging bæði Skálafellsstöðvarinnar og Vaðlaheiðarstöðvarinnar mundi fjölga sjónvarpsnotendum mjög verulega. Ef gert er ráð fyrir því að í kjölfar Skálafellsstöðvarinnar kæmu kaup á 500 nýjum sjónvarpstækjum og í kjölfar Vaðlaheiðarstöðvarinnar á 1000 nýjum tækjum, yrðu aðflutningsjaldatekjur af þeirri viðbót tækja, sem beinlínis siglda í kjölfar þessara tveggja endurvarpsstöðva, um 11 millj. kr. eða upp undir helmingur stofnkostnaðar þeirra. Virðist því, að aðflutningsgjaldatekjurnar 1967 af þeirri aukningu, sem gert er ráð fyrir að verði á innflutningi tækja til Suðvesturlandsins, að frádregnum kostnaði við stöðvarnar í Vestmannaeyjum, Grindavík og Borgarnesi, og viðbótartekjurnar vegna, nýrra sjónvarpstækja á Vesturlandi og Norðurlandi nægi til þess að greiða allan stofnkostnað stöðvanna á Skálafelli og Vaðlaheiði. En þegar búið væri að byggja þessar 6 stöðvar, sem ég hef nefnt, hefði þorri landsbúa á Suðurlandi, Vesturlandi og Norðurlandi fengið þjónustu íslenzka sjónvarpsins.

Auðvitað hljóta allar áætlanir um stofnkostnað mannvirkja, sem ekki hefur þegar fengizt reynsla um byggingu á að vera mikilli óvissu undirorpnar. Sömuleiðis hljóta áætlanir um innflutning sjónvarpstækja í framtíðinni að vera óvissu háðar. Á grundvelli þess, sem ég hef nú skýrt frá, mun þó mega fullyrða, að þegar á næsta ári muni sjónvarpið ekki aðeins ná til Reykjavíkur og Suðurnesja, heldur til meginhluta Suðurlandsundirlendis. Ég tel rétt, að það verði athugað mjög gaumgæfilega nú alveg á næstunni, hvort sú lausa, sem fyrirhuguð hefur verið varðandi flutning sjónvarpsefnis frá Skálafelli til Norðurlands, sé trygg frá tæknisjónarmiði og hver verða muni stofnkostnaður Skálafellsstöðvarinnar og Vaðlaheiðarstöðvarinnar, og tel, að hægt verði mjög fljótlega, að taka ákvörðun um byggingu þeirra beggja. Það hlýtur að taka nokkurn tíma að fá afgreidd til þeirra tæki og koma þeim upp, en mér sýnist flest benda til þess, að fjárskortur þurfi ekki að standa í vegi fyrir byggingu þeirra, nema þá að stofnkostnaður reynist miklu meiri en nú er gert ráð fyrir eða innflutningur sjónvarpstækja reynist framvegis mun minni en hann hefur verið.

Ég gat þess áðan, að í upphafi hafi sá grundvöllur verið lagður að fjármálum sjónvarpsins, að aðflutningsgjöldin skyldu standa undir stofnkosti, en afnotagjöld og auglýsingatekjur undir rekstrarkostnaði. Þegar búið verður að greiða stofnkostnað aðalsjónvarpsstöðvarinnar, Reykjavíkurstöðvarinnar, og þeirra smástöðva, sem tryggja meginþorna manna á Suðurlandsundirlendinu sjónvarpsafnot, en það verður þegar á næsta ári, tel ég koma til greina að endurskoða þessa stefnu. Ég tel eftir sem áður sjálfsagt, að allar tekjur af aðflutningsgjöldum renni til byggingar dreifikerfisins um landið. En þar eð sjónvarpsnotendum fjölgar auðvitað við aukningu dreifikerfisins, tel ég, að til athugunar komi, að hinar nýju afnotagjaldatekjur, sem sigla í kjölfar stækkunar dreifikerfisins, gangi að öllu eða einhverju leyti til þess að greiða stofnkostnað dreifikerfisins. Grundvallarhugsunin gæti þá verið sú, að afnotagjaldið af tækjum á Suðvesturlandi og auglýsingatekjur stæðu fyrst um sinn undir rekstrarkostnaðinum. Ef ekki væri hægt að koma sjónvarpinu víðar, yrðu tekjurnar hvort eð er ekki meiri. Aðflutningsgjaldatekjurnar og tekjur af afnotagjöldum utan Suðvesturlands að öllu eða einhverju leyti gengju þá til þess að standa undir stofnkostnaði dreifikerfisins. Ef veruleg hækkun yrði á rekstrarkostnaðinum, gæti auðvitað svo farið, að þörf yrði á hinum nýju afnotagjaldstekjum til þess að mæta þeim kostnaði. Um þetta allt saman er erfitt að segja nema að fenginni reynslu. En mér hefur samt þótt rétt að nefna þessa hugmynd, þar eð grundvallarregla sú, sem ákveðin var í upphafi, er að sjálfsögðu ekki óumbreytanleg. Megintilganginum með henni er þegar náð eða verður náð um næstu áramót. Aðalsjónvarpsstöðin verður þá komin upp og greiðísla stofnkostnaðar hennar og undirbúningskostnaðar tryggð með tekju m af innfluttum sjónvarpstækjum. Jafnframt virðist mér allt benda til, að þess verði ekki nema stutt að bíða, að meginhluti landsmanna á Vesturlandi og Norðurlandi geti notið sjónvarps. Þess verður lengra að bíða, að það nái til Austurlands og Vestfjarða. En stefnan í þessu máli hlýtur hins vegar að vera sú, að allir landsmenn geti sem fyrst notið þjónustu íslenzks sjónvarps.