09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í D-deild Alþingistíðinda. (2600)

14. mál, sjónvarp

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég vil aðeins láta strax, áður en umr. heldur lengur áfram, koma að leiðréttingu á því eða viðbót við það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði varðandi útboðstíma Skálafellsstöðvarinnar, þannig að það yrði ekki grundvöllur að frekari misskilningi varðandi það mál í þessum umr.

Landssíminn hefur tjáð mér og staðfest það síðast í morgun, að útboðstími Skálafellsstöðvarinnar mundi vera 12 mánuðir eða geta orðið 12 mánuðir hið lengsta, þannig að það á ekki að taka nema 12 mánaða, tíma, frá því að ákvörðun er tekin og þangað til vélarnar ættu að geta verið hér á staðnum. Það á því að geta staðizt, og ég þóttist vel vita, hvað ég var að segja, þegar ég sagði áðan, að það ættu að vera möguleikar á því, bæði fjárhagslegir og tæknilegir, að koma Skálafellsstöðinni upp þegar á næsta ári. Það er alveg rétt hjá hæstv. þm., að í fjárlfrv. er ekki gert ráð fyrir byggingu Skálafellsstöðvarinnar á næsta ári. Skýringin á því er sú, að fjárlagafrv. var samið á s.l. sumri, og í sambandi við samningu þess þorði ég ekki enn að gera ráð fyrir því, að unnt væri að taka ákvörðun um byggingu stöðvarinnar svo snemma, að til framkvæmda kæmi á næsta ári, og ástæðan til þess var einfaldlega sú, að þegar fjárlagafrv. var samið á miðju þessu ári, lágu ekki fyrir þær upplýsingar um tekjur af aðflutningsgjöldum, sem fyrir liggja nú í dag.

Ég vona, að menn hafi veitt því athygli, sem ég sagði í skýrslu minni áðan, að tekjur af innflutningi sjónvarpstækja eru áætlaðar á síðustu 3 mánuðum ársins hvorki meira né minna en um 15 millj. kr., og byggist það á reynslunni í okt. s.l., en tekjurnar til 1. okt. frá byrjun nema 57 millj. kr., m.ö.o. tekjurnar á 3 mánuðum einungis nú eru meira en fjórðungur allra tekna frá byrjun. Skýringin á þessu er ofur einföld. Það hefur hlaupið mikill vöxtur, geysilegur vöxtur, næstum ótrúlegur, í innflutning sjónvarpstækja, eftir að íslenzka sjónvarpið tók til starfa. Við gátum auðvitað ekki séð þessa staðreynd fyrir á miðju sumri, þegar frv. til fjárlaga var ákveðið. En menntmrn. eða ríkisstj. mun að sjálfsögðu gera nýjar till. til fjvn. um fjármál sjónvarpsins fyrir 2. umr. með hliðsjón af þessari reynslu, og þá munum við gera ráð fyrir byggingu Skálafallsstöðvarinnar og ég held mér sé óhætt að segja væntanlega Vaðlaheiðarstöðvarinnar líka, á næsta ári. En öll þessi mál eru einmitt í sérstakri athugun í menntmrn. og hjá ríkisútvarpinu um þessar mundir, og mun þeim athugunum verða lokið, áður en fjárlögin koma til 2. umr., því að sjálfsagt er að hafa þær tölur, sem maður veit sannastar og réttastar, í fjárlagafrv. sjálfu.