09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (2617)

37. mál, lýsishersluverksmiðja

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Daginn 5. maí 1965 var samþ. hér í hv. Sþ. ályktun um lýsisherzluverksmiðju. Með þeirri ályktun fól Alþ. ríkisstj. að láta þá þegar kanna möguleika á sölu hertrar síldarfeiti á erlendum mörkuðum og gera að öðru leyti rækilegar rannsóknir á því, hvort nú sé orðið tímabært að byggja verksmiðju til herzlu síldarlýsis samkv. ákvæðum laga frá 1942. Í framhaldi af þessu var svo ályktað, að ef rannsóknirnar sýndu hagstæða útkomu, skyldi þegar kannað til hlítar, hvar verksmiðjan skyldi staðsett, og að því loknu hefja undirbúning að byggingu hennar.

Á næsta þingi, eftir að þetta var samþ., bárum við þm. úr Norðurlandskjördæmi vestra, ásamt landsk. þm., fram fsp. um málið, en við höfðum verið flm. á þinginu 1964 að þessari þátill., sem ég áður gat um.

Hæstv. sjútvmrh. svaraði fsp. okkar á þingi í fyrra, 16. des. Hann sagði þar, að rn. hefði falið Síldarverksmiðjum ríkisins athugun málsins samkv. fyrirmælum í þáltill. frá Alþ. Hann sagði einnig, að vegna annríkis hjá framkvæmdastjórum síldarverksmiðjanna hefði verksmiðjustjórnin farið þess á leit við rn., að ráðinn yrði sérstakur maður til þess að vinna að málinu fyrir verksmiðjurnar. Og þetta var gert. Til þess var ráðinn Jón Gunnarsson verkfræðingur, sem eitt sinn var framkvæmdastjóri Síldarverksmiðja ríkisins. Og nú höfum við, allir þm. Norðurlandskjördæmis vestra ásamt tveimur landsk. þm., leyft okkur að flytja fsp. til sjútvmrh. um þetta mál. Hún er á þskj. 39 og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Hvað er að frétta af rannsókn þeirri, sem samkvæmt ályktun Alþ, var hafin 1965 á því, hvort tímabært sé að byggja lýsisherzluverksmiðju hér á landi?“