09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í D-deild Alþingistíðinda. (2618)

37. mál, lýsishersluverksmiðja

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson) :

Herra forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur lesið þál. þá, sem er forsenda þeirrar fsp., sem hér er fram borin, og tel ég eðlilegt, að henni verði svarað á eftirfarandi hátt:

Vegna þál., senn fyrirspyrjandi minntist á og samþ. var hér á Alþ. 5. maí 1965, ritaði rn. Síldarverksmiðjum ríkisins hinn 25. maí 1965 bréf, þar sem rn. fól verksmiðjunum að kanna möguleika á sölu hertrar síldarfeiti á erlendum mörkuðum og gera að öðru leyti rækilegar rannsóknir á því, hvort nú sé orðið tímabært að byggja verksmiðju til herzlu síldarlýsis samkv. ákvæðum l. nr. 93 frá 1942, eins og í þál. segir. Eins og hv. fyrirspyrjandi skýrði frá í ræðu sinni hér á undan, hafa Síldarverksmiðjur ríkisins síðan haft þetta mál til athugunar, en vegna mikilla anna við dagleg störf í þágu verksmiðjanna höfðu framkvæmdastjórar Síldarverksmiðja ríkisins ekki aðstöðu til að sinna þessari athugun sem skyldi, og fór stjórn síldarverksmiðjanna þess ú. leit við rn., að það samþykkti, að ráðinn yrði sérstakur maður til þessara starfa. Samþykkti rn., að það skyldi gert.

Jón Gunnarsson verkfræðingur var síðan ráðinn til þessa starfs, og hóf hann þegar rannsóknir og skilaði nýlega ýtarlegri skýrslu um málið, en álitsgerð sína nefnir hann: Er orðið tímabært að byggja síldarlýsisherzluverksmiðju á Íslandi?“ Álitsgerð þessi var send rn. með bréfi. Síldarverksmiðja ríkisins, dags. 25. f m., og er eðlilegt, að nokkrum orðum sé um þetta álit Jóns Gunnarssonar farið, en í álitsgerð sinni telur Jón Gunnarsson tímabært, að byggð verði lýsisherzluverksmiðja hér á landi. Höfuðrök hans fyrir þeirri niðurstöðu eru fyrst og fremst þau, að hann telur afurðirnar seljanlegar og að rekstur verksmiðjunnar geti orðið hagkvæmur. Ekki byggir hann þó þessar niðurstöður sínar eingöngu á þessum rökum, heldur bendir hann einnig á að herzluverksmiðja mundi verða vísir í þá átt að skapa breiðari markaðsgrundvöll fyrir síldarlýsið en nú er og þar með tryggja öruggara og betra verð. En síldarlýsi hefur um langt skeið að langmestu leyti eða um 80% magnsins verið selt til eins aðila. Einnig bendir hann á, að með lýsisherzluverksmiðju mundu Íslendingar fá reynslu í hreinsun og herzlu síldarlýsis og með fullkominni efnarannsóknarstofu í sambandi við lýsisherzluverksmiðju gætu þeir unnið með nýjum og ætið fullkomnari vinnsluaðferðum á lýsi til að gera úr því fullkomnari og verðmætari vöru. Jón Gunnarsson bendir enn fremur á að lýsisherzluverksmiðja mundi gera útflutning á smjörlíki framkvæmanlegan. Einnig skapaðist grundvöllur fyrir iðnað úr ýmsum úrgangsefnum verksmiðjunnar.

Jón Gunnarsson verkfræðingur hefur með bréfum til stjórnar Síldarverksmiðja ríkisins, hinu fyrra dags. 10. júní og hinu síðara 28. okt. s.l., getið þess, að hann teldi, að hagkvæmast mundi vera að staðsetja verksmiðjuna í nágrenni Reykjavíkur. Til skýringar á þessari skoðun sinni bendir verkfræðingurinn á lægra raforkuverð í nágrenni Reykjavíkur, lægri farmgjöld á vörum milli verksmiðjunnar og útlanda, ef verksmiðjan væri í nágrenni Reykjavíkur, og hugsanlega hafíshættu fyrir Norður- og Austurlandi. Hann bendir einnig á að auðveldara sé að fá sérmenntaða menn til starfa í nágrenni Reykjavikur en á Norður- og Austurlandi. Einn liðurinn í starfi lýsisherzluverksmiðju yrði væntanlega sá að sjá smjörlíkisgerðum í Reykjavík fyrir ódýru hráefni til smjörlíkisgerðar fyrir innlendan markað og til útflutnings. Hið herta lýsi þyrfti því að koma óstorknað daglega til smjörlíkisgerðanna á geymum eða í tankbíl. Þetta telur hann hins vegar ókleift, ef verksmiðjan væri á Norður- eða Austurlandi, og vegna, þessara atriða telur Jón Gunnarsson hagkvæmast að staðsetja lýsisherzluverksmiðju í nágrenni Reykjavíkur.

Rétt er að taka það fram, að það, sem hér hefur verið rakið um byggingu síldarlýsisherzluverksmiðju hér á landi, er eingöngu álit Jóns Gunnarssonar verkfræðings um málið. Stjórn Síldarverksmiðja ríkisins hefur enn ekki látið uppi álit sitt um þetta mál. Rétt er og að upplýsa, að rn. hefur óskað eftir því, að Efnahagsstofnunin láti því í té álit sitt á þessari skýrslu Jóns Gunnarssonar verkfræðings. Einnig hefur rn. óskað álits stofnunarinnar, sem vinnur nú að framkvæmdaáætlun hinna ýmsu landshluta, um það atriði, hvort hún telji, að bygging slíkrar verksmiðju sé tímabær, svo og um staðsetningu hennar.

Ég vona, að þessar upplýsingar nægi hv. fyrirspyrjendum sem svar við fsp.