09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (2620)

37. mál, lýsishersluverksmiðja

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég vildi beina þeirri fsp. til hæstv. sjútvmrh., hvaða stærð Jón Gunnarsson hefur reiknað með, þegar hann talar um lýsisherzluverksmiðju. Og mér finnst dálítið undarlegt, að hann skuli tala um, að hún skuli vera staðsett í Reykjavík með tilliti til þess, að það eigi að láta smjörlíkisverksmiðjurnar fá hert lýsi. Ég veit ekki betur en hér hafi verið komið upp lítilli lýsisherzluverksmiðju fyrir smjörlíkisverksmiðjurnar í Reykjavík fyrir allmörgum árum. Það er vitanlegt og hefur verið upplýst hér á Alþ. áður, að það var búið að kaupa helztu vélar til lýsisherzluverksmiðju, stórrar lýsisherzluverksmiðju, og það varð að selja þær vélar, vegna þess að tök brezka hringsins Unilever eru svo sterk á þessum markaði, að menn treystu sér ekki til að koma upp lýsisherzluverksmiðju til þess að keppa við hann. Og mér finnst það fullmikil feimni hjá hæstv. ráðh. að nefna það ekki hérna áðan, þegar hann er að tala um, að 80% af sölunni fari fram til eins aðila, að það sé til Unilever-hringsins eða deilda hans. Hvað á þessi feimni að þýða? Menn eru að rövla hér öðru hverju, að það sé til hér einhver frjáls samkeppni, en kinoka sér við að viðurkenna þá staðreynd, að þorrinn af þessum vörum er þannig einokaður af einokunarhringum, að það er vart hægt að komast fram hjá þeim.

Ef við hugsum til lýsisherzluverksmiðju, er það fyrst og fremst með útflutning fyrir augum, en það á ekki að láta sér detta í hug að miða við þann smámarkað, sem nokkrar smjörlíkisverksmiðjur á Íslandi eru, sem voru að vísu að koma sér upp smálýsisherzluverksmiðju, náttúrlega alveg ópraktískri og allt of lítilli, meðfram til þess að það væri hægt að eyðileggja það, — þetta gerðist í kringum 1950, — að það væri hægt að tala um stærri verksmiðju og taka upp einhverja baráttu við Unilever.

Ég tek undir þá ósk, að við þm. fáum þessa skýrslu í hendur, því að það væru hrein skrípalæti að láta sér detta í hug að ætla að fara að byggja á innlendum markaði hvað þetta snertir. Við erum með stærri framleiðendum á síldarlýsi í heiminum, og við ættum, ef við á annað borð ætlum að gera eitthvað í þessum málum, að taka upp þessa baráttu á meginlandi Evrópu. Ég veit einmitt, að það hefur um langan tíma verið þannig, eins og kunnugt er, að Unilever á allar herzluverksmiðjur í öllum kapítalískum löndum Evrópu. Og ég veit, að um langan tíma hefur það verið svo t.d., að Finnland hefur ekki átt lýsisherzluverksmiðju, hefur orðið að flytja álit sitt herta lýsi inn. Finnland er eitt af þeim löndum, þar sem gæti verið markaður fyrir okkur þannig.

Þetta eru atriði, sem við þurfum að fá lögð fyrir okkur. Þetta hefur áður verið rætt hér allmikið og mætti ræðast miklu nánar. En það er eitt, sem mér finnst, áður en við förum að tala alvarlega um þessa hluti, að við þurfum að fá tryggingu fyrir, og það er, að ef það er komið upp lýsisherzluverksmiðju hér á, Íslandi, sem ég tel alveg sjálfsagt, að sé annaðhvort á Siglufirði eða Austfjörðum eða einhverjum þeim stað, þar sem síldarlýsi er framleitt, verður að fá tryggingu fyrir því, að eftir að Alþ. hefur ákveðið að byggja slíka lýsisherzluverksmiðju, sé hún ekki seld Unilever, það endurtaki sig ekki það, sem gerðist með kísilgúrverksmiðjuna, að fyrst er lagt fyrir þingið frv. og samþ. lög um, að ríkið skuli koma upp verksmiðju, m.a. til þess að keppa með þessa vöru, síðan á næsta þingi á eftir er komið og sagt: Ætlum við að láta okkur detta í hug að fara að keppa þarna? Við getum fengið ágætan samning við einn einokunarhring, og við skulum láta þennan einokunarhring fá þetta. Ég vil, að það sé gengið alveg hreint fram í þessum efnum.

Afstöðu Jóns Gunnarssonar í þessu skal ég ekkert segja um, en hins vegar vitum við, að þau tök, sem Unilever hefur haft á Íslandi, hafa verið þau, að þegar samningar hafa farið fram við Breta, verzlunarsamningar, bæði á stríðsárunum og annars, hafði það enga smáræðisþýðingu, hve sterk þau tök voru. Enda var það Unilever, sem hefur ákveðið og ákveður enn að mestu leyti verðið á síldarlýsinu og fellir það, þegar honum þóknast. Síðan er sagt við okkur hér heima, að það séu að verða verðbreytingar á erlendum markaði, rétt eins og það væri með einhverjum öðrum sveiflum en þeim, að einn einokunarhringur ákveði, að nú skuli verðið fellt á ákveðnum mörkuðum. Það er rétt, að menn horfist í augu við, hvað menn eru að glíma við í þessum efnum, og það sé ekki farið á neinn hátt á bak við Alþ. í því, sem gert er í þessu. Það hefur verið gert áður í þessu sambandi, og ég ætla ekki að endurtaka það.