09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í D-deild Alþingistíðinda. (2628)

47. mál, úthlutun úr byggingarsjóði ríkisins

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. þau svör, sem hann gaf við fsp. minni, svo langt sem þau náðu. Það kom fram í svari hans, að úthlutun úr byggingarsjóði væri nú hafin. Það eru vissulega gleðileg tíðindi, sem ég hygg að flestum hér inni a.m.k. komi á óvart, því að í samtali, sem ég átti við einn meðlim húsnæðismálastjórnar rétt fyrir hádegið í dag. sagði hann, að ekki væri farið að starfa að þeim málefnum þá. Má vera, að það hafi verið gert síðan. (Gripið fram í.) Byrjaði fundur kl. 12 í dag, er nú upplýst af einum meðlim húsnæðismálastjórnar: Vissulega ber að þakka svo fljót viðbrögð af hálfu stjórnarinnar:

Sú úthlutun, sem hæstv. ráðh. upplýsti nú að sé hafin, er úthlutun á því fjármagni, sem þegar er fyrir hendi í sjóðnum, og satt að segja vekur það furðu mína, að húsnæðismálastjórn og þeir, sem þar ráða ríkjum, skuli ekki hafa viljað fallast á þá till., sem fyrir 3 vikum var borin þar fram um að hefja úthlutun a.m.k. til þeirra, sem áttu að fá viðbótarlán, þá þegar. Satt að segja hefði maður haldið, að þeir hefðu með því getað slegið tvær flugur í einu höggi: Auðveldað sjálfum sér starfið, veðdeildinni úrvinnslu gagna og að sjálfsögðu og fyrst og fremst auðveldað húsbyggjendum sína baráttu.

Það kom fram af svari hæstv. ráðh., að það mundi vanta 50—60 millj., til þess að byggingarsjóður gæti staðið skil á öllum þeim lánum, sem skv. reglum hans ættu að falla til á árinu. Hins vegar voru svörin um það, hvað fatti að gera í því máli, mjög óljós og nánast engin, ef undan er skilið það, að þetta mál yrði athugað síðar. En ég vil leyfa mér að benda á það, að í þeirri skýrslu, sem hæstv. ráðh. las hér upp, er miðað við lánshæfar umsóknir, sem borizt höfðu hinn 1. okt. s.l. Vitað er, að síðan hafa húsnæðismálastjórn borizt fjölmörg vottorð um íbúðir, sem hafa orðið fokheldar frá því 1. okt. og fram á þennan dag, og það væri fróðlegt, — og ég er viss um að margur fylgist með því af athygli, — að heyra svörin við því, hvað eigi að gera við þær umsóknir, sem svona stendur á um. Það er ekki nægilegt að segja, að þessi vottorð hafi borizt of seint, vegna þess að þegar úthlutun dregst, er í fyrsta lagi eðlilegt, að menn sendi inn umsóknir og vottorð, eftir því sem þau falla til, og í öðru lagi og það, sem kannske veldur úrslitum, er það, að mér vitanlega hefur þessi tiltekni frestum til að skila vottorðunum aldrei verið auglýstur, og er ekki að vita, nema margur hefði getað rekið byggingarnar með meiri hraða, ef hann herði átt von á því að verða settur til hliðar, miðað við það að skila vottorðunum síðar en 1. okt.

Aðalatriðið í þessu máli er þó það, að úthlutunin er hafin. Um það, hvort hún fari of seint fram eða seinna fram nú en endranær, er ástæðulaust að deila. En ég vil þó halda því fram og segja það sem mína skoðun, að það sé of seint að byrja á síðari hluta úthlutunar fyrir árið 1966, þegar miður nóvember er kominn, hvað þá ef það hefði dregizt lengur, sem allar líkur bentu til, þegar ég flutti mál mitt hér áðan, vegna þess að mér var ekki kunnugt um þann fund, sem skotið var á í húsnæðismálastjórn kl. 12 á hádegi í dag.