23.11.1966
Sameinað þing: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í D-deild Alþingistíðinda. (2633)

61. mál, lóðaúthlutun Þingvallanefndar

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Eins og kom fram í ræðu hv. fyrirspyrjanda, eru sérreglur, sem gilda um stjórn málefna Þingvalla, hún er að mestu, má segja, ef ekki öllu, tekin undan ríkisstj. og fengin í hendur sérstakri þar til kjörinni n. af hinu háa. Alþingi.

Engu að síður má segja, eð málið heyri formlega undir forsrh. og þess vegna hafi verið rétt að beina fsp. til hans, svo sem gert hefur verið. En forsrh. hefur ekki haft nein afskipti af meðferð þessa máls. Það er hins vegar vitað, að allt frá upphafi, má segja, hefur töluverðu af lóðum verið úthlutað, fyrst innan sjálfs þjóðgarðsins og síðan utan, í söndum Kárastaða og Gjábakka. Að minni vitund hefur engin lóðaúthlutun átt sér stað í sjálfum þjóðgarðinum nú mjög lengi, enda tel ég það ákaflega misráðið, ef svo hefði verið gert.

Hitt er hannað mál, að um hins friðaða svæðis hefur verið úthlutað lóðum, og mætti margt um það segja. Spurning væri, hvort ástæða væri til og þá hvort það væri ef til vill of seint að friða, a.m.k. alla strandlengjuna við Þingvallavatn, þannig að menn gætu komizt frjálsir ferða sinna með allri strandlengjunni. Hitt er með öllu óframkvæmanlegt, að ætla að friða alla Þingvallasveit, Grafning og ofanvert Grímsnes, — ég hef ekki trú á því. Hitt væri miklu nær og væri ekki alveg út í bláinn að banna, alla byggð með strandlengjunni. En það er kannske orðið of seint, og segja má, að hinar fyrstu Þingvallanefndir hafi gert slíkar bollaleggingar að engu með því að láta sumarbústaðalönd með strandlengjunni frá Valhöll, þar sem hún stendur nú, og út í Kárastaðaland, út í Rauðukusunes. Þetta eru almennar bollaleggingar, en ég geri ráð fyrir því, að allir séu sammála um, að þarna þurfi varlega að fera í lóðaúthlutunum, sem og gert hefur verið í mörg ár, á hinu friðlýsta svæði.

Ég óskaði upplýsinga frá Þingvallanefnd út af þeirri fsp., sem fram var borin, og þetta er það svar, sem mér hefur þaðan borizt:

Við fyrstu spurningunni: „Hve mörgum lóðum undir sumarbústaði hefur Þingvallanefnd úthlutað í landi jarðanna, Kárastaða og Gjábakka í Þingvallasveit?“ Svar við þessu er: Núverandi Þingvallanefnd hefur, frá því að hún fyrst var kosin á Alþingi fyrir 9 árum, veitt alls 16 umsækjendum kost á lóðum undir sumarbústaði í landi Kárastaða ofan gjár og 29 umsækjendum á mjög dreifðu svæði í heiðinni austan og vestan Gjábakkabýlisins nú nýlega. Bæði þessi býli eru og verða skipulögð og útmæld, og mun m.a. náttúruverndarráði gefinn kostur á að fylgjast með ráðstöfun landsins undir sumarhúsabyggingar, en þess hefur verið óskað.

Önnur spurningin: „Hvaða reglum hefur Þingvallanefnd fylgt við ráðstöfun lóða þessara?“ Svarið: Þingvallanefnd hefur aldrei auglýst eftir umsóknum um sumarbústaðalóðir, en hefur fylgt þeirri reglu að afgreiða umsóknir, sem borizt hafa, eftir tímaröð, hafi beiðni þess efnis komið heim við skipulagt úthlutunarsvæði, utan þjóðgarðsins einvörðungu.

Þriðja spurningin: ,,Með hvaða skilmálum eru lóðirnar af hendi látnar?“ :Svar: Helztu skilmálar eru nú: a) Leigugjald 2000 kr., veiðileyfi í Þingvallavatni ekki innifalið. b) 30 ára leiga skv. sérstökum leigusamningi. Endurskoðun á leigugjaldi á 6 ára fresti. c) 10 þús. kr. í eitt skipti vegna tæknilegs undirbúnings heildarskipulagsins. d) Byggingarframkvæmdir hafnar innan tveggja ára. e) Hús og byggingar eru háð samþykki Þingvallanefndar og fullkomnu eftirliti Skipulags ríkisins og húsameistara. Samræming á þessum leiguákvæðum við fyrri leigusamninga eldri lóðarleiguhafa er nú í endurskoðun.

Fjórða spurning: „Hverjir hafa fengið umræddar lóðir?“ Um það er til skrá, þ.e. þessar lóðir, sem úthlutað hefur verið á s.l. 9 árum. Sú skrá fylgir hér með, en ég sé ekki ástæðu til að fara að lesa, hana upp. Hv. þm. er velkomið að fá að lesa hana hjá mér, en ég sé ekki, að hún eigi út af fyrir síg erindi til almennings. Hins vegar er hún ekkert leyniplagg heldur. Ef menn óska eftir því, að það sé lesið, skal ég gera það, en ég sé ekki ástæðu til þess, ef hv. þm. telja það fullnægjandi að lita á þetta plagg.

Fimmta spurning: „Hver er tilgangur Þingvallanefndar með lóðaúthlutun þessari?“ Svar: Meðal annars: a) afla tekna til nauðsynlegs viðhalds og endurbóta í þjóðgarði og á ríkiseignum þar og létta, með því undir fjárveitingu Alþingis. b) Verða við óskum þeirra umsækjenda um lóðirnar, sem hafa viljað gangast undir skilyrði nefndarinnar, en þau eru strangari en almennt gerist um slík lönd og jafnvel án fordæmis.

Sjötta spurning: „Hefur Þingvallanefnd í hyggju að halda áfram úthlutun lóða á Þingvallasvæðinu?“ Svar við þessu er: Þingvallanefnd mun halda áfram úthlutun lóða, eftir því sem fyrrnefnd landssvæði verða skipulögð, enda verður strangt eftirlit haft með byggingum öllum og skipulagsákvæðum fylgt í hvívetna.

Þetta eru þau svör, sem mér hafa borizt.