23.11.1966
Sameinað þing: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í D-deild Alþingistíðinda. (2634)

61. mál, lóðaúthlutun Þingvallanefndar

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir svörin við fsp. minni. Það er ef til vill ástæða til að ræða þetta mál nokkru frekar, þó að tími sé nú ekki mikill til þess í þessum fyrirspurnatíma„ og ég mun að mestu láta það vera, en svörin gefa þó ákveðið tilefni til þess, að um viss atriði ré rætt frekar.

M.a. veitti ég því athygli, að varðandi þessar lóðir, sem úthlutað hefur verið, alls 45 í tíð núverandi Þingvallanefndar, þar af 29 nú alveg nýlega, hefur aldrei verið auglýst, að menn gætu átt kost á lóðum á þessu svæði. Nú gerir Þingvallanefnd ráð fyrir því að halda, lóðaúthlutun áfram, og þá vitanlega vaknar sú spurning: Á að hafa sama háttinn á og áður í þessu efni eða á að veita mönnum einhvern jafnari rétt, ef rétt þykir og eðlilegt að halda áfram þeirri stefnu að úthluta lóðum, a.m.k. í allra næsta nágrenni við hið friðaða svæði Þingvalla?

Hæstv. ráðh. sagði í sínum hugleiðingum eða aths. í upphafi síns máls, að vitanlega kæmi það ekki til mála að friða alla Þingvallasveit og leyfa þar enga byggð, og ég tek algarlega undir það. Ég býst ekki við, að neinum manni hafi dottið það í hug. En það er hið næsta nágrenni við þjóðgarðinn og það er þó sérstaklega strandlengjan, eins og hann nefndi, meðfram Þingvallavatni, sem sérstök ástæða er til að gefa gaum að.

Ég hef ekki á neinn hátt látið í það skína, að Þingvallanefnd hafi ekki haft lagaheimild til þeirra framkvæmda, sem hún hefur leyft. en ég vildi gjarnan fá upplýsingar um málsmeðferðina, og að lokum vil ég leggja áherzlu á það, að ég tel, að Þingvallanefnd eigi að fara mjög varlega í að úthluta lóðum í næsta nágrenni Þingvalla, og það er alveg ljóst, að löggjafinn á sínum tíma ætlaðist beinlínis til þess, að þar væri mjög varlega farið.

Ég vil aðeins í því sambandi minna á þau ummæli flm. frv. á sínum tíma um friðun Þingvalla, Jónasar Jónssonar, þar sem hann varar við því, að ef ekkert verði að gert, sé hætt við, að bæði útlit og útsýni Þingvalla spillist. „Við lítum,“ segir hann, „á Þingvöll sem dýrgrip, sem þjóðin á öll, og þennan dýrgrip á að vernda.“ Og hann segir: „Þetta friðlýsta svæði er ekki stærra en svo, að utan við það gæti risið eins konar Grímsstaðaholt í skjóli skipulagsleysis og stundarhagnaðar einstakra listsnauðra manna.“ Það er einmitt þetta eða annað slíkt, sem löggjöfin átti að koma í veg fyrir, og það er Þingvallanefnd, sem hefur þessi mál í sínum höndum og á að hafa varðstöðu um þetta. Ég vil þess vegna ljúka þessum fáu orðum með því að mega vænta þess, að virðulegir trúnaðarmenn Alþ., þeir, sem skipa Þingvallanefnd nú og á komandi tímum, gleymi því aldrei, að þeim er á hendur falin varðveizla staðar, þar sem fáir útvaldir eiga ekki að hafa nein sérréttindi, heldur eru Þingvellir og eiga að vera helgistaður allra Íslendinga.