23.11.1966
Sameinað þing: 11. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (2637)

61. mál, lóðaúthlutun Þingvallanefndar

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mig langar að leggja hér örfá orð í belg, fyrst og fremst til að taka undir ummæli hæstv. forsrh. um það, að þetta þing ætti að taka til athugunar, hvort ekki væri tímabært að endurskoða ákveðin um friðun Þingvalla og stækka friðunarsvæðið og jafnframt að bæta framkvæmd á þeirri friðun, sem hefur verið í framkvæmd á Þingvöllum. Þetta var þó ekki aðalástæða þess, að ég kvaddi mér hljóðs, heldur til þess að vekja athygli á því til viðbótar þessu og í beinu framhaldi af þeirri hugsun, sem kom fram hjá hæstv. forsrh., að mér finnst líka ástæða til þess að athuga, hvers eðlis sú friðun er eða á að vera, sem gildandi lög kveða á um. Og þetta segi ég að gefnu tilefni, vegna þess að í mínu rn., menntmrn., er fjallað um náttúruvernd og nýlega hafa verið sett ný lög um náttúruvernd. En það hefur komið í ljós, að óljóst er enn, bæði samkv. lögum um friðun Þingvalla og samkv. náttúruverndarlögunum, hvort gildandi lagaákvæði leyfa eða banna tiltekna ræktun, tiltekna nýrækt á Þingvöllum, og á ég þá sérstaklega við gróðursetningu trjágróðurs. Um þetta mál eru skiptar skoðanir. Ég er þeirrar skoðunar og veit þó ekki, hvort ég hef lagabókstaf til stuðnings þeirri skoðun, en ég er persónulega þeirrar skoðunar, að ekki ætti að koma til mála nýrækt trjágróðurs á Þingvöllum, sem þar er ekki í eðlilegu umhverfi og á sér þar ekki eðlilega náttúrustoð. En mér er ljóst, að um þetta mál eru skiptar skoðanir, og ég þori ekki að kveða á um gildi lagabókstafs í þessu efni. En þetta tel ég sjálfsagt, að komi þá til athugunar, ef hv. Alþ. vill taka friðunarmál Þingvalla til endurskoðunar, eins og ég tek eindregið undir, að gera ætti.