30.11.1966
Sameinað þing: 12. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í D-deild Alþingistíðinda. (2647)

206. mál, rafmagn fyrir Fornahvamm

Fyrirspyrjandi (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á þskj. 68 hef ég leyft mér eð gera svo hljóðandi fsp. til hæstv. samgmrh.:

„Hefur nokkuð verið gert af hálfu samgmrh. til að tryggja það, að Fornihvammur fái rafmagn frá héraðsrafmagnsveitum ríkisins, eða er það í ráði, að það verði gert?“

Ástæðan til þess, að þessi fsp. er fram borin, er sú, að nú er nýlokið við að leggja rafmagn í Norðurárdal, en án þess að rafmagn sé lagt að Fornahvammi. Ég hafði áður rætt það við vegamálastjóra, að þegar raflína yrði lögð í Norðurárdal, þá yrði athugað af hálfu vegamálasstjórnarinnar, að Fornihvammur fengi rafmagn frá héraðsrafmagnsveitum jafnhliða Norðurárdalnum. Eins og þeim málum er nú fyrir komið í Fornahvammi, eru þar dísilrafssöðvar. Samningar munu vera þar um á milli ábúandans þar og vegamálastjórnarinnar, að ábúandinn annist viðhald þessara rafstöðva, en vegagerðin stofnkostnað. Viðhald þessara rafstöðva heldur orðið mjög dýrt og það svo, að það getur orkað tvímælis, hvort núverandi hótelstjóri þar heldur áfram rekstri sínum, einmitt vegna þessa atriðis.

Það er nauðsynlegra og kunnara en frá þurfi að segja, að hótel þarf og verður að vera í Fornahvammi. Umferðin um Holtavörðuheiði á veturna er svo áhættusöm, að það er vonlaust að halda henni áfram í raun og veru, nema hótelrekstur verði í Fornahvammi. Hótelrekstur nú er ekki það arðvæn atvinnugrein, að mjög sé í það sótt, enda er það svo í Borgarfjarðarhéraði, að þar eru rekin hótel á vegum ríkisins þann tíma ársins, sem bezt er að reka hótel, og þau hótel, sem starfa allt árið, varða við þau að keppa og sitja svo við skarðan hlut í sínum rekstri. Mér er ljóst, að það er ekki hægt að leysa rafmagnsmál Fornahvamms á annan veg eða tengja hann við rafmagnsveitur ríkisins nema með sérstökum samningum. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar, að það ætti að gera, og þess vegna hef ég spurt um það, hvort það hefði verið gert eða að því sé stefnt.