02.02.1967
Sameinað þing: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í D-deild Alþingistíðinda. (2662)

89. mál, bygging verkamannabústaða

Fyrirspyrjandi (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þær upplýsingar, sem hann veitti. Að vísu var meginmál hans um löngu liðið tímabil, sem fsp. fjölluðu ekki um, en það er ekkert á móti því að rifja upp nokkra forsögu, þegar miklar eyður eru í varðandi það efni, sem aðallega var spurt um. Það er rétt, að stundum hafa fjárveitingar úr sjóðnum orðið að dragast nokkuð saman og síðan að taka fyrir tveggja ára tímabil, það er ekki óþekkt fyrirbæri í sögu sjóðsins, en hann hefur þó árlegar tekjur, og ákveðin lagafyrirmæli eru um mótframlög af hendi bæjarfélaganna og þannig alltaf nokkur stofn fyrir hendi til þess að halda uppi jafnri starfsemi frá ári til árs. Og það hygg ég, eins og ástatt er í húsnæðismálum, að sé nú farsællegast, að láta starfsemi sjóðsins með því fjármagni, sem hann hefur til umráða, fara sem jafnast fram.

Það kom sem sagt fram í svari hæstv. ráðh., að á árinu 1966 voru ekki ný lánsloforð veitt úr sjóðnum, starfsemi hans lá því niðri að öðru leyti en því, að menn voru að ljúka framkvæmdum, sem hafnar höfðu verið á árinu 1965. Ég harma það, hversu dauft var yfir þessari starfsemi byggingarsjóðs verkamanna á árinu 1966, og tel, að hæstv. ríkisstj. hefði þurft að sjá sjóðnum fyrir aukafjármagni til þess að geta haldið uppi áframhaldandi starfsemi á því ári. Mér er kunnugt um það, að víða í kauptúnum landsins og bæjum alli það miklum vonbrigðum, að engin lánsloforð fengust veitt á árinu 1966.

Þá harma ég það, að ég fékk í raun og veru ekkert svar við þriðja lið fsp., um starfsgetu sjóðsins og framkvæmdamöguleika á yfirstandandi ári, 1967. Það bíður þess, að lokið sé framkvæmdaáætlun, sagði hæstv. ráðh., og henni er ekki lokið enn og þannig ekkert hægt um það að segja, nema það, að ríkisstj. mun gera allt, sem unnt er, til þess að starfsemi sjóðsins geti orðið sem mest. Þrátt fyrir þessi góðu og fallegu orð liggur allt á lausu um það, hver starfsemi sjóðsins verði á árinu 1967 eftir i raun og veru litlar eða engar framkvæmdir á árinu á undan. Þetta þykir mér mjög miður og verð þó að treysta á að orð hæstv. ráðh. vegi meira en jafnvel felst í fyrirheiti hinna óljósu orða um, að allt verði gert sem unnt sé. Ég vil sem sé vænta þess, að árið 1967 verði mikið framkvæmdaár hjá byggingarsjóði verkamanna, eins og ætla verður, þegar litið er á það, að litlar framkvæmdir voru á árinu þar á undan.