02.02.1967
Sameinað þing: 21. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í D-deild Alþingistíðinda. (2663)

89. mál, bygging verkamannabústaða

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Í framhaldi af því, að hv. fyrirspyrjandi harmar það, að ekki skyldu hafa verið nýjar heildarlánveitingar á árinu 1966, mun það m.a. mega rekja til þess, að langstærsta lánveiting í sögu sjóðsins fór fram undir árslok 1965 og þar var áreiðanlega reiknað með öllum þeim tekjum, sem til féllu síðari hluta þess árs og eins á árinu, sem var að liða, þannig að tekjumöguleikum ársins 1966 var ráðstafað í árslok 1965. Ég skal fúslega taka undir það með hv. fyrirspyrjanda og veit, að hann mælir það af heilum hug, að hann óskar þess, að árið 1967 megi verða stóraukið framkvæmdaár á vegum sjóðsins í auknum lánsfyrirheitum, sem að sjálfsögðu verði við staðið, og ég tek með ánægju undir þessar óskir hans, því að sannarlega á hér það fólk hlut að máli, sem mesta þörf hefur á því, að því sé rétt hönd í þessari félagslegu aðstoð.