08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (2678)

208. mál, jafnrétti Íslendinga í samskiptum við Bandaríkin

Ég þykist vita, að ýmsar aðrar þjóðir í Evrópu hafi þennan hátt á að þær hleypi Bandaríkjamönnum inn, án þess að þeir þurfi áritun, jafnvel þó að þær þurfi, eins og við, áritun fyrir sína borgara til Bandaríkjanna. En hvað sem aðrar þjóðir kunna að gera í þessum efnum, álít ég, að við eigum ekki að sætta okkur við þetta. Ég álít, að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að sýna það í verki, að um leið og við sköpuðum okkar lýðveldi, ætluðum við okkur ekki lengur að vera nýlenda, sem hefði ekki slíka samninga við aðrar þjóðir, að við værum þeim jafnréttháir. Þess vegna álít ég, að ríkisstj. ætti að taka það til alvarlegrar athugunar, hvort hún vill ekki breyta þarna um, láta Bandaríkjamenn þurfa að fá áritun hingað til Íslands, svo lengi sem slík lög eru í Bandaríkjunum, að við Íslendingar verðum að gangast undir í fyrsta lagi alls konar yfirheyrslur hér og þar að auki að vera á eftir neitað um slíkar áritanir. Við vitum, að t.d. nýlega hefur komið fólk hingað frá Bandaríkjunum, sem hefur ekki verið neinir ánægjulegir gestir. Hingað kemur fólk og gefur hér út ávísanir, meira að segja í dollurum, í búðum hér, sem sýnir e.t.v., hvað Íslendingar eru enn þá annaðhvort saklausir sveitamenn, eða þá hvað virðingin fyrir dollaramerkinu er orðin afskaplega mikil, að menn skuli taka ávísanir á hina og þessa banka í Bandaríkjunum gildar, ef á þeim er merki með dollurum Hins vegar vitum við, að 10% af öllum fyrirtækjum í Bandaríkjunum eru rekin af glæpamönnum, ég meina ekki stríðsglæpamönnum, heldur venju legum glæpamönnum, þjófum, innbrotsþjófum, morðingjum o.þ.h., þannig að sú stétt manna er sérstaklega fjölmenn í Bandaríkjunum og sérstaklega voldug þar. Og það er engin sérstök ástæða til þess, að allir slíkir menn hafi almennt leyfi til að koma hingað til Íslands án áritunar og byrja á verkum sínum hér, ef þeim fyndist her einhver grundvöllur fyrir sig. Ég held þess vegna, að það sé fyllilega ástæða til þess, að við segjum við Bandaríkin:

Svo lengi sem svona lög eru í gildi, sem veita ekki Íslendingum jafnan rétt á við Bandaríkjamenn, þurfa Bandsríkjamenn áritun hingað til Íslands. — Ég vonast til þess, að hæstv. ríkisstj., sem ég veit að er oft angruð út af þessu, — það hefur komið fyrir ríkisstjórnir, að þær hafa sent diplómatíska fulltrúa til Bandaríkjanna, sem hafa ekki einu sinni fengið að koma út fyrir ákveðnar götur í New York, — ég þykist vita, að hæstv. ríkisstj. hafi hugsað nokkuð um þetta mál, og þess vegna lagði ég fram fsp. um, hvað henni fyndist rétt að gera í þessum efnum.