08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (2679)

208. mál, jafnrétti Íslendinga í samskiptum við Bandaríkin

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Spurt er: „Álítur ríkisstj. það eðlilegt, að Bandaríkjamenn þurfi ekki áritun á vegabréf til Íslands, þegar Íslendingar þurfa áritun til Bandaríkjanna og er jafnvel neitað um áritun?“ Og í öðru lagi: „Hefur ríkisstj. hugsað sér að gera ráðstafanir til að tryggja jafnrétti Íslendinga við Bandaríkjamenn í þessum efnum og þá hverjar?“

Út af þessu vil ég segja eftirfarandi:

Á árunum eftir síðustu heimsstyrjöld voru bandarískir ferðamenn einhliða undanþegnir vegabréfsáritun til flestra Vestur-Evrópuríkja, án þess að þau ríki fengju tilsvarandi réttindi í staðinn í sambandi við ferðir til Bandaríkjanna. Þannig afnámu Danmörk, Noregur og Svíþjóð á árinu 1947 og Finnland á árinu 1958 skyldu bandarískra ferðamanna til vegabréfsáritunar vegna ferða til þessara landa, miðað við allt að 3 mánaða dvöl hverju sinni, Var þetta gert m.a. til þess að auka ferðamannastraum frá Bandaríkjunum til Evrópu. Með auglýsingu dómsmrn., dags. 14. marz 1962, voru bandarískir ríkisborgarar frá þeim degi að telja undanþegnir þeirri skyldu að fá áritun á vegabréf sín, skv. heimild í 3. mgr. 8. gr. reglugerðar frá 24. maí 1937. Undanþága þessi gildir eingöngu um ferðamenn og veitir rétt til allt að 3 mánaða dvalar hverju sinni, en veitir hins vegar ekki rétt til að stunda atvinnu hér í landi. Þegar reglur þessar gengu í gildi hér á landi, höfðu þær þegar gilt í þremur Norðurlandanna: Danmörku, Noregi og Svíþjóð, um 15 ára skeið og í Finnlandi um 4 ár. Alls hafa um 60 ríki afnumið kröfuna um vegabréfsáritun fyrir bandaríska ferðamenn, þ. á m. Júgóslavía frá s.l. áramótum. Á þessu tímabili var stöðugt unnið að því, bæði innan Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana, sem Ísland er aðili að, að auka ferðamannastraum milli landa. Sérstaklega hafði verið lögð mikil áherzla á það á meðal Evrópuþjóða að laða. bandaríska ferðamenn til Evrópu. Í samræmi við þetta var tekin sú ákvörðun 1962 að undanþiggja bandaríska ferðamenn, sem vilja ferðast til Íslands, þeirri skyldu að fá áritun á vegabréf sín.

Ekki er vitað til þess, að Bandaríkin hafi gert gagnkvæma samninga við nokkra Evrópuþjóð um afnám vegabréfsáritana. En komi til þess, að slíkir samningar verði gerðir, mun ríkisstj. eðlilega gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess, að málið verði þá tekið á ný til athugunar.

Þessar 60 þjóðir, sem nú hafa afnumið vegabréfsáritunina, eru, að ég ætla, flestar Vestur-Evrópuþjóðirnar: Austurríki, Belgía, Kýpur, Danmörk, Finnland, Frakkland, Þýzkaland, Gíbraltar, Grikkland, Ísland, Írland, Ítalía, Lúxemburg, Malta, Holland, Noregur, Portúgal, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Tyrkland, StóraBretland, öll þessi lönd, sem ég ætla að séu flest löndin í Vestur-Evrópu a.m.k., hafa sem sagt afnumið þessa vegabréfsskyldu hjá sér einhliða, og auk þess eru fjöldamörg ríki í öðrum heimsálfum, eins og í Suður-Ameríku, Asíu, Afríku og víðar, sem hafa farið þessa sömu leið, og þess vegna þótti það ekki út af fyrir sig nein goðgá, þó að Íslendingar gerðu þetta líka. Ástæðan fyrir því, að þetta hefur verið gert, er sú, að það sækjast allir eftir því að gera ferðir á milli landa sem frjálsastar, en í Bandaríkjunum gilda önnur lög um þetta en í flestum löndum öðrum og strangari.

Ég ætla, að í Bandaríkjunum sé æðimörgum neitað um „vísum“ þangað, og slíkt hefur komið fyrir í öðrum löndum, að ég ætla, líka, en yfir því ráðum við ekki. Við getum að vísu gert alveg það sama og þeir. Við getum krafizt vegabréfsáritunar. En íslenzka sjónarmiðið hefur ekki verið nándar nærri eins strangt og það bandaríska, og í flestum tilfellum hafa allir, sem sótt hafa um „vísum“, fengið það, þannig að það er ekki sama ástæða fyrir okkur til þess að halda þessari vegabréfsáritun eins og hún virðist vera fyrir Bandaríkjamenn hjá sér vegna þessara strangari ákvæða, sem gilda í Ameríku. Ég held þess vegna, að ríkisstj. hafi ekki á þessu stigi neitt frumkvæði að því, að þessu verði breytt. Við getum fyrst og fremst ekki blandað okkur í það, hvaða reglur Ameríkumenn setja sér á þessu sviði frekar en öðrum. Því verða þeir að ráða sjálfir. Og ég tel, að þegar meiri hluti allra landa í heiminum hefur haft þann hátt á sem við höfum nú haft, séum við þó ekki enn það stórveldi, að við getum krafizt sérmeðhöndlunar fram yfir íbúa 60 landa annarra, sem hafa sama háttinn á.