08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í D-deild Alþingistíðinda. (2688)

209. mál, staðgreiðsla skatta

Fyrirspyrjandi (Eðvarð Sigurðsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. fjmrh. fyrir greinargóð svör. Mér er það algerlega ljóst, að ýmsir erfiðleikar kynnu að vera á vegi við að taka upp þetta fyrirkomulag, og rökin fyrir því, hversu nauðsynlegt það er, einmitt vegna mjög mikilla sveiflna í okkar atvinnulífi, geta einnig skapað að sjálfsögðu ýmsa erfiðleika í framkvæmd þess, það er mér alveg fyllilega ljóst. En eins og ég gat um í fyrri ræðu, er nú alllangur tími liðinn, síðan í alvöru átti að vera farið að vinna að þessum málum. Mér skildist á ræðu hæstv. fjmrh., að í raun og veru sé það nú aðeins síðustu mánuðina, sem hafi verið tekið til við að vinna úr þeim gögnum og upplýsingum, sem fyrir hendi hafa legið um þessi mál, og nú fyrst séu menn að reyna að gera sér grein fyrir, hvað þetta þýði í framkvæmd. Mér er það fyllilega ljóst, og ég held, að öllum, sem eitthvað hafa hugsað um þessi mál, sé ljóst, að það hlýtur að hafa í för með sér gerbreytingu á skattalögunum, og ég kom hér inn á örfáa þætti, sam aðeins snúa að launþegunum og þeirra vandamálum vegna núverandi fyrirkomulags á skattinnheimtu og á lagningu. Það er margt annað auðvitað í skattalögunum, sem þyrfti að athuga í leiðinni, og spurningin er þá, hvort ekki er rétt að einfalda þessi mál miklu meir a en nú er. Það kann að vera erfitt að ýmsu leyti, en að mörgu leyti held ég, að það sé vel fært, og þá alveg sérstaklega það, hvort á að vera með tvöfalda skattlagningu, annars vegar ríkisskatta og hins vegar skatta til sveitarfélaganna. Hví ekki að hafa þetta eitt og síðan skipti aðilar með sér, eftir því sem um semst eða ákveðið er?

Einu vildi ég sérstaklega vara við í þessum efnum og þó ekki fullyrða um of um það á þessu stigi, ég hef ekki séð neitt af þeim plöggum, sem hér liggja fyrir rannsóknum, en grunur minn er sá og sérstaklega af ýmsum viðræðum við menn, sem um þetta fjalla, að þeir embættismenn, sem hér eiga hlut að máli og fara með skattamálin í dag, séu allt of staðnaðir í gömlum formum og það vanti meira áræði til þess að taka hér til hendi. Ég þori ekkert að fullyrða um það, að þetta fyrirkomulag verði dýrara eða ódýrara, þori ekkert um að segja. En hví ætti það að verða miklu dýrara? Ég sé ekki ástæðu til þess. Það liggur a.m.k. ekki í augum uppi, því að það er æðiflókið, það kerfi, sem við nú erum með, og ég held, að það ætti einmitt að vinna að því að einfalda það mjög mikið og þá ekki síður líka kannske framtölin, eftirlit með þeim og allt það bákn, sem núna er haft í kringum það, til þess að leita að smámunum, en sjást yfir stóru hlutina.

Ég vil að síðustu leggja áherzlu á það, að unnið verði rækilega að þessum málum, og þykir ánægjulegt, ef við fáum bráðlega að sjá árangur af starfi þeirrar n., sem að þessu hefur starfað.