08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 530 í D-deild Alþingistíðinda. (2689)

209. mál, staðgreiðsla skatta

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki ástæða til að gera aths. við það, sem hv. þm. sagði. Ég vil aðeins leggja áherzlu á það, til þess að það valdi engum misskilningi, að frá því að ríkisstj. gaf þessa yfirlýsingu um, að það yrði stefnt að því að innleiða kerfið nú um síðustu áramót, voru teknar upp ákveðnar aðgerðir í þessu máli og hefur síðan samfellt verið að þeim unnið. Hins vegar, eins og ég áðan sagði, og það má saka mig um gáleysi í því efni, þá hafði ég ekki gert mér til hlítar grein fyrir því, að það hafði ekki verið unnin mikil undirbúningsvinna þá að málinu og það reyndist við nánari athugun miklu flóknara en við höfðum gert okkur grein fyrir, þegar þessi ákvörðun var tekin. En ákvörðunin hins vegar felur mjög í sér vilja ríkisstj. til þess einmitt að mæta þessum óskum, sem hv. fyrirspyrjandi gat um, að innleiða þetta kerfi sem skjótast.

Það var í rauninni aðeins eitt atriði, sem ég vildi hér víkja að, til þess að það valdi engum misskilningi. Hv. þm. varpaði fram þeirri spurningu, hvort skattamennirnir kynnu ekki að vera orðnir of staðnaðir í gömlum formum. Þetta fullyrði ég, að er mikill misskilningur, vegna þess að ég hygg, að breytingar í þessu efni munu ekki stranda á okkar skattasérfræðingum, heldur verði það jafnvel fremur hv. þm. og ýmsir aðrir aðilar, sem megi vænta, að verði hikandi við að breyta mörgu í þessum efnum, sem er ósköp einfalt í huga skattasérfræðinganna, ef þeir þurfa ekki að taka tillit til ýmissa þeirra atriða. sem við þurfum frekar að taka tillit til á Alþ. Það er einfalt í þeirra augum t.d. að sameina innheimtu og álagningu útsvara og ríkisskatta. En við eigum eftir að koma okkur niður á, hvernig á að deila slíku niður milli sveitarfélaga og ríkis, ekki aðeins milli sveitarfélaganna í heild, heldur svo milli einstakra sveitarfélaga. Ég er ekki alveg viss um, að menn séu reiðubúnir til þess eða a.m.k. að það standi ekki töluvert í mönnum að framkvæma það hér á hinu háa Alþ., jafnvel þó að skattasérfræðingarnir muni geta bent á vissa formúlu, sem hægt sé þar eftir að fara. Og eins og ég gat um áðan, hygg ég, að það sé ekki hvað sízt einmitt skattamál eða útsvarsmál sveitarfélaganna og fjármálastefna þeirra, sem kunna að verða örðugur hjalli í þessu. M.a. getur orðið óumflýjanlegt annað en nota sama útsvarsstiga um allt land. Það er að vísu svo að forminu til nú í dag, en þá yrði ekki heimilt að gefa afslátt frá útsvarsstiga, heldur innheimta eftir nákvæmlega sama stiga alls staðar. Og það má svo gera ráð fyrir því, að það verði að afnema eða sameina ýmis gjöld, sem út af fyrir sig er, eins og ræðumaður sagði, góðra gjalda vert, ef menn geta náð samkomulagi um það, og vissulega mundi það einfalda kerfið mjög. Ég tek undir það með honum, að ef þetta kerfi gæti orðið til þess að neyða okkur til meiri einfaldleika í okkar skattheimtu en er í dag, væri það mjög gott. En það er annar galli á þessu, sem menn hafa kannske ekki gert sér grein fyrir, og hann er sá, að einn höfuðvandinn við að innleiða kerfið stafar einmitt af því vandamáli, sem við ætlum að leysa með kerfinu, og það eru hinar mjög mismunandi tekjur manna, því að þetta kerfi byggist allt á áætlunum. Menn verða að gera áætlun fyrir fram um sínar tekjur. Fjöldinn allur af þeim mönnum, sem þessar sveiflur eru hjá, hafa í byrjun árs enga hugmynd um það, hvaða tekjur þeir muni hafa á árinu, og ef við viljum hverfa yfir í það, sem væri auðvitað það einfaldasta af þessu öllu saman, að hafa aðeins einn skattstiga, þ.e.a.s. eina prósentu, þá er þetta mjög einfalt. En meðan menn eru ekki reiðubúnir til að gera það, sem ég er ekki viss um, að menn séu reiðubúnir til í dag, verður að byggja hæð afdráttarins af tekjum manna við það, sem áætla má, að maðurinn komist í háan skattstiga á árinu. Svo getur val verið, að stiginn verði allt annar, þegar öll kurl eru komin til grafar, þegar fer að líða á árið eða í árslokin. Og við skulum ekki haldur gleyma því, að okkar kerfi hér í dag er þannig, að við í rauninni höfum að vissu Ieyti staðgreiðslukerfi skatta, sem er miðað að vísu við liðið ár, en það er fyrirframinnheimtan, sem nú gildir, að ég hygg 5 mánuði ársins, að menn eru að borga sína skatta raunverulega fyrirfram, þannig að breytingin að þessu leyti yrði ekki svo ákaflega mikil, úr því að við getum ekki tryggt það, að menn borgi jafnóðum á þann veg, að það sé endanlegur skattur, sem þeir greiða. En það getur ekki orðið, einmitt vegna þess vanda, sem er að áætla skattinn fyrir fram.