22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 543 í D-deild Alþingistíðinda. (2701)

211. mál, rekstrarvandamál báta

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég verð að taka undir það, sem hér hefur verið sagt, að ég lýsi yfir miklum vonbrigðum mínum með það, hvað hæstv. ríkisstj. hefur gert varðandi þær till., sem vélbátanefndin skilaði á s.l. sumri. Mér sýnist, að svör þau, sem hæstv. ráðh. hefur hér gefið við þessari fsp., sanni það alveg augljóslega, að í stuttu máli sagt hefur ríkisstj. ekkert gert í þessu máli. Till. n. voru um nokkur aðalatriði, þó að margar minni háttar till. fylgdu þar einnig með. Ein aðaltill. n. var viðvíkjandi fiskverði. Það var alveg tvímælalaust sannað af n., að fiskverðið til bátanna hefur farið lækkandi frá því, sem það var ákveðið á árinu 1962. þannig að n. slær því til dæmis föstu, að á árinu 1965 hafi fiskverðið til þessara báta verið a.m.k. 18% of lágt. Og n. taldi, að það þyrfti nú þegar að gera ráðstafanir til þess að hækka fiskverðið um 10% og þar að auki að bæta við 50 aura hækkun á fiskverðið að sumarlagi og að haustlagi, en þetta jafngildir því í rauninni, að á þessu tímabili mundi fiskverðshækkunin nema fullum 20%. Ekkert af þessu hafur komið, því að eins og hér hefur verið bent á, er auðvitað alger misskilningur að tala um það, að þau 8%, sem fiskverðið átti að hækka nú í ársbyrjun eða fyrir árið 1967, sé eitthvert svar við till. n. viðvíkjandi fiskverðinu á árinu 1966. Hækkunin núna, þessi 8%, er knapplega sú hækkun, sem allir launþegar í landinu, sem taka laun samkv. kaupgjaldsvísitölu, hafa fengið laun sín hækkuð um aðeins eftir kaupgjaldsvísitölunni, því að samkv. henni hafa laun í landinu hækkað um 8.3%, en sjómennirnir eiga fyrst að fá þessa hækkun núna á árinu 1967. Þar er aðeins um vísitöluhækkunina eina að ræða, en allt hitt liggur eftir óbætt.

Hinar megintill. n. voru svo viðvíkjandi lánakjörum þessa útvegs, sem hér á hlut að máli. Það var bent á það í n., að það ætti vitanlega að lengja stofnlán bátanna á nýjan leik upp í það, sem stofnlánin voru um áraskeið. En við því hefur ekki fengizt neitt svar enn, og hefði þó verið létt fyrir sjútvmrh. að knýja það í gegn, það efast ég ekkert um, svo framarlega sem menn í bönkum landsins eru ekki farnir að ráða yfir ráðh. sjálfum. Þessi litla lenging, sem hér er getið um á stuttu lánunum, þar er aðeins gripið inn í örlitinn hluta af stuttu lánunum, sem veitt hafa verið til bátanna á undanförnum árum, lánum aðeins til þriggja ára. Í mörgum greinum eru þessi lán til 5 ára eða 6 ára, en n. lagði til, að þau yrðu yfirleitt lengd upp í 10 ár, en þessi allra stytztu í 6 ár, svo að í þessum efnum hefur svo að segja ekkert fengizt fram. Gjaldfresturinn á afborgunum, sem n. leggur til, hefur í rauninni ekki fengizt enn þá. Það liggja fyrir allar upplýsingar í þessu máli, sem máli skipta, þar til farið er að taka beina ákvörðun, og því ástæðulaust, að hin nýja stjórn fiskveiðasjóðs núna segi: Nú geta útvegsmenn komið og gefið upplýsingar um skuldir sínar í þessum efnum. — Það liggur á borðinu hjá stjórninni, hverjar skuldirnar eru hjá hverjum og einum, og hefur legið allan tímann. Þeir vita a.m.k. vel um það, þegar þeir eru að rukka inn þessar skuldir, hverjar þær eru. Þetta er búið að liggja fyrir öll þessi ár. Spurningin er aðeins um það: Á að framkvæma það að lengja lánin, sem þessum gjaldfresti nemur, eða færa afborganirnar aftur fyrir? En sú leið, sem farin var um tíma, að veita gjaldfrest á afborgunum í eitt ár, þannig að sú afborgun komi svo tvöföld raunverulega á næsta ári á eftir, er vitanlega ekki nema versti gálgafrestur. Og ekki er einu sinni unnt að fá niður fellt þetta ósvífna ábyrgðargjald í sambandi við kaup á bátum, þar sem viðskiptabankarnir krækja sér í svona 400—500 þús. kr. af nýju skipi, sem keypt er, hreinlega fyrir ekki neitt, þar sem þeir taka ábyrgð á því að standa við greiðslur, sem Fiskveiðasjóður Íslands hefur ábyrgzt gagnvart þeim. En Fiskveiðasjóður Íslands er einn ríkasti sjóður, sem lánar út í þessu landi. Hann er því alveg fullfær um að sjá um að standa við þessar skuldbindingar, og form bankanna í þessum efnum er ekkert annað en formið eitt. En þeir taka þetta háa ábyrgðargjald eigi að síður. Ekki einu sinni því hefur fengizt aflétt.

Það er vitanlega ekki tími til að ræða þessi mál hér núna, þó að það hefði verið ærið tilefni til þess. En mér sýnist, að hæstv. ríkisstj. þurfi að taka betur á þessum málum, ef eitthvað á undan að ganga, því að það er sýnilegt, að þeir eru nokkuð sterkir, þessir herrar, sem hún á við í þessum efnum og ráða hér lánastofnunum landsins.