22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 551 í D-deild Alþingistíðinda. (2707)

211. mál, rekstrarvandamál báta

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Hæstv. sjútvmrh. bar sig undan því, að hér væri um mikil vandkvæði að ræða í málefnum sjávarútvegsins, og taldi enda, að við í stjórnarandstöðunni smjöttuðum á því, að hér væri um vandræði að ræða. Ég nenni nú ekki að fara að þræta við hann um það. En það væri kannske hollt fyrir hann að átta sig á því, hvernig stendur á þessum vandræðum, sem m.a. þessi mþn., sem skipuð var mönnum úr öllum flokkum, var að gera ákveðnar till, til úrbóta í. lánstími fiskiskipa hafði verið hér í gildi að lögum um áraskeið, en með sérstökum efnahagsráðstöfunum núverandi ríkisstj. var þessi lánstími færður niður og styttur. Hér er því ekki um annan vanda að ræða en að reyna að kippa þessu aftur til baka, sem menn eru búnir að sjá, að var rangt. Vextirnir af stofnlánum sjávarútvegsins hafa líka verið fastir í mjög langan tíma, en þeir hafa nú verið hækkaðir. Nú hafa menn séð, að þessi þáttur útgerðarinnar getur ekki risið undir hækkandi vöxtum, og vitanlega stafar vandi af því. Vandinn er þarna kominn, og það ber vitanlega að færa þetta til baka aftur. Nákvæmlega er eins ástatt með dráttarvextina, sem við gerðum tillögu um. Dráttarvextirnir voru ekki svona háir um langan tíma, en þeir voru knúðir upp af þeim mönnum, sem að mestu stóðu að tillögum ríkisstj. í efnahagsmálum. Þaðan stafar vandinn.

Hæstv. sjútvmrh. sagði, að 8% fiskverðshækkunin núna mundi kosta í kringum 100 millj. kr. og hér væru menn því ekki að leika sér að neinum smátölum. Þetta gefur auðvitað auga leið, að þá hefur verið haft af bátaútveginum í landinu líklega kringum 200 millj. kr. á árinu 1965 aðeins, þegar fiskverðið var sannanlega 18% of lágt. Nei, það eru nefnilega engar smáræðistölur. þegar úr þarf að fara að bæta. En ég held, að það væri mikil þörf á því, að okkar sjútvmrh. færi að temja sér það að líta dálítið öðrum augum á þessar háu tölur, þegar þær eru að koma fyrir hjá honum og öðrum í ríkisstj. við önnur tilvik. Menn töluðu ekki mikið um háar tölur í ársbyrjun 1966, þegar þeir voru að gera hér ráðstafanir til þess að auka tekjur ríkissjóðs um nokkur hundruð milljóna kr. Enda fór það líka svo, m.a. af því, að sjávarútvegurinn útvegaði mikinn gjaldeyri, þá fóru tekjur ríkissjóðs á árinu 1966 líklega fram úr áætlun fjárlaga í kringum 800 millj, kr. Og ég man ekki betur en það væri formaður Alþfl., sem upplýsti það nýlega, að greiðsluafgangur hjá ríkissjóði hefði orðið á árinu á milli 400 og 500 millj. kr. Menn þurfa því ekki, þegar þeir eru að 1eiðrétta þessi mál, að vera að kvarta undan peningaleysi. Þeir eru búnir að taka peningana inn. Þeir eru búnir að leggja þessa bagga m.a. á framleiðsluna, og þá er ekki talað um stórar tölur, en ef þarf að skila þessu aftur til baka; þá eru þetta feiknalegar tölur, sem helzt enginn maður ræður við.

Ég held, að hvorki hæstv. sjútvmrh, né aðrir þurfi að bera neinn kvíðboga fyrir því nú, að það sé ekki aðstaða til þess að leiðrétta þessi mál, eins og þau standa nú, ef fullur vilji er fyrir hendi. Það er nefnilega geta til þess, ef rétt er að farið. Það er alveg ástæðulaust að koma peningastofnunum landsins upp á það að innheimta á þann hátt, sem þær gera, óþarflega háa vexti, allt of háa dráttarvexti o.s.frv., eins og þær knýja nú fram með samþykki ríkisstj., og það væri vitanlega einnig hægt að rétta til framleiðslunnar af þeim gjöldum, sem ríkissjóður hefur tekið til sín um of á s.l. ári, ef það væri skilningur fyrir hendi. Og ég held einmitt, að sjútvmrh. þurfi að átta sig á því.