22.02.1967
Sameinað þing: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 554 í D-deild Alþingistíðinda. (2709)

211. mál, rekstrarvandamál báta

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Aðeins nokkur orð. — Í fyrsta lagi í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Sunnl. sagði. Hann harmaði það, að vélbátaútgerðarnefndin skuli ekki hafa komizt að þeirri niðurstöðu að leyfa auknar togveiðar báta í landhelgi. Þá vil ég segja það, að það gefur ekki rétta mynd, þau bréf, sem hann vitnaði í, heldur gefur það miklu réttari mynd af hugarfari bátaútvegsmanna í landinu, þegar fulltrúar þeirra koma saman í heildarsamtökum þeirra, eins og á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna, en þar hafðist það, að þar var samþ. till. um, að það yrðu leyfðar botnvörpuveiðar innan landhelgi, bæði fyrir báta og togara. Sú till. var samþ. með litlum atkvæðamun og auðvitað með atkv. allra togaraeigenda, og það var meira en helmingur af heildaratkvæðamagninu, sem greiddi atkv. með þessari till. Ég hygg, að togaraeigendur hefðu ekki greitt atkv. á þeim fundi með auknum botnvörpuveiðum fyrir báta eingöngu, og þá getur hv. þm. séð það greinilega, að þeir menn, sem vilja auknar botnvörpuveiðar í landhelgi, eru meðal bátaútvegsmanna í miklum minni hl. Þar mun hafa ráðið mjög ásamt öðru atriði, sem kom fram í nál. vélbátaútgerðarnefndar, ákvörðun okkar flestra nm., ef ekki allra.

Ég er undrandi yfir því, að hv. 1. þm. Austf. skuli segja, að það sé óljóst, hvað ríkisstj. ætlar sér að gera í sambandi við fiskverðið. Ég get ekki skilið það, að jafngreindur og glöggur maður og hv. 1. þm. Austf. er skilji það ekki, hvað þetta er ljóst og augljóst, sú yfirlýsing, sem fram kemur frá ríkisstj. um fiskverðsákvörðunina. Það kemur alveg greinilega fram, að ríkissjóður tekur að sér að greiða 8% fiskverðshækkun, 5% fiskverðshækkun í 2 mánuði á ári yfir netavertíðina og að öðru leyti 11% fiskverðshækkun alla aðra mánuði ársins. Þessi fiskverðshækkun mun, miðað við meðalafla áranna 1965 og 1966, verða í kringum 104 millj. kr. Menn geta deilt um það óendanlega, hvort þessi fiskverðshækkun sé of lítil eða ekki, um það ætla ég ekki að ræða. Ég tel, að bátaútvegurinn þyrfti á meiri hækkun að halda. En þegar við höfum í huga það ástand, sem núna er í fisksölumálum okkar, og þau lög, sem við verðum að starfa eftir í sambandi við verðlagningu sjávarafurða, um verðlagsráð sjávarútvegsins, þá segir í 7. gr. þeirra laga, að verðlagsráð skuli við ákvarðanir sínar um lágmarksverð á sjávarafla m.a. hafa hliðsjón af markaðsverði sjávarafurða á erlendum mörkuðum, svo og framleiðslukostnaði þeirra. Miðað við þær aðstæður, sem núna eru, hefur frystur fiskur lækkað í markaðslöndum okkar Íslendinga um 12%. Samkv. því hefði fiskverðið orðið að lækka, ef ekki hefði verið gripið til annarra ráðstafana. Ríkisvaldið grípur hér inn í á mjög myndarlegan hátt, þó að engan veginn sé hægt að tryggja hallalausan rekstur vélbátaútgerðarinnar í landinu, hvað þá heldur, ef gæftaleysi er, eins og einn hv. þm. minntist á hér áðan.

Það er ósköp eðlilegt, þegar jafnskyndilegt verðfall verður í höfuðútflutningsgrein okkar eins og frysta fiskinum, að það taki nokkurn tíma að kanna þau mál, og það hefur verið unnið sleitulaust að þeim málum allan janúarmánuð og það sem af er febrúar, og vonandi eru þau mál að leysast, og eins og hæstv. sjútvmrh. gat um, koma þessi mál til með að liggja hér fyrir innan nokkurra daga. Hitt er skiljanlegt, að útvegsmenn og sérstaklega við þær aðstæður, sem nú er við að etja, bæði gæftaleysi og engan veginn sæmileg aflabrögð, eigi illt með að bíða eftir þeim uppbótum, sem þeim hefur verið lofað. En við vonum auðvitað, að það þurfi ekki að bíða marga daga enn þá.

Ég vil segja einnig hér að lokum í sambandi við hinar margræddu till. vélbátaútgerðarnefndarinnar, að ég harma það, hvað það hefur gengið seint afgreiðsla á þeim málum, þó sérstaklega á stofnlánum til fiskiskipanna, og ég tel, að till. vélbátaútgerðarnefndar í þeim efnum hafi verið mjög í hóf stillt og það hafi gengið fullerfiðlega að fá stjórn fiskveiðasjóðs til þess að fallast á þær till., sem við í vélbátaútgerðarnefnd komum með. En ég vona og vænti þess fastlega, að hæstv. sjútvmrh. fylgi þessum málum vel eftir og það verði hann, sem ráði í þessum efnum og verði við óskum útvegsmanna almennt, en ekki stjórn fiskveiðasjóðs, sem hefur þráazt á margan hátt við að verða við þessum sjálfsögðu óskum vélbátaútgerðarnefndarinnar og útvegsmanna í landinu almennt.