01.03.1967
Sameinað þing: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í D-deild Alþingistíðinda. (2720)

106. mál, öryggisbúnaður álverksmiðju í Straumsvík

Fyrirspyrjandi (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. ýtarleg svör við fsp. mínum, og ég vil einnig þakka honum fyrir það, sem augljóst er, að hann hefur brugðizt vel við ábendingum, sem fram komu hér á Alþ. í fyrra. Hann hefur sett af stað krafta í því skyni að athuga þetta mál allt nánar en gert hafði verið áður, leitað bæði til heilbrigðisþjónustunnar íslenzku, svo og til manna á tæknisviðinu. Þetta tel ég vera þakkarvert, og ég læt í ljós ánægju með það.

Það kemur í ljós af svari hæstv. ráðh., að leitað hefur verið umsagnar landlæknis um þessi mál og hann gefið svör eða álitsgerðir. bæði í júní s.l. og eins í nóvember, sömuleiðis hefur verið leitað til borgarlæknisins í Reykjavík og hann látið í Ijós sínar skoðanir á þessu máli, og loks að þessi mál og þessar álitsgerðir eru nú í frekari athugun. Þetta er gott. Hvað snertir heilbrigðislega hlið þessa máls, tel ég hana í góðum höndum þeirra landlæknis og borgarlæknisins í Reykjavík.

Varðandi svar hæstv. ráðh. við 2. fsp. minni um það, hvers konar bræðsluker yrðu notuð, virðast skoðanir um bræðsluker meðal verkfræðinga nútímans mjög á tvo vegu. Ég hef hér í höndum grein eftir svissneskan verkfræðing, Paul H. Müller frá Zürich, þar sem þetta mál er rætt og m.a. hvers konar bræðsluofnar séu hentugastir. Þessi grein er skreytt myndum og teikningum og þar frá því sagt, að hinar svokölluðu „forbökuðu anóður“, þ.e.a.s. opin bræðsluker séu lökust hvað það snertir að sleppa eiturloftinu út í umhverfið. 70% fara út í umhverfið. Það er sýnd mynd af Söderbergsofnum, tveim gerðum. Önnur hleypir 40% eiturloftsins út í umhverfið, en hin aðeins 28%, eins og ég gat um áðan. Þetta er auðvitað mál, sem hæstv. ráðh. og ég getum ekki deilt um, en það er vert að fylgjast með því og athuga það mál þá betur, hvernig á þessum mikla mun á skoðunum tæknifræðinga stendur.

Ég hygg, að það, sem mest er um vert í þessu máli, sem skeð hefur til þessa, sé það, að nú er horfið frá því að byggja verksmiðjuna án möguleika á reykeyðingartækjum. Nú á að byggja þessa verksmiðju þannig, að möguleiki verði á því, að reykeyðingartæki verði sett þar, annaðhvort strax í byrjun eða síðar. Þetta tel ég mjög mikilsverðan áfanga, og ber að þakka það, en ég treysti því, að baráttu okkar við hið svissneska félag verði haldið áfram. Þetta er aðeins áfangi, sem hefur náðst.

Eins og hæstv. ráðh. tók fram, var forstjóri Swiss Aluminium nýlega hér á ferð, herra Meyer, og eftir blaðafregnum að dæma virðist það harla léttlyndur maður og gamansamur. Hann tók því, eftir því sem Morgunblaðið sagði, mjög fjarri að gera verksmiðjuna þannig úr garði í öryggislegu tilliti, að sómasamlegt sé að mínum dómi. Hann sló á glens og sagði, að flúorinn væri í sjálfu sér ágætur, hann styrkti aðeins tennur barna, sem yrðu fyrir flúoráhrifum. Mér datt í hug, þegar ég las þessa gamansemi forstjórans. hvort þeir mundu hafa haft einhverja svipaða gamansemi á takteinum í Húsnesi, forstjórar Alusuisse, þegar var verið að gefa yfirlýsingar um hið fullkomna öryggi þeirrar verksmiðju.

Ég skal láta þessu máli mínu lokið, og ég vænti þess, að áfram verði barizt sérstaklega fyrir því, að verksmiðjan verði ekki opnuð eða þar verði ekki hafin starfsemi öðruvísi en að hreinsunartækjum verði komið fyrir þar frá byrjun. Og að lokum vil ég svo enn ítreka þakkir mínar til hæstv. ráðh.