01.03.1967
Sameinað þing: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í D-deild Alþingistíðinda. (2724)

215. mál, könnun á hag dagblaðanna

Fyrirspyrjandi (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Fyrir rúmu ári var tilkynnt í einu af dagblöðum stjórnarinnar, að ríkisstj. mundi setja n. manna til þess að athuga um hag og rekstur dagblaðanna, og fyrsta spurning mín hér er um, hver hafi orðið árangur þeirrar könnunar á hag og stöðu íslenzku dagblaðanna. Það er vitað og hafa farið fram um það í blöðunum mjög ýtarlegar umr., að það er mjög alvarleg hætta, sem vofir yfir, sem beinlínis snertir íslenzkt prentfrelsi, og það er vitað, að öll dagblöðin nema eitt eru rekin með mjög miklu tapi.

Þetta er ekki sérstakt íslenzkt fyrirbrigði, heldur er það svo í öllum okkar nágrannalöndum, að það, sem þar hefur verið kallað blaðadauði, hefur færzt mjög í vöxt á undanförnum árum, þannig að til verulegrar hættu horfir um aðstöðu almennings til þess að láta sínar mismunandi skoðanir í ljós. Það er vitað, að í Bretlandi er svo komið, að flestöll dagblöð þar eru gefin út af tveimur blaðahringum, og í Vestur-Þýzkalandi er svo komið, að 80% af öllum dagblöðum þar eru gefin út af einum einasta aðila.

Hér heima hefur verið sameiginlegt álit allra þeirra, sem rætt hafa um þessi mál af hálfu hinna ýmsu dagblaða, og einnig tekið undir það í því eina dagblaði, sem vitað er, að rekið er með góðum fjárhagslegum árangri, að þetta mál sé svo alvarlegt, að um þetta þurfi að fjalla á opinberum vettvangi, það sé alveg óhjákvæmilegt, að þjóðin horfist í augu við það, að svo fremi sem þannig haldi lengi áfram, geti svo farið, að svo og svo mörg af dagblöðunum, sem ekki hafa því sterkari fjárhagslegan bakhjarl, verði að hætta. Það sjá allir, hvaða voði vofir yfir. Prentfrelsið er þá raunverulega ekki lengur orðið fyrir fólkið sjálft í landinu, heldur raunverulega fyrir peningana. Og þetta gerir það að verkum, að þetta mál þarf að taka fyrir á almennum vettvangi. Þess vegna bar ég þessa spurningu fram til þess að vita, hvort hæstv. ríkisstj. hefði komizt að nokkurri niðurstöðu í þessu alvarlega máli, og ef svo hefði verið, þá hvaða ráðstafanir hún hygðist gera, til þess að hér yrði ekki sama þróun á Íslandi eins og sums staðar hefur verið úti í heimi, að fleiri og fleiri af blöðunum, einkum þau smærri, deyi út og almenningur njóti þar af leiðandi minnkaðs prentfrelsis. Ég vil leyfa mér að vona, að hæstv. forsrh. geti gefið okkur nokkrar upplýsingar um, hvernig þetta stendur og hvort vænta, megi ráðstafana. frá hálfu hæstv. ríkisstj. sjálfrar í þessum efnum eða hvort hún mundi kannske kæra sig um að leita til Alþ. í þessu sambandi.