08.03.1967
Sameinað þing: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 577 í D-deild Alþingistíðinda. (2733)

213. mál, slysatrygging sjómanna

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. N. sú, sem á sínum tíma hafði til athugunar viðbótartryggingu sjómanna á bátum undir 12 lestir að stærð, taldi, að um tvær leiðir væri að velja til lausnar því máli, sem hv. fyrirspyrjandi hefur hér hreyft, og um störf n. sagði fyrirspyrjandi réttilega hér frá áðan, svo að óþarft er að rekja það aftur hér. Annars vegar var till. um, að viðbótartrygging þessi, sem um ræðir til sjómanna á bátum undir 12 lestum, yrði hjá Tryggingastofnun ríkisins, og hins vegar, að þessi viðbótartrygging væri hjá hinum almennu tryggingarfélögum. Fyrri leiðin, að Tryggingastofnunin annist þessa viðbótartryggingu, brýtur í bága við tvær meginreglur almannatrygginganna. Í fyrsta lagi væri brotin sú regla, að allir njóti bar sömu bóta án tillits til atvinnu. Í öðru lagi bryti ákvæði um tiltekna bótafjárhæð, 200 þús. kr., algerlega í bága við reglur laga um bótagreiðslur vegna slysa almennt samkv. löggjöfinni. Frambærileg breyting á almannatryggingalögunum, sem leiddi af sér bótahækkun þá, sem sjómenn á stærri skipum hafa tryggt sér með samningum og rætt er um að afla einnig sjómönnum í umræddum till. n. á bátum undir 12 lestum að stærð, yrði að vera almenn hækkun slysabáta, sem nægði til, að umræddum viðbótarbótum sjómanna yrði náð.

Núgildandi ákvæði um slysabætur eru tiltölulega ný, þar eð lög um almannatrysgingar voru endurskoðuð fyrir 3—4 árum, þ. á m. ákvæðin um slysabætur. Um þessar bætur gilda nú lög nr. 40 frá 30. apríl 1963.

Ef lögfesta setti þá almennu hækkun slysabóta, sem nægði til þess að sjómenn fengju hækkun, sem svaraði til 200 þús. kr. viðbótartryggingar, sem hér um ræðir, leiddi af því verulega hækkun iðgjalda, sem mundi a.m.k. fyrst um sinn eingöngu lenda á útgerðarmönnum, og mundu þeir, a.m.k. eins og á stendur, telja nokkuð að sér svikizt, ef svo væri gert fyrirvaralítið. Þá er þess einnig að gæta, að útgerðarmenn í þessu tilfelli, þ. e, á bátum undir 12 lestum, eru í flestum tilfellum sjómennirnir sjálfir. Þó að þessi leið væri farin, mundi það sennilega ekki veita varanlega lausn þessa máls, vegna þess að reynslan hefur sýnt, að þó að sjómenn hafi fengið kröfur sínar teknar til greina með almennum hækkunum á slysabótum, hafs þeir ávallt að skömmum tíma liðnum gert kröfu til þess að njóta nokkuð hærri slysabóta en aðrar atvinnustéttir í landinu. Mál þetta verður því varla leyst með breyt. á l. um almannatryggingar, nema þá með því að brjóta þá grundvallarreglu þeirrar löggjafar, sem ég áðan minntist á, og ég hygg, að það verði talið óæskilegt og mundu fáir mæla með þeirri stefnubreytingu. Það er því alveg rétt, eins og hv. fyrirspyrjandi vék hér að, að mál þetta er ekki alveg auðleyst.

Síðarnefnda leiðin, að kaupa viðbótartryggingu hjá hinum almennu tryggingafélögum, stendur að sjálfsögðu öllum opin. Á þann hátt hefur sjómönnum á stærri skipum verið tryggð sú 200 þús. kr. viðbótartrygging, sem þeir nú njóta. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að sjómenn á bátum undir 12 lestum að stærð geti notið sams konar viðbótartryggingar, enda hafa margir þeirra þegar gert það. Lagasetning eins og n. gerir ráð fyrir, er felur í sér sérstaka viðbótartryggingu tiltölulega fámenns atvinnuhóps, er varhugavert fordæmi, sem getur haft í för með sér alvarlega ringulreið, sem næsta lítið vit væri í. Í þessu sambandi má geta þess, að Iðjuverkafólki hefur frá 1. jan. 1967, í samningum þar áður, verið tryggð viðbótartrygging, sem nemur 500 þús. kr. Viðbótartryggingar sem þessar getur hvaða atvinnustétt sem er tryggt sér með samningum við atvinnurekendur eða með sjálfstæðum samningum við hin almennu tryggingafélög, og um það er ekki nema gott eitt að segja, því að það er öllum frjálst.

Með hliðsjón af því, sem hér hefur verið rakið, er vandamál þetta ekki auðleyst, eins og hv. fyrirspyrjandi reyndar viðurkenndi einnig og eins og mér og öðrum kann að hafa virzt við fyrstu sýn. Frv. umræddrar mþn., sem fyrirspyrjandi minntist hér á, hefur rn. sent til umsagnar Íslenzkrar endurtryggingar og nú í gær borizt svar hennar og til sambands tryggingafélaganna, en svar þeirra samtaka hefur ekki borizt, og mun ríkisstj., þegar þær umsagnir liggja fyrir, taka ákvörðun um, hvort frv. n. verður flutt.

Varðandi þá munnlegu fsp., sem fyrirspyrjandi gat um í lok sinna orða hér áðan, hvort nál. yrði birt þm., tel ég rétt, að ákvörðun um það bíði, þangað til sú ákvörðun hefur verið tekin, hvort annað hvort þessara frv. verður flutt, en eins og ég áðan sagði, verður sú ákvörðun tekin strax og umsögn sambands tryggingafélaganna hefur borizt.