08.03.1967
Sameinað þing: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í D-deild Alþingistíðinda. (2734)

213. mál, slysatrygging sjómanna

Fyrirspyrjandi (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans. Ég vil taka fram í sambandi við það svar hans, að vafamál væri, hvort nál. yrði birt, að ég held, að það sé alveg óhjákvæmileg og eðlileg málsmeðferð, að það komi í hendur þm., þar sem n. starfaði skv. sérstakri þáltill., og ekki um annað að ræða en álit hennar verði birt þm., svo að það geti þá verið upphafið að endalokunum á lausn þessa máls, sem svo mjög hefur vafizt fyrir þinginu að leysa. Það má vera, eins og hæstv. ráðh. benti á, að sú leið, sem sjómannatrygginganefndin greindi frá, að málið falli undir almannatryggingarnar, sé ekki algerlega í samræmi við reglur almannatrygginga, eins og nú er. En á það má benda, að núgildandi reglur almannatrygginga eru ekkert endanlegt réttlæti, og það getur auðvitað komið algerlega til mála og kemur alltaf til greina á hverjum tíma að breyta þeim reglum. Ég hef t.d. aldrei séð, að það sé endanlegt réttlæti í þeim reglum almannatrygginga að greiða bætur fyrir dauða vegna slysa með hærri fjárhæðum en dauða vegna, sjúkdóma. Ég hef ekki séð, að ekkja standi betur að vígi, þó að maður hennar hafi dáið á sóttarsæng, en þó að hann hafi fallið frá vegna slysa. Og alltaf kemur til álita að breyta þessu og hæpið að ganga algerlega út frá því í sambandi við lausn þessa máls, að þessum reglum almannatrygginga megi ekki hnika í neinu. En ég ítreka það, sem ég sagði áðan, að þó að það taki alllangan tíma að fá fram jákvæða viljayfirlýsingu á Alþingi um það, að allir íslenzkir sjómenn ættu að búa við jafnrétti í tryggingamálum, hefur sá vilji nú legið fyrir í þrjú ár, og það virðist vera ærinn tími til þess að fá fram lausn á þessu máli, ekki sízt þegar það er haft í huga, að það hefur þennan tíma verið skv. ákvörðun Alþ. í höndum sérstakrar n., sem var falið að skila áliti einu ári eftir að henni var fengið málið. Og hvernig sem á málið er litið og enda þótt ýmis vandkvæði séu á að leysa það, svo að öllum líki, á það ekki að dragast lengur, að það komi til endanlegrar meðferðar Alþ. Er þá ekki óeðlilegt, að til grundvallar verði lögð skýrsla sjómannatrygginganefndar, sem skipuð var skv. ákvörðun Alþ. fyrir 3 árum. Og ef það er ekki ætlun hæstv. ríkisstj. að flytja frv. á grundvelli þeirra till., þykir mér einsætt, að það álit verði þá allavega sent hv. alþm., svo að þeir geti á grundvelli þess eða með hliðsjón af því stigið þau næstu skref, sem stíga þarf í þessu máli, því að það er ekki til sóma fyrir Alþingi að láta slíkt réttlætismál sjómannastéttarinnar velkjast óleyst, svo að árum skiptir, eftir að Alþingi hefur þó lýst yfir vilja sínum til þess að þetta mál verði leyst.