08.03.1967
Sameinað þing: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 581 í D-deild Alþingistíðinda. (2744)

141. mál, Atvinnuleysistryggingasjóður

Fyrirspyrjandi (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Á þskj. 277 ber ég fram fsp. til hæstv. félmrh. um atvinnuleysistryggingasjóð. Ég vona, að fsp. skýri sig sjálf, en tel þó rétt að fara nokkrum orðum um atvinnuleysistryggingar og markmið sjóðsins.

Það mun hafa verið strax á árinu 1936, þegar lög um almannatryggingar voru samþ., að sett var heimild inn í lögin um stofnun atvinnuleysistrygginga. Ákvæðið mun þó aðeins hafa orðið pappírsgagn í 20 ár, því að það var ekki fyrr en á árinu 1958, sem lög voru sett um atvinnuleysistryggingasjóð og þeim sjóði var séð fyrir tekjum. Skv. 5. gr. þeirra laga skulu atvinnurekendur greiða iðgjald í sjóðinn eftir vissum reglum, þá var sveitarfélögunum skv. 11. gr. gert skylt að greiða jafnháa upphæð og iðgjaldi atvinnurekenda næmi og loks ákvæði skv. 12. gr., að ríkissjóður legði fram fé, er næmi tvöföldu iðgjaldi atvinnurekenda. Við stofnun sjóðsins fyrir tæpum 11 árum munu menn hafa gert sér grein fyrir því, að ef atvinnuástand í landinu yrði gott, mundi þarna myndast stór sjóður, og var þá gert ráð fyrir, að hann lánaði fé með vissum skilmálum til eflingar atvinnulífi landsmanna, sem hann vissulega hefur gert í ríkum mæli, og mun stjórn sjóðsins, hver sem hún hefur verið, hafa dreift lánum um landsbyggðina sanngjarnlega. En í reikningum sjóðsins, eins og þeir birtast í B-deild Stjórnartíðindanna og tímariti Tryggingastofnunar ríkisins, er ekki að finna þær upplýsingar, er ég spyr um, nema að nokkru leyti. Að sjálfsögðu sýna reikningarnir, hve höfuðstóll er hár og hverju bætur hafa numið, en síðasti reikningur, sem ég hef séð, er til ársloka 1965.

Það má vel líta á það sem fróðleikslöngun, að fsp. þessi er fram borin, en það er þó fleira, sem kemur til, bæði að fá það fram, hve hár sjóðurinn var orðinn um síðustu áramót, og einnig að fá yfirlit yfir það, hvernig lánunum hefur verið skipt á milli hinna ýmsu starfsgreina þjóðarinnar, svo og skiptingu lána á milli landshluta. Fyrir fram vil ég að sjálfsögðu ekkert segja um það, en þetta fáum við væntanlega að heyra hér á eftir hjá hæstv. félmrh. Ég vildi verða síðastur allra til þess að ofmeta það, sem lánað er til hinna dreifðu byggða landsins, en ég get þó ekki látið undir höfuð leggjast að minnast á þá almennu skoðun, sem kemur mjög oft fram, bæði utan þings og innan, að atvinnuvegirnir í þéttbýlinu þurfi síður á lánum að halda en annars staðar á landinu, en ég segi þetta ekki vegna stjórnar atvinnuleysistryggingasjóðs, nei, það vil ég ekki gera, a.m.k. ekki að svo komnu máli, heldur er mér í huga atvinnubótasjóðurinn, sem á sínum tíma var eingöngu bundinn við landssvæðið frá Snæfellsnesi vestur og norður um að Vestmannaeyjum. Svo að ég nefni eitt dæmi, að þegar bátur var seldur frá Austfjörðum til Suðurnesja, mátti lánið ekki fylgja með, heldur varð að greiða það upp, þar sem báturinn var seldur inn á bannsvæði. Varðandi atvinnubótasjóð breyttist þetta viðhorf í byrjun starfstíma núv. hæstv. ríkisstj. eða á árinu 1960 þannig, að sá sjóður lánaði um tíma til bátabygginga hvar sem var á landinu. En svo hvarf stjórn atvinnubótasjóðs frá þessu, að mig minnir 1. maí 1964, og bátar, sem væru frá lögsagnarumdæmum á Suðvesturlandi, gætu ekki fengið lán úr þeim sjóði. Og eins og hv. þm. er kunnugt, er hinn nýi atvinnuaukningarsjóður ætlaður fyrst og fremst fyrir þann hluta landsins, er ég nefndi áðan. Ég er nú víst kominn út fyrir efnið, en ég gat ekki stillt mig um að minnast á þetta, einmitt vegna þess, hve vel ég þekki vanda margra á þessu svæði, bæði atvinnufyrirtækja sjávarútvegsins og þjónustufyrirtækja hans. Þess vegna hef ég mikla löngun til þess að sjá, hvernig lánveitingar atvinnuleysistryggingasjóðs hafa skipzt, þar sem hann er ekki bundinn af slíkum reglum sem atvinnuaukningarsjóður, en ég trúi, að hann hafi fylgt þeirri höfuðreglu að stuðla að uppbyggingu atvinnufyrirtækja, svo að atvinna geti orðið sem jöfnust, hvar sem er á landinu, enda er það að mínum dómi mesta atvinnuleysistryggingin.